2 minute read

Gerðarverðlaunin

Jákvæðni og sköpun í loftinu í Kópavogi

Rósa Gísladóttir hlaut í vetur Gerðarverðlaunin, ný myndlistarverðlaun sem Gerðarsafn hyggst hér eftir veita árlega framúrskarandi myndlistarmanni sem vinnur í skúlptúr og rýmisverk. Rósa hlýtur verðlaunin fyrir metnaðarfullt og kröftugt framlag til höggmyndalistar, en hún nam myndlist í Þýskalandi, Bretlandi og á Íslandi. Verk hennar hafa verið sýnd hérlendis og erlendis.

Advertisement

Rósa segir listina hafa átt sig með húð og hári frá unga aldri. „Ég var endalaust á námskeiðum en var líka í tónlist, spilaði á selló og þegar ég kláraði menntaskóla togaðist á í mér hvort ég ætti að mennta mig meira í myndlistinni eða láta tónlistina taka yfir.“ Inntökupróf í Myndlista- og handíðaskóla Íslands réð úrslitum. „Ég hef oft á lífsleiðinni hugsað: „Æ, ég þyrfti að læra eitthvað praktískt,“ en þetta er það eina sem ég nýt mín í eða hef gaman af. En þetta er erfitt, átök og hark. Í myndlist þarftu búa til þín eigin tækifæri, færð aldrei próf sem veitir þér starfsréttindi heldur þarft sjálf að skapa þér vinnu. Ég hef verið heppin að geta sinnt þessu og þó stundum hafi mig langað til að hætta þessu bara alveg, þá er þetta köllun og án þess að hafa þessa köllun er ekki hægt að vera í þessu starfi.“

Gerður var ein af þessum stóru

Rósa er afar ánægð með að vera fyrsti handhafi Gerðarverðlaunanna. „Það er auðvitað mikil viðurkenning að vera sú fyrsta sem fær þau, sérstaklega þar sem þau eru kennd við Gerði Helgadóttur,“ segir hún og bætir við: „Gerður var náttúrlega ein af þessum stóru; bæði höfðar myndlistin hennar til mín og svo hef ég unnið mikið í svipaðan efnivið og hún gerði, bæði litað gler og mósaík. Svo það eru margir strengir sem mér hafa fundist liggja á milli okkar og ekki má gleyma symmetríunni. Ég er nýflutt til Reykjavíkur aftur eftir að hafa búið í sextán ár í Birkigrund í Kópavogi svo ég var alltaf að horfa á verkin hennar á hringtorgunum í Hamraborginni; þau eru svo symmetrísk, eins og mörg verka hennar eru, og það er svo gaman að keyra hringinn í kringum þessi verk, því það eru alls ekki allir skúlptúrar þannig að það sé gaman að horfa á þá frá öllum hliðum. En flest hennar verk eru þannig að þau standast áhorf úr öllum áttum.“

Rósa segir ýmislegt spennandi framundan. „Ég er búin að vera að vinna mikið með lágmyndir og einmitt mósaík og líka gifsverk, alls konar frekar einföld form og symmetrísk. Árið í fyrra var annasamt, bæði voru mörg verkefni og svo fluttum við líka þannig að það var mikið álag. Covid-ástandið gerði það samt að verkum að ég gat verið mikið á vinnustofunni mitt í öllum önnunum og fengið frið til að vinna á annan máta, fara ofan í hugmyndir sem ekki vannst tími til að sökkva sér í þegar þær kviknuðu. Í myndlistinni leiðir allt hvað af öðru og það var dýrmætt að finna hugarró til að skapa.“

Kópavogur er flottur menningarbær

Þó Rósa sé flutt til Reykjavíkur er hún með vinnustofu í Kópavogi, hefur sterkar taugar til bæjarins og finnst framtíðin þar björt. „Mér finnst eins og listalífið í Kópavogi sé að blómstra mjög mikið um þessar mundir, bæði í tónlist og myndlist og fleiru. Það liggur einhver jákvæðni og sköpun í loftinu sem gaman verður að fylgjast með áfram. Bærinn er á flottu skriði menningarlega.“

This article is from: