
3 minute read
Leggjum línurnar fyrir loftslagið
Nú á vordögum hlaut Náttúrufræðistofa Kópavogs góðan styrk úr Loftslagssjóði fyrir loftslagsfræðsluverkefni sitt Leggjum línurnar. Verkefnastjórn er í höndum Ríkeyjar Hlínar Sævarsdóttur, jarðfræðings, kennara og verkefnastjóra á Náttúrufræðistofu Kópavogs.
„Verkefnið er sniðið að nemendum í 10. bekk og mun ná yfir komandi haustönn, en 8 grunnskólar í Kópavogi hafa skráð sig til þátttöku,“ segir Ríkey. „Það er því óhætt að segja að spennandi tímar séu að fara í hönd hjá Náttúrufræðistofunni, en með verkefninu er fræðslustarfi hennar á vissan hátt snúið á hvolf, stofan heldur nú út í skólana með fræðslu í stað þess að þeir sæki hana heim. Verkefnið felur einnig í sér þá skemmtilegu nýbreytni að fræðsluhluti þess verður rafrænn og við hlökkum mikið til samstarfsins við skólana á þessum nýja vettvangi.“
Advertisement
Fjölbreytt samstarf
Eins og gefur að skilja krefst verkefni af þessari stærðargráðu samvinnu og samstarfs margra en auk Ríkeyjar koma aðrir sérfræðingar stofunnar að undirbúningi og fyrirlögn, auk kennara og skólastjórnenda í þátttökuskólum. „Þá fengum við sérfræðing um loftslagsmál til að halda utan um fræðsluhluta verkefnisins og er það Sævar Helgi Bragason, vísindamiðlari og jarðfræðingur, sem stýrir fræðslufyrirlestrum og umræðufundum auk þess að leiðbeina við verkefnavinnu nemenda. Á undirbúningstíma verkefnisins hefur ráðgjafar annarra sérfræðinga einnig verið leitað og verkefnið kynnt fyrir menntasviði Kópavogsbæjar.“
Ferðalag á smáum og stórum skala
Leggjum línurnar er fjölþætt loftslagsverkefni sem felur í sér marga mismunandi verkþætti sem fléttast saman í eina stóra heildarmynd. „Í raun má segja að það myndi nokkurs konar samfellt ferðalag frá hinum smáa skala nærumhverfisins yfir í hinn stóra hnattræna og gefi nemendum góða innsýn í muninn á veðri og loftslagi,“ segir Ríkey. Í upphafi verður litlum veðurstöðvum komið fyrir í nágrenni þátttökuskólanna þar sem nemendum býðst að gera raunmælingar á veðri, afla áþreifanlegra gagna og setja í samhengi við umhverfi sitt. Í kjölfarið útvíkka þeir rannsóknarsvið sitt yfir á heimsvísu og vinna sk. loftslagslínur (e. climate stripes) fyrir mismunandi lönd um heim allan.
„Loftslagslínuframsetningin byggir á raunverulegum hitastigsgögnum fyrir tímabilið 1901-2020 sem eru sett fram sem litaðar línur í tímaröð; frá köldum blátónum upp í heita rauðtóna. Framsetningin er bæði myndræn, mínímalísk og án allra tölulegra gagna og býður upp á auðveldan og sjónrænan samanburð á hitastigsþróun í mismunandi löndum og svæðum yfir tíma. Samkvæmt hönnuði línanna, breska loftslagsfræðingnum Ed Hawkins, er tilgangur þeirra einmitt að vera eins einfaldar og kostur er og þannig freista þess að ná til allra hópa samfélagsins sem vitundarvakning um hlýnun jarðar og loftslagsvána, óháð vísindalegri þekkingu. Eftir því sem vinnu nemenda vindur fram og rauðu litatónunum á vinnublöðum þeirra fjölgar munu upplýsingarnar sem gögnin geyma þannig koma skýrt í ljós.“
Samhliða loftslagslínugerðinni skoða nemendur gögn um ýmsa félags-, efnahags- og umhverfislega þætti í rannsóknarlöndunum í samhengi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. „Tilgangurinn er að skapa umræður og samtal meðal nemendahópanna þar sem þeir rýna gögnin, bera þau saman við önnur lönd og rökræða hvort, og þá hvernig, hugsanleg tengsl geti verið milli ákveðinna þátta og slagkrafts loftslagsaðgerða og -skuldbindinga. Meðal þess sem nemendur hafa val um að skoða eru orku- og umhverfismál, sjálfbærni, fátækt og þróun, lífsskilyrði, samfélagsgerð og vellíðan, mannréttindi, lýðræði og jöfnuður, ofbeldi og stríð og menntun og þekking.“
Lokasýning og stóra myndin
Heildarsýning á verkefnum nemenda verður sett upp á Náttúrufræðistofu Kópavogs í vetrarbyrjun. „Sýningunni er ætlað að vera valdeflandi vettvangur fyrir ungmennin þar sem heildarniðurstöður allra þátttakenda eru dregnar saman í áhrifaríka hnattræna heild. Þannig kemur skýrt fram að loftslagsmál eru sameiginleg áskorun heimsbyggðarinnar og krefjast samstillts átaks allra eigi árangur að nást,“ segir Ríkey og bætir við að allir þátttökuskólar fái boð á sýninguna sem síðan verður fylgt eftir með umræðu- og eftirfylgnifundum undir stjórn Sævars Helga þar sem spurningunni „hvað höfum við lært?“ verður meðal annars velt upp. „Fundirnir marka lokaskrefið í Leggjum línurnar en á þeim fá nemendur m.a. tækifæri til að ræða upplifun sína af verkefninu, ígrunda, koma með tillögur að lausnum og aðgerðum og eflast sem málsvarar fyrir því verkefni að bregðast við loftslagsvánni.“