
1 minute read
Við værum ekki að hittast ef það væri ekki fyrir bókasafnið
Hannyrðaklúbburinn Kaðlín hittist alla miðvikudaga. Í Kaðlín eru nú allt upp í 30 konur og Guðlaug Rafns Ólafsdóttir er ein þeirra.
„Við höfum verið að hittast á Bókasafninu í þrjú ár, skvísur á öllum aldri með handavinnuna okkar, “ segir Guðlaug sem sjálf er leikskólakennari sem þurfti að hætta störfum vegna veikinda. „Þarna kynnumst við og getum talað um okkar áhugamál og miðlað þekkingu saman óháð aldri. Konurnar á safninu eru alveg dásamlegar og leggja sig allar fram um að okkur líði vel. Við værum ekki að hittast ef það væri ekki fyrir bókasafnið því það heldur utan um þennan hitting.”
Advertisement
Kaðlín hefur verið með ýmislegt á prjónunum þessi ár og meðal annars staðið fyrir því að Prjóna til góðs. „Við höfum til dæmis prjónað og safnað hlýjum fötum fyrir karla í gistiheimili á Lindargötu og fyrir bráðageðdeildina á Landspítalanum. Við höfum verið með samprjón, prjónuðum ákveðið sjal sem við völdum og útkoman var mismunandi eftir því hver hélt á prjónunum.“
Guðlaug hefur sótt bókasafnið árum saman. „Ég hef verið þar bæði með börnunum mínum, leikskólabörnum og nú barnabarni og alltaf jafn ánægjulegt að koma þangað. Fólk á öllum aldri, krakkar í æðislegu barnadeildinni, háskólafólk að læra fyrir próf, allir klúbbarnir sem eru með aðsetur í safninu og svo við með hannyrðirnar okkar.“ Guðlaug hvetur alla sem hafa lausa stund milli tvö og fjögur á miðvikudögum til að kíkja á bókasafnið. „Sama hver þú ert og á hvaða aldri, á bókasafninu er eitthvað fyrir alla.“
Bókasafn Kópavogs býður upp á fjölda viðburða og öflugt klúbbastarf. Kynntu þér fjölbreytta þjónustu bókasafnsins á bokasafn.kopavogur.is.