6 minute read

Sköpun með þátttöku barna

Stundum er erfitt að finna orð til að lýsa einhverri upplifun eða reynslu vegna þess hve nýstárleg hún er og spennandi. Þetta er raunin um starf þverfaglega hönnunarteymisins Þykjó í Gerðarsafni, Salnum, Bókasafni Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs en teymið var staðarlistamenn Menningarhúsanna síðasta vetur. Sigríður Sunna Reynisdóttir, leikmynda- og búningahönnuður, er stofnandi og listrænn stjórnandi Þykjó en með henni starfa Erla Ólafsdóttir arkitekt, Sigurbjörg Stefánsdóttir fatahönnuður og klæðskeri og Ninna Þórarinsdóttir barnamenningarhönnuður.

Sigríður Sunna Reynisdóttir. Mynd: Sigga Ella

Advertisement

„Þetta fræ spíraði í hausnum á mér fyrir um þremur árum,“ segir Sigríður Sunna og á þar við búningahönnunina sem var upphafið að verkefninu. „Ég trúði ekki að það væri enginn að gera það sem mig langaði að gera, en þá brettir kona upp ermar og fer sjálf í málið. Ég kynnist Ninnu í samvinnurýminu Minör og fannst ég hafa himin höndum tekið, hafði aldrei heyrt um að það væri hægt að vera barnamenningarhönnuður og dreymdi strax um að finna samstarfsflöt með henni. Þá var Tanja Huld Levý fatahönnuður líka með okkur í að feta fyrstu skrefin, en hún þurfti frá að hverfa í önnur spennandi verkefni. Sigurbjörgu kynntist ég í Þjóðleikhúsinu í búningadeildinni þar og fannst hún mjög spennandi klæðskeri og fatahönnuður sem gat tekið við keflinu af Tönju. Erlu er ég búin að þekkja frá því við vorum litlar, við höfum mikið unnið saman og erum farnar að stunda hugsanalestur. Og þannig var Þykjó orðið til.“

Upplifunarhönnun fyrir börn

Hún segir Þykjó skilgreina sig sem þverfaglegt hönnunarteymi á sviði textíl-, leikfanga- og upplifunarhönnunar með hönnun fyrir börn og fjölskyldur að sérsviði. „Við kynntum fyrstu búningana í fyrra á HönnunarMars og langaði að gera vörulínur út frá þeim, sækja í náttúruna með áherslu á að vinna allt með virðingu fyrir umhverfinu. Svo við notum endurunnin efni, umhverfisvæn og náttúruleg eins og kostur er. Við vildum fara meira á dýptina, fannst ekki nóg að gúggla bara myndir og upplýsingar þannig að við bönkuðum upp á hjá líffræðingunum hérna á Náttúrufræðistofu Kópavogs. Við vinnum mikið með það að tala við þá sem vita meira en við og þegar margir ólíkir hausar eru í sama herbergi gerist eitthvað mjög spennandi. Og þau tóku okkur strax ótrúlega vel. Þegar Elísabet Indra verkefnastjóri menningarmála í Kópavogi kom inn sá hún svo tækifæri til að stækka þetta samstarf. Tímasetningin í miðjum heimsfaraldri gæti ekki verið betri því það er upplagt að vinna rannsóknar- og þróunarvinnu á meðan ekki er hægt að hafa viðburði.“

Verkefnið skiptist í raun í þrennt og á hver hluti stað í einu menningarhúsi og er innblásinn af því. „Í Gerðarsafni unnum við að hinum svokölluðu Kyrrðarrýmum sem eiga fyrirmynd í dýrum sem geta horfið inn í skelina sína þegar þau þurfa á að halda. Erla hefur verið með yfirumsjón með því verkefni. Okkur finnst að börn og foreldrar þurfi svolítið að fá þennan hvíldarhjúp utan um sig af og til.“ Í Salnum var verkefnið Fuglasöngvar þar sem börn gátu hreiðrað um sig og spilað á egg sem virka eins og hljóðfæri en það verkefni vann Ninna í samstarfi við Sóleyju Stefánsdóttur tónlistarkonu. Búningarnir eiga sér svo stað í Bókasafni Kópavogs. „Búningalínan okkar heitir Ofurhetjur jarðar og snýst um að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn en minna jafnframt á náttúruna og umhverfið. Sigurbjörg heldur utan um það verkefni.“

Skólahóparnir dýrmætir

„Krakkarnir fá þau skilaboð í skólaheimsóknunum að þau séu velkomin á söfnin, þetta séu þeirra hús.“

Þátttaka barna er mikilvægur hluti af hönnun og sköpun verkefnisins og skólahópar flykktust í Menningarhúsin til að leggja sitt af mörkum. „Það var bæði gefandi og spennandi fyrir okkur að fá skólahópana inn því það er lykilatriði að fá börnin snemma inn í samtalið á meðan við erum enn að þróa hugmyndirnar,“ segir Sigríður. „Þegar við vorum með fyrstu líkönin að Kyrrðarrýmunum voru þau að upplifa ferlið með okkur sem var svo dýrmætt því þá átta þau sig á ýmsu, eins og tímanum frá því hugmynd kviknar, svo þarf að skissa milljón teikningar, svo þarf að fara í samstarf við smiði, búa til líkan og svo fengu þau að sjá líkanið og ímynda sér hvernig það yrði í raunstærð og koma með sínar hugmyndir og athugasemdir sem við fórum svo oftar en ekki eftir. Svo komu þau á sýninguna með fjölskyldunum sínum, stolt af sinni þátttöku í ferlinu.“ Hún segir skipta sköpum fyrir svona verkefni að hafa tíma til að geta farið á dýptina og ekki síður að bjóða börnum að taka þátt í verkefninu. „Krakkarnir fá þau skilaboð í skólaheimsóknunum að þau séu velkomin á söfnin, þetta séu þeirra hús. Þannig að þau eru líka farin að koma bara sjálf og nýta Kyrrðarrýmin og segja hér í afgreiðslunni: Okkur var sagt að við mættum koma! Ég hefði aldrei gert þetta sem barn, farið sjálf inn í listasafn og fundist ég hafa rétt á því.“

Skeljar verða skúlptúrar

Sigríður Sunna segir Menningarhúsin fullkominn vettvang fyrir svona verkefni. „Húsin voru í raun öll að leita að því sama: einhverju til að bjóða fjölskyldum upp á án þess að það þurfi að vera skipulögð dagskrá. Allar þessar innsetningar eru staðir til að vera á eigin forsendum og þínum tíma og við sáum að á HönnunarMars til dæmis komu fjölskyldur með nesti, tóku sér góðan tíma í að skoða sýningarnar og fara út á ærslabelginn eða kaffihúsið á milli og njóta þess að dvelja í húsunum.“ Einn hluti verkefnisins var einmitt að búa til ósýnilegar brýr milli menningarhúsanna, til dæmis með því að færa hluti milli þeirra. Þannig voru verk úr Gerðarsafni hluti af fuglaverkefninu í Salnum og stórar skeljar voru fluttar yfir í Gerðarsafn frá Náttúrufræðistofu og svo eru auðvitað bækur í öllum hreiðrum og Kyrrðarrýmum úr bókasafninu. „Risaskeljar af Náttúrufræðistofu urðu að skúlptúrum í Gerðarsafni og þegar listaverkin hennar Gerðar voru færð yfir í Salinn sást svo vel hvað er mikill ryþmi og tónlist í þeim.”

Og samstarfið við starfsfólk Menningarhúsanna var líka gjöfult að sögn Sigríðar Sunnu. „Eitt af því sem hefur gefið okkur hvað mest við að vera staðarlistamenn hér er að hafa aðgang að þeim mannauði sem hér er saman kominn.“ Og ekki síður þeim gripum sem söfnin búa yfir. „Þegar við fórum í samstarf við Blindrafélagið að flétta hreiður fyrir krakka úr tágum var til dæmis ómetanlegt að geta fengið fuglahreiður úr safni Náttúrufræðistofu til að handleika, þar sem við gátum ekki sýnt þeim teikningar og myndir eins og við erum vanar sem hönnuðir.“

Næst á dagskrá hjá Þykjó er að hanna upplifunarrými fyrir börn í Hörpu, í samstarfi við Gagarín og Vísindasmiðjuna. „Það er rosalega spennandi að það verði staður sem er hannaður fyrir krakka í Hörpunni. Við vinnum mikið með augnhæð barna, að hanna hluti þannig að þeir henti þeim fyrst og fremst og í þessu risastóra húsi sem Harpa er verður frábært að hafa eitt rými í öðrum skala. Það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur að útgangspunkturinn í öllu sem við gerum sé að muna fyrir hvern við erum að vinna og hugsa alltaf allt út frá sjónarhóli barna.“ Þær munu einnig halda áfram að þróa vörulínurnar sem urðu til í samstarfinu við Menningarhúsin. „Fyrir okkur sem hóp, óháð vörulínunum, er afar spennandi að fá að eiga svona innkomu í menningarstofnanir. Við vinnum eftir 31. grein barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna þar sem stendur að öll börn eigi rétt á hvíld, leik og þátttöku í menningarlífi, óháð stétt og fjárhagsaðstöðu. Og það er eiginlega ekki hægt að uppfylla þetta nema í svona samstarfi. Það hefur verið svo frábært að geta boðið krökkum í smiðjur og á tónleika ókeypis. Við erum að finna út úr framleiðslu sem þarf að vera sjálfbær, umhverfisvæn og helst hérlendis og munum svo kannski kanna svo aðra markaði, til dæmis í Skandinavíu.“

This article is from: