6 minute read

Kópavogur í tónum og takti

Hljóðverk er hluti af tónskáldaverkefni Salarins sem hóf göngu sína 2019 þegar fyrst var auglýst eftir umsóknum frá tónskáldum til að semja tíu mínútna strengjakvartett fyrir Salinn og Strokkvartettinn Sigga. Ólík og fjölbreytt verk voru síðan flutt á Tíbrá tónleikum á afmælisdegi Kópavogsbæjar 11. maí sl. Nú hafa fimm tónskáld verið valin úr hópi fjölda umsækjenda til að semja hljóðverk sem eru innblásin af hljóðheimi Kópavogs og var Héraðsskjalasafn Kópavogs fengið til að koma með nánari hugmyndir með vísan í sögu bæjarins. Markmiðið er sem fyrr að stuðla að frumsköpun í tón- og hljóðverkagerð og að kynna íslensk tónskáld.

Innblástur úr hljóðheimi Kópavogs

Advertisement

Aino Freyja Järvelä er forstöðumaður Salarins og stýrir tónskáldaverkefninu. „Mér finnst að eitt af hlutverkum tónleikahúss eins og Salarins sé að stuðla að nýsköpun í tónlist og hlúa þannig að framþróun í listinni. Með því verður til nýr vettvangur fyrir allan þann fjölda tónskálda sem við erum svo lánsöm að eiga til að skapa og þróa sig sem listamenn. Óskað var eftir hljóðverkum sem á einn eða annan hátt væru innblásin af hljóðheimi Kópavogs. Við fengum því Hrafn Sveinbjarnarson forstöðumann Héraðsskjalasafn Kópavogs til liðs við okkur til að tónskáldin gætu fengið aðgang að gögnum um Kópavog.“ Hrafn Sveinbjarnarson segir leitina að Kópavogshljómnum vera ögrandi viðfangsefni. „Þegar þær Aino og Elísabet Indra orðuðu hvort ekki væri hægt að nýta eitthvað í Héraðsskjalasafninu og sögu Kópavogs við tónsmíðar hvarflaði hugurinn

fyrst að þögninni á lestrarsalnum í skjalasafninu, en við nánari umhugsun er Kópavogur suðupottur allskyns hljóða og óms, Héraðsskjalasafnið hreinlega titrar af tónum þegar að er gáð og hlustir lagðar við. Hagur tónsmiður getur örugglega gert merkileg tónverk úr Kópavogi og sögu hans. Það er mikil tónlist í Kópavogi, bara í nafninu sjálfu. Stafrófslagið spilað af byrjendanemendum í fiðluleik ber textann „Kópavogur hopp stopp“ – fjögur atkvæði í „Kópavogur“ í sextándapartsnótum með tveimur áttundapartsnótum á eftir í „hopp stopp“ valda því að Kópavogur er landsfrægur meðal fiðluunnenda sem tónfræðilegt námstæki.“

Kópavogslækjarjazz og Kópavogstríólur með geggjuðu hneggi

Á skjalasafninu er hægt að finna ýmislegt tónlistartengt og hinar ýmsu hljóðupptökur. Þar er t.a.m. varðveitt fundarbjalla Framfarafélagsins Kópavogs, þ.e. félagsins sem upphaflega varð til þess að Kópavogshreppur var stofnaður 1948. „Í henni er auðvitað hinn hreini Kópavogstónn,“ segir Hrafn og bendir á að ýmislegt megi finna á skjalasafninu. „Meðal annars samtímaafrit á segulböndum af hljóðupptökum viðtala sem Hallfreður Örn Eiríksson tók við Kópavogsbúa á vegum Árnastofnunar um 1967. Meðal hljóðskjala í Héraðsskjalasafninu eru einnig upptökur af bæjarstjórnarfundum Kópavogsbæjar á kassettum. Svo eru til upptökur af fjöldasöng úr veisluhöldum Kópavogsbúa frá fyrri tímum – fegurðin í þeim liggur í gleðinni, söngurinn væri tæplega útvarpshæfur, enda er fjöldasöngur félagslegt fyrirbæri fremur en listflutningur.“

Hrafni finnst nú tímabært að Kópavogslækurinn eignist sína tónsmíð. „Það væri hægt að taka Kópavogslækinn og nota í frásagnartónlist, fara frá upptökum hans í Breiðholti að ósum við Kópavogsleirur, grípa til sögulegra viðburða í kringum hann. Sögufélag Kópavogs og Héraðsskjalasafnið gefa út smárit um ýmis efni og við erum einmitt

með smárit um sögu Kópavogslækjarins í undirbúningi. Miðað við að til er Hreðavatnsvals og Stórhöfðasvíta hlýtur Kópavogslækurinn að eignast sína tónsmíð fyrr eða síðar. Að vísu yrði heppilegra að takmarka raunsæið í kringum lækinn, hann var helsta afrennsli í bænum um skeið. Tónsmiðir sem aðhyllast prógrammtónlist yrðu þá að leita til lagnadeildar Byko um hljóðfærin í þann hluta hljómkviðunnar.“ Það má með sanni segi að það kemur enginn að tómum kofanum í leit að innblæstri á Héraðsskjalasafni Kópavogs. „Hægt væri að æfa Kópavogstríólur með fyrirmynd í fallbyssuskotunum sem kváðu við hér árið 1662, „Danmerkur lausn“ eins og Jón Ólafsson Indíafari kallaði þessa fallbyssukveðju danska flotans (dansk løsen), sem reyndar er enn í fullu gildi í Danmörku. Þrjú fallbyssuskot frá Kópavogsþingi sem var svarað með þremur á móti af freigátunum tveimur úti á Seylunni, þ.e. höfninni við Bessastaði, þessu fylgdi fyrsta flugeldasýning sem um getur á Íslandi. Í öllum fyrirganginum fældust hestar fundarmanna, svo tónskáld ættu heldur betur að geta samið sérstaka flugeldasvítu fyrir Kópavog – með geggjuðu hneggi.”

Mikill áhugi fyrir verkefninu

Tuttugu og átta umsóknir bárust í Hljóðverk og urðu fimm hugmyndir jafnmargra tónskálda fyrir valinu. Dómnefndina skipuðu Una Sveinbjarnardóttir og Atli Ingólfsson fyrir Salinn og Karólína Eiríksdóttir fyrir Tónskáldafélag Íslands og telur Aino þau ekki öfundsverð af hlutskiptinu miðað við hversu góðar umsóknir bárust. „Tónskáldin eiga nú það verkefni fyrir höndum að semja hljóðverk út frá þeim hugmyndum sem þau lögðu fram í umsóknunum. Afraksturinn verður síðan fluttur yfir veturinn, jafnvel víðs vegar um Kópavog á komandi tónleikavetri. Ég er afskaplega stolt af þessu verkefni og þakklát Listaog menningarráði fyrir að gera það mögulegt. Einnig eiga Tónskáldafélag Íslands og Tónverkamiðstöð þakkir skildar fyrir samstarfið og ráðgjöfina við að móta þetta frábæra tónskáldaverkefni Salarins.”

Hljóðverkin og tónskáldin

Gunnar Gunnsteinsson er tónskáld og tónlistarmaður með BA próf í tónsmíðum frá Amsterdam. Hann hefur samið tónlist fyrir kvikmyndir, sviðsverk, innsetninga og gjörninga og komið víða fram sem tónlistarmaður með ótal hljómsveitum.

„Ég safna hljóðum úr alls konar pípum í Kópavogi, skólpdælu, vatnsveiturörum, ofnum og klósetti. Í pípunum leynast oft mjög skemmtileg hljóð. Pælingin er sú að Kópavogur sé eitt stærðarinnar pípuorgel. Verkið fjallar um vatnið og hvernig við förum með það - mikilvægt umfjöllunarefni okkar tíma. Vatnsveitan og frárennslið er eins og æðakerfi borga og bæja, á sama tíma mjög hversdagslegt og ósýnilegt og framandi.“

Ingibjörg Friðriksdóttir lauk meistaragráðu í tónsmíðum og upptökutækni frá Mills College í Kaliforníu og hefur gert hljóðverk og innsetningar af ýmsu tagi þar sem unnið er með brotakenndar upplifanir, minningar og tjáningu. Í nýjasta verki hennar, Meira Ástandið (Listahátíð í Reykjavík, 2020 – 2021) sótti hún yrkisefnið til veruleika íslenskra kvenna á hernámsárunum.

„Stutt heimsókn í Kvennafangelsið skildi mikið eftir sig, gluggi inn í tilveru sem fæstir kynnast. Lífið er sett á bið í vírgirtu húsi á meðan lífið heldur áfram utan veggja þess. Í verkinu mun ég steypa saman frumsaminni tónlist, hljóðum úr umhverfi fangelsisins og viðtölum við fyrrum fanga og starfsfólk. Niðurstaðan verður kunnugleg en jafnframt framandi, blákaldur veruleiki og skýjuð minning – svona eins og lítið hvítt hús í hjarta Kópavogs, umkringt gaddavírsgirðingu.“

Ríkharður H. Friðriksson hóf ferilinn í rokktónlist en stundaði síðar nám í tónsmíðum í Reykjavík, New York, Sienna og Haag. Hann er einn af frumkvöðlum á sviði raftónlistar á Íslandi og hefur samið sæg tónverka fyrir ólík tilefni. Ríkharður kennir tónsmíðar við Tónlistarskólann í Kópavogi og Listaháskóla Íslands auk þess að vera liðsmaður Iceland Sound Company og Fræbblanna.

„Ég ætla að gera verk upp úr röddum Kópavogsbúa eins og þær koma fram í viðtölum sem ÍsMús hefur undir höndum. Umbreyta þeim í mismunandi þekkjanleg og óþekkjanleg form þar sem þær verða á köflum algerlega óhlutbundin hljóð í sínu eigin innra samhengi. Eftir dálítið af óþekkjanleika kemur svo léttir þegar aftur koma þekkjanleg orð og kannski setningar sem tengjast Kópavogi.“

Úlfur Eldjárn lauk BA námi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og hefur starfað sem tónlistarmaður, tónskáld, upptökustjóri og hljóðfæraleikari frá unga aldri. Hann hefur fengist við flestar tegundir tónlistar, popp, raftónlist, djass, klassík og tilraunakennda nútímatónlist.

„Hamraborgin er óður til merkustu og jafnframt háværustu afkomenda Kópavogs: Trommuleikaranna. Óvenjumargir magnaðir trommuleikarar uxu úr grasi í Kópavoginum sem hefur stundum verið kallaður vagga pönksins á Íslandi og hefur reynst nærandi umhverfi fyrir dauðarokk, raftónlist og ýmsa jaðartónlist. Verkið er flutt af sjö trommuleikurum sem er stillt upp í hring og upptakan er síðan meðhöndluð rafrænt.“

Þóranna Dögg Björnsdóttir lauk BA gráðu í hljóð- og myndlist frá Konunglega Listaháskólanum í Haag árið 2006. Viðfangsefni hennar eru mörg og fjölbreytt en snúast gjarnan um heimssýn einstaklingsins, hvernig hún mótast og þróast. Verk hennar eru iðulega sambland af mynd og hljóði; taka form í gegnum lifandi gjörninga, innsetningar og hljóðverk.

„Mig langar að kynna mér sögu Kvennafangelsisins í Kópavogi, spinna hljóð - og tónvefnað sem byggir á sögum kvenna sem þar dvöldu og setja í samhengi við umhverfi, sögu og samfélagið sem umlykur fangelsisveggina. Ég spyr hvort þær hafi búið í Kópavogi og tilheyrt samfélaginu þar? Í tónsmíðunum langar mig til þess að nota hljóðupptökur úr umhverfi Kópavogs og tengja mig við hljóðfæraleikara og tónlistarfólk búsett í Kópavogi.“

This article is from: