2 minute read

Tengsl dýra, manna og umhverfis

Óræð lönd: Samtöl í sameiginlegum víddum er yfirskrift sýningar listamannanna Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Marks Wilson sem fagna nú 20 ára samstarfi með yfirlitssýningu í Gerðarsafni sem hefst 11. september.

„Samstarfið sem við fögnum nú kemur þannig til að fyrir tuttugu og fimm árum vorum við bæði að leita leiða til breytinga í listsköpun okkar en við höfum bæði mikinn áhuga á því sem snertir umhverfið og menningarlega merkingarbærni þess,“ segir Mark um tilurð samstarfs þeirra og bætir við að ein þungamiðjan í verkum þeirra séu tengsl mannsins við umhverfið, þar á meðal dýr. „Í nálgun okkar reynum við að ögra þeirri tilhneigingu að setja manninn alltaf í miðju heimsins og skoðum hlutina frekar frá vistfræðilegu sjónarhorni. Við forðumst að fjalla beint um dýrin sem slík heldur reynum að kalla fram tilfinningu fyrir þeim eða þáttum í tilveru þeirra í samhengi menningar og umhverfis. Með því að beina ljósi að hinu margbreytilega hlutverki dýrsins í veröldinni sem lífveru, sambýlisveru, gesti, umhverfisvísi, afsteypu og skrautmun leitumst við við að brjóta niður fyrirframgefnar hugmyndir okkar um þau.“

Advertisement

„Í listsköpun okkar setjum við okkur gjarnan í samband við og vinnum með fólki sem hefur önnur sérsvið en við til að víkka og dýpka rannsóknir okkar,“ segir Bryndís. Verkin taka á sig ýmsar myndir, eftir því hvert viðfangsefnið er hverju sinni. „Þegar við höfum fundið staði eða dýr sem eiga í vök að verjast hefst samtal og hugmyndavinna, bæði okkar á milli og við aðra sem hafa þekkingu og áhuga á sömu málefnum. Í framhaldi af því förum við að skissa upp og prófa hugmyndir í ýmsa miðla og þannig verða verkin til,“ segir Bryndís og Mark bætir við: „Við vonum að fólk dragist að listaverkunum og þannig opnist fyrir nýja sýn hvað varðar viðfangsefni verkanna og umhverfismeðvitund í víðara samhengi. Svo er fólki auðvitað líka velkomið að njóta verkanna sem slíkra á fagurfræðilegum forsendum.“

20 verk í 20 ár

Á sýningunni í Gerðarsafni verða yfir tuttugu verk. „Sum verða sett fram eins og þau voru upprunalega sýnd, önnur hafa verið aðlöguð eða þróuð sérstaklega fyrir þessa sýningu. Það má finna nánari upplýsingar um verkin á vefsíðunni okkar, www. snaebjornsdottirwilson.com,“ segir Bryndís. „Það er gefandi að fá tækifæri til að líta yfir farinn veg, rifja upp vinnu á ólíkum landsvæðum um heim allan og samstarf við áhugavert fólk. Við hlökkum til að deila afrakstrinum og listaverkum okkar með almenningi og gestum Gerðarsafns.“

Aðspurð um vinnuferlið segir Bryndís: „Við vinnum oft að nokkrum verkum í einu og sum verkefnin taka mörg ár. Gott dæmi er nanoq: flat out and bluesome (2001-2006), þar sem við skoðuðum uppstoppaða ísbirni á Bretlandi og sögur þeirra frá sjónarhorni listamannsins. Út frá því varð verkið Matrix (2010-2016) þar sem við unnum með híði ísbjarna og hækkandi yfirborð sjávar sem m.a leiddi okkur til vinnustofudvalar á Svalbarða, í Tromsö og til Utqiagvik og Kaktovik í Norður-Alaska í samvinnu við Anchorage safnið þar í landi. Þessar vettvangsferðir og tilheyrandi vinna þróaðist síðan í verkefnið Ísbirnir á villigötum (2019-2021) sem er fyrsta listrannsóknarverkefnið sem hlýtur styrk úr verkefnasjóði Rannís. Í því verkefni, sem unnið er í samvinnu við þjóðfræði og listfræði í Háskóla Íslands, er unnið með sögulegar og samtímalegar heimsóknir ísbjarna til Íslands og lýkur með sýningunni Visitasíur í Listasafni Akureyrar sem opnar 25. september næstkomandi og stendur fram í janúar 2022.“

Tengsl dýra, manna og umhverfis í Gerðarsafni

11. SEPTEMBER — 9. JANÚAR