MEKÓ 2021-2022

Page 20

LJÓÐSTAFUR JÓNS ÚR VÖR

Tækifæri sem ljóðskáld verða að grípa Þórdís segir hvað sem er geta kveikt ljóð. „Þetta er skrýtið ferli og ljóðin mín fæðast ekki endilega út frá einhverju stórkostlegu. Kveikjan er oft frekar hversdagsleg og ég þarf stundum að hafa fyrir því að kyrra hugann, setjast niður með autt blað og skjal og byrja að gubba einhverju á það og þá fer eitthvað að spíra. Eg held að innra með fólki séu endalausar kveikjur og starf skáldsins er að ná þeim, veiða þær úr undirmeðvitundinni.“

Fasaskipti Ég elska börnin mín og börnin sem börnin mín Elska og börnin sem elska börnin mín. Þau keyra kuldaskó í gegnum ísinn þegar Tjörnina hefur lagt. Þau elska að beita afli. Brjóta flísar úr ísingunni og halda þeim upp að Andlitinu. Ég sé þau út um gluggann, saltsleikt Auga hússins. Þau sjá mig gegnum tært gler. Ljósgul skíma og svo dimmir. Þannig er tíminn Skorinn í sneiðar, hvítar og svartar, skiptingin Ekki bróðurleg frekar en á öðrum gæðum. Frostið herðir á aðgreiningunni milli heima Og breytir lygum í sannindi. Gerir göngubrú úr Svokölluðu yfirborði vatnsins. Ef falskir botnar fela Eitur eða fjársjóði, hvað felur þá falskt yfirborð? Börnin en ekki ég treysta gljúpri himnunni Yfir handanheiminum þar sem andardrátturinn Rennur í öfuga átt. Enda er stutt síðan þau komu Í gegn, önduðu hringöndun meðan þau drukku, Fljótandi fæði úr sykurbrjósti. Þau bíta í rendurnar Bryðja glerbrjóstsykur, stolt af styrk sínum. Í barnatennur vantar taugarnar fyrir tannkul. Það blómstrar ætiþistill í eldhúsglugganum. Enginn elskar veturinn eins og börnin mín. Þórdís Helgadóttir handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör 2021

Þórdís Helgadóttir rithöfundur hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör í ár fyrir ljóðið Fasaskipti og var það í tuttugasta sinn sem hann er veittur ljóðskáldi fyrir áður óbirt ljóð. Þórdís hóf skáldaferil sinn seint miðað við marga en hefur náð eyrum og sjónum lesenda og gagnrýnenda sem lofa verk hennar. Hún var leikskáld við Borgarleikhúsið veturinn 20192020 og stefnir á ljóðabókaútgáfu í haust. „Ég er svolítið seinþroska skáld og má eiginlega segja að ég hafi farið hálfgerða Fjallabaksleið að mínum skáldaferli,“ segir Þórdís. „Ég var í heimspeki og fór að því loknu að vinna á auglýsingastofu. Ég var samt alltaf í kringum bókmenntir og að vinna með texta. Svo ákvað ég loksins þegar ég var þrjátíu og fjögurra ára að fara í meistaranám í ritlist í Háskólanum og þá einhvern veginn fór allt að gerast. Ég gaf 2018 út smásagnasafn sem heitir Keisaramörgæsir en hef líka skrifað leikrit og mun gefa út ljóðabók í haust. Svo er ég líka hluti af skáldkvennahópi sem kallast Svikaskáld og við höfum gefið út þrjár bækur og sú fjórða er á leiðinni.“ Maður þarf að gefa sjálfum sér leyfi Hún segir skriftirnar ekki hafa komið fyrirhafnarlaust. „Ég var alltaf að reyna að skrifa en var með einhverjar stíflur, eins og ég væri að bíða eftir því að geta og fá leyfi til að vera listamaður, ég þorði það ekki í eigin mætti. Þangað til ég komst að því að það gefur enginn leyfi, þú þarft að gera þetta sjálf. Þegar ég gaf mér leyfi þá kom allt. Best að lýsa því þannig.“

Hún segir það eiginlega vera skyldu skáldsins að grípa tækifæri sem bjóðast eins og ljóðasamkeppni Jóns úr Vör. „Það er engu að tapa á því að taka þátt. Stundum á fólk eitthvað í handraðanum, stundum verður keppnin kveikjan að því að skáld setur sig í ljóðstellingar. Ég orti þetta ljóð til dæmis sérstaklega fyrir keppnina. Það er líka mjög hollt að hafa einhverskonar skilafrest, að verða að vera búin með ljóð á einhverjum vissum tíma og senda það svo frá mér.“ Mikil viðurkenning og eykur sjálfstraust Viðurkenningar á borð við Ljóðstafinn segir Þórdís hvetjandi á margan hátt. „Þegar ég er að yrkja ein heima hjá mér er oft svo erfitt að vita hvort ljóðin eru góð, hvort þau snerta við einhverjum eða kveikja einhverja neista. Ég var svo glöð þegar ég fékk símtal frá dómnefnd sem er skipuð fólki sem ég lít rosalega upp til með þeirri viðurkenningu að ljóðið mitt hafi náð til þeirra. Nú er ég með ljóðabók í smíðum og hef svo miklu meiri trú á því sem ég er að gera, veit að eitthvað er að hitta í mark einhversstaðar þó auðvitað sé það persónubundið og smekkur einstaklingsbundinn, eðlilega.“ Þórdís býr ekki í Kópavogi en sækir samt innblástur og næði í bæinn, nánar til tekið í Hamraborgina. „Uppáhaldsstaðurinn minn til að skrifa í næði er á Te og kaffi í Hamraborginni. Þó ég hafi engin formleg tengsl við Kópavog er eitthvað sem veldur því að mér finnst einstaklega gott að vera þar, fá hugmyndir og vinna. Ég get ekki sagt hvað það er og ég vil ekki endilega greina það, það er bara einhver galdur.“


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.
MEKÓ 2021-2022 by MEKÓ | Menning í Kópavogi - Issuu