
3 minute read
Hamraborgin miðpunktur í listalífi Íslendinga
Midpunkt er metnaðarfullt og framsækið listamannarými við Hamraborg sem starfrækt hefur verið með fjölbreyttri og áhugaverðri sýninga- og viðburðadagskrá í rúmlega tvö ár af þeim Ragnheiði Sigurðardóttur Bjarnarson og Snæbirni Brynjarssyni.
„Midpunkt setur markið á að flytja inn list hvaðanæva að og gera Hamraborgina að nýjum miðpunkti í listalífi Íslendinga,“ segir í tilkynningu um opnun listarýmisins Midpunkt. „Midpunkt var opnað á Cycle hátíðinni haustið 2018 með samsýningu listakvennanna Þuríðar Jónsdóttur tónskálds og myndlistarkonunnar Jeannette Castioni,“ segir Snæbjörn Brynjarsson og bætir við að síðan hafi verið ný sýning í gangi nánast í hverjum mánuði. „Við Ragnheiður stofnuðum þetta menningarrými upphaflega en síðan þá hefur bæst í hópinn Joanna Pawloska, pólsk listakona sem sýndi hjá okkur og gekk svo til liðs við okkur.“
Advertisement
Ný í myndlistarheiminum
Hann segir hvorugt þeirra Ragnheiðar hafa myndlistarbakgrunn svo heitið geti og viðurkennir að þaú séu „svolítið ný“ í myndlistarheiminum. „Við kynntumst í Listaháskólanum þar sem ég var að læra leiklist á sviðshöfundabraut og hún var í dansi. Þegar við komum heim úr námi langaði okkur að stofna sýningarrými fyrir allskonar list.“
Hann segir þó málin hafa þróast svo að Midpunkt sé fyrst og fremst myndlistarrými. „Midpunkt hefur það að markmiði að kynna nýjar, spennandi raddir, erlenda listamenn í bland við innlenda, upprennandi listamenn. Midpunkt hefur verið bakhjarl fyrir tvær menningarhátíðir í Hamraborg, og haldið tónlistar-, sviðslista- og bókmenntaviðburði en myndlistin kemur alltaf best út.“
Eina borgarrýmið á höfuðborgarsvæðinu
Ragnheiður og Snæbjörn völdu Kópavog og kannski þá aðallega Hamraborgina ekki vegna uppvaxtareða bernskutengsla þó Ragnheiður hafi vissulega starfað í sjoppunni Rebbanum sem unglingur en Rebbinn var í sama rými og Midpunkt er núna. „Við erum bara svo miklir Hamraborgaraðdáendur,“ segir Snæbjörn. „Mér finnst Hamraborgin vera eina borgarrýmið á höfuðborgarsvæðinu. Miðbær Reykjavíkur er byggður upp sem þorp og er þorp í eðli sínu en Hamraborgina upplifir maður sem borgarlandslag. Við erum sannfærð um að ef fólk væri á ferðalagi í útlöndum og rækist á Hamraborgina í Berlín eða París eða einhversstaðar myndi manni finnast þetta rosalega hipp og kúl og töff hverfi. Ég vil allavega meina að Hamraborgin sé besti staðurinn til að hafa svona rými því hér er stöðugur straumur af fólki og þetta er allt öðruvísi staðsetning en annarsstaðar þar sem má finna svona gallerí á Íslandi.“
Hann segir Midpunkt hægt og rólega vera að stimpla sig inn í vitund Kópavogsbúa. „Fólk er frekar feimið að koma í fyrsta sinn. Það eru einna helst börn sem teyma foreldra sína inn þegar þau sjá eitthvað litríkt og blikkandi en ég hef oft hitt Kópavogsbúa sem eru mjög ánægðir með að hafa okkur þarna þó þeir séu ekkert endilega duglegir að koma enda eru fáir sem mæta á hverja einustu sýningu.”
List frá ólíkum áttum
Það er óhætt að segja að listafólk hvaðanæva að hafi sýnt í Midpunkt. „Fyrsta árið vorum við með listakonu frá Japan og annað árið listhóp frá Kanada. Wiola Ujazdowska sýndi hjá okkur og skipulagði líka pólsk-íslenska listahátíð í rýminu okkar.“
Íslenskir listamenn hafa líka verið áberandi. „Steinunn Gunnlaugsdóttir, betur þekkt sem konan sem bjó til hafpulsuna, sýndi líka hjá okkur og í maí settu meistaranemar í sýningarstjórn við LHÍ upp sýningar hjá okkur og þá fáum við nýjan listamann vikulega í staðinn fyrir mánaðarlega sem er skemmtilegt og sparar okkur vinnu að láta þetta í þeirra hendur.“
Hamraborgarhátíðin komin til að vera?
En hvað er það þá sem drífur Ragnheiði og Snæbjörn áfram? „Við höfum mjög gaman af því að vinna úr hugmyndum og listafólk er almennt mjög skemmtilegt og frjótt í að finna út úr því hvernig maður kemur hugmyndum í framkvæmd,“ segir hann. „Skemmtilegastir eru listamennirnir með óljósustu hugmyndirnar sem þurfa mikla samræður til að átta sig á því hvað það er sem þau vilja sýna því það er stundum bara einhversstaðar í loftinu. Sumir hafa mjög fastmótaðar hugmyndir frá byrjun en aðrir eru að velta hlutum fyrir sér fram á síðustu stundu og jafnvel laga hluti til á meðan á opnuninni stendur.“
Að vanda er ýmislegt spennandi í vændum í Midpunkt. „Við byrjuðum haustið á Hamraborgarhátíðinni, sem var í Midpunkt og allsstaðar í Hamraborginni, þar á meðal í Gerðarsafni, Bókasafni Kópavogs og Salnum. Við ætlum að finna list sem varpar nýju ljósi á þetta skemmtilega borgarlandslag. Svo fer ferðahömlum vonandi að létta og þá getum við haldið áfram að miðla áhugaverðri innlendri og erlendri list til Kópavogsbúa og annarra sem leggja leið sína um Hamraborgina.“