
1 minute read
Skemmtilegt að lesa með öðrum
Ásta Hjálmtýsdóttir hefur verið fastagestur á Bókasafni Kópavogs síðan hún var barn. Nú hittir hún aðra bókaorma einu sinni í mánuði til að spjalla um bækur.
„Lesið milli línanna er bókaklúbbur á vegum Bókasafns Kópavogs þar sem við hittumst nokkrar konur fyrsta fimmtudag í mánuði,“ segir Ásta. „Við erum þá búnar að lesa tvær bækur og röbbum saman um þær í svona einn og hálfan klukkutíma.“
Advertisement
Hún segir bókaverðina, Brynhildi og Halldóru, velja bækurnar fyrir hópinn. „Þetta er bara svona það sem þeim finnst áhugavert, bæði nýtt og gamalt. Þær leggja bækurnar fyrir og passa að það séu til nógu mörg eintök á bókasafninu fyrir okkur sem er dálítið mikið atriði.“
Ásta segist vera mikill bókaormur. „Mér finnst gaman að öllum bókum og hef lesið mikið síðan ég var barn. Ég held að ég hafi verið níu ára þegar ég fór fyrst á Bókasafn Kópavogs og hef verið fastagestur þar síðan. Ég les allar nýjar bækur sem koma út fyrir jólin og er búin að lesa svakalega mikið. Þannig að þegar er verið að tala um einhverjar bækur er ég yfirleitt búin að lesa þær.“ Hún segir bókaklúbbinn Lesið milli línanna vera opinn öllum. „Ætli við séum ekki átta sem komum en ekki allar alltaf. Sú elsta er um nírætt og er mjög skemmtileg kona og svo gaman að hafa hana í hópnum því hún hefur oft aðeins öðruvísi sjónarhorn og er mjög víðlesin. Sú yngsta er fjörutíu og fimm ára þannig að við spönnum vítt aldursbil.“
Hún segir mikinn mun á að lesa fyrir sjálfa sig eða bókaklúbbinn. „Ég hugsa alltaf um bækurnar á meðan ég er að lesa en ég hugsa öðruvísi þegar ég veit að ég er að fara að tala um þær, tek eftir fleiru. Og þegar ég heyri aðrar konur tala um bækurnar uppgötva ég margt líka. Þetta er miklu skemmtilegra. Ég myndi ekki vilja ræða allar bækur en mér finnst mjög gaman að heyra önnur viðhorf og skoðanir. Sumum finnst kannski einhverjar bækur frábærar sem öðrum finnst hundleiðinlegar.“
Lesið milli línanna fer fram í Bókasafni Kópavogs fyrsta fimmtudag í mánuði og öll eru velkomin.
Bókasafn Kópavogs býður upp á fjölda viðburða og öflugt klúbbastarf. Kynntu þér fjölbreytta þjónustu bókasafnsins á bokasafn.kopavogur.is.