1 minute read

Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs

Markmiðið að efla áhuga barna og ungmenna á ljóðagerð

Jón úr Vör var einn af frumbýlingum Kópavogs. Hann var ljóðskáld og orðsins listamaður sem gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1937, aðeins tvítugur að aldri, en varð fljótt eitt af höfuðljóðskáldum landsins. Jón var heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands, hlaut Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu og þáði heiðurslaun listamanna frá árinu 1986.

Advertisement

Jón sagði að bókasöfn hefðu verið hans helsti skóli. Hann var því hvatamaður að stofnun lestrarfélags og bókasafns í sinni heimabyggð á Patreksfirði og þegar hann flutti í Kópavog stóð hann að stofnun Lestrarfélags Kópavogshrepps sem síðar varð Bókasafn Kópavogs. Hann var því frumkvöðull að stofnun Bókasafns Kópavogs og fyrsti forstöðumaður þess 1953 til 1977.

Lista- og menningarráð Kópavogs hefur frá árinu 2002 staðið að árlegum ljóðaverðlaunum i minningu skáldsins Jóns úr Vör. Veitt eru peningaverðlaun og verðlaunaskáldið fær til varðveislu í eitt ár göngustaf, sem var í eigu Jóns.

Englabróðir

Stóri bróðir ég sakna þín.

Eitt það sem ég þrái heitast er bara að sjá þig,

bara einu sinni alla vega.

En ég veit að þú ert alltaf hjá mér

og gætir mín í gegnum skýin.

Nú værir þú tólf ára,

tveimur árum eldri en ég.

Þú myndir gæta mín samt,

þótt við hefðum fengið að vera hér

samtímis.

En nú gerir þú það í gegnum skýin.

Það er skrítin tilfinning að sakna þín

án þess að hafa hitt þig.

Mér finnst ég hafa hitt þig

í gegnum minningar þeirra

sem þekktu þig best

og við elskum báðir.

Þú hést Rafn, ég heiti Rafnar

því ég gæti krummans þíns.

Kári Rafnar Eyjólfsson sigraði grunnskólakeppnina árið 2021 með ljóðinu Englabróðir.

This article is from: