MEKÓ 2021-2022

Page 6

Bókasafn Kópavogs býður upp á fjölda viðburða og öflugt klúbbastarf. Kynntu þér fjölbreytta þjónustu bókasafnsins á bokasafn.kopavogur.is.

HANNYRÐAKLÚBBURINN KAÐLÍN

Við værum ekki að hittast ef það væri ekki fyrir bókasafnið

BÓKAKLÚBBURINN LESIÐ MILLI LÍNANNA

Skemmtilegt að lesa með öðrum Ásta Hjálmtýsdóttir hefur verið fastagestur á Bókasafni Kópavogs síðan hún var barn. Nú hittir hún aðra bókaorma einu sinni í mánuði til að spjalla um bækur. „Lesið milli línanna er bókaklúbbur á vegum Bókasafns Kópavogs þar sem við hittumst nokkrar konur fyrsta fimmtudag í mánuði,“ segir Ásta. „Við erum þá búnar að lesa tvær bækur og röbbum saman um þær í svona einn og hálfan klukkutíma.“ Hún segir bókaverðina, Brynhildi og Halldóru, velja bækurnar fyrir hópinn. „Þetta er bara svona það sem þeim finnst áhugavert, bæði nýtt og gamalt. Þær leggja bækurnar fyrir og passa að það séu til nógu mörg eintök á bókasafninu fyrir okkur sem er dálítið mikið atriði.“ Ásta segist vera mikill bókaormur. „Mér finnst gaman að öllum bókum og hef lesið mikið síðan ég var barn. Ég held að ég hafi verið níu ára þegar ég fór fyrst á Bókasafn Kópavogs og hef verið fastagestur þar síðan. Ég les allar nýjar bækur sem koma út fyrir jólin og er búin að lesa svakalega mikið. Þannig að þegar er verið að tala um einhverjar bækur er ég yfirleitt búin að lesa þær.“

Hún segir bókaklúbbinn Lesið milli línanna vera opinn öllum. „Ætli við séum ekki átta sem komum en ekki allar alltaf. Sú elsta er um nírætt og er mjög skemmtileg kona og svo gaman að hafa hana í hópnum því hún hefur oft aðeins öðruvísi sjónarhorn og er mjög víðlesin. Sú yngsta er fjörutíu og fimm ára þannig að við spönnum vítt aldursbil.“ Hún segir mikinn mun á að lesa fyrir sjálfa sig eða bókaklúbbinn. „Ég hugsa alltaf um bækurnar á meðan ég er að lesa en ég hugsa öðruvísi þegar ég veit að ég er að fara að tala um þær, tek eftir fleiru. Og þegar ég heyri aðrar konur tala um bækurnar uppgötva ég margt líka. Þetta er miklu skemmtilegra. Ég myndi ekki vilja ræða allar bækur en mér finnst mjög gaman að heyra önnur viðhorf og skoðanir. Sumum finnst kannski einhverjar bækur frábærar sem öðrum finnst hundleiðinlegar.“ Lesið milli línanna fer fram í Bókasafni Kópavogs fyrsta fimmtudag í mánuði og öll eru velkomin.

Rafrænt bókasafnskírteini Lánþegum Bókasafns Kópavogs býðst nú að fá rafrænt bókasafnsskírteini. Skírteinið getur verið alfarið í símanum ef lánþegi kýs það og því þarf ekki að örvænta ef gamla plastskírteinið gleymist heima.

Kíktu í Bókasafn Kópavogs og fáðu bókasafnsaðganginn þinn beint í símann!

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín hittist alla miðvikudaga. Í Kaðlín eru nú allt upp í 30 konur og Guðlaug Rafns Ólafsdóttir er ein þeirra. „Við höfum verið að hittast á Bókasafninu í þrjú ár, skvísur á öllum aldri með handavinnuna okkar, “ segir Guðlaug sem sjálf er leikskólakennari sem þurfti að hætta störfum vegna veikinda. „Þarna kynnumst við og getum talað um okkar áhugamál og miðlað þekkingu saman óháð aldri. Konurnar á safninu eru alveg dásamlegar og leggja sig allar fram um að okkur líði vel. Við værum ekki að hittast ef það væri ekki fyrir bókasafnið því það heldur utan um þennan hitting.” Kaðlín hefur verið með ýmislegt á prjónunum þessi ár og meðal annars staðið fyrir því að Prjóna til góðs. „Við höfum til dæmis prjónað og safnað hlýjum fötum fyrir karla í gistiheimili á Lindargötu og fyrir bráðageðdeildina á Landspítalanum. Við höfum verið með samprjón, prjónuðum ákveðið sjal sem við völdum og útkoman var mismunandi eftir því hver hélt á prjónunum.“ Guðlaug hefur sótt bókasafnið árum saman. „Ég hef verið þar bæði með börnunum mínum, leikskólabörnum og nú barnabarni og alltaf jafn ánægjulegt að koma þangað. Fólk á öllum aldri, krakkar í æðislegu barnadeildinni, háskólafólk að læra fyrir próf, allir klúbbarnir sem eru með aðsetur í safninu og svo við með hannyrðirnar okkar.“ Guðlaug hvetur alla sem hafa lausa stund milli tvö og fjögur á miðvikudögum til að kíkja á bókasafnið. „Sama hver þú ert og á hvaða aldri, á bókasafninu er eitthvað fyrir alla.“


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.
MEKÓ 2021-2022 by MEKÓ | Menning í Kópavogi - Issuu