ÁRSSKÝRSLA 2020
SJÁVARÚTVEGSMIÐSTÖÐ HÁSKÓLANS Á AKUREYRI – SJÁ Hlutverk Sjávarútvegsmiðstöðvar HA er að efla tengsl háskólamenntunar við íslenskt atvinnulíf á sviði sjávarútvegs og stoðgreina hans. Einnig að stuðla að rannsóknum og nýsköpun atvinnugreininni til framdráttar, í samstarfi við erlenda og innlenda sérfræðinga, stofnanir og fyrirtæki. Enn fremur að stuðla að kynningu íslensks sjávarútvegs og stoðgreina hans á lægri skólastigum og meðal almennings. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fjármagnar reksturinn að hluta samkvæmt samningi milli Háskólans á Akureyri og ráðuneytisins. Sjávarútvegsmiðstöðin heyrir undir Viðskipta- og raunvísindasvið háskólans. Starfsemi SJÁ 2020 var umfangsmeiri árið áður, einkum vegna þess að umsvif Sjávarútvegsskóla unga fólksins jukust að mun. Sjávarútvegsmiðstöðin tók við þessu verkefni 2016 en þá fór skólinn einungis fram á Austurlandi. Forstöðumaður SJÁ hefur haft forgöngu um það að starfsemi Sjávarútvegsskólans nær nú til allra landshluta. Sjávarútvegsskóli unga fólksins er ætlaður grunnskólanemendum á aldrinum 13 – 16 ára. Tilgangurinn er að kynna ungu fólki möguleika sjávarútvegs og tengdra greina sem framtíðarvinnustaðar. Kennarar Sjávarútvegsskólans eru aðallega stúdentar í sjávarútvegsfræði og líftækni frá Háskólanum á Akureyri, ýmist brautskráðir eða enn í námi. Starfsemin er svæðisbundin. Aðalstyrktaraðilar eru fyrirtæki í sjávarútvegi og tengdum greinum sem og viðkomandi sveitarfélög og bæjarfélög, og Sjávarútvegsskólinn fer fram í nánu samstarfi við vinnuskóla á hverjum stað. Alls voru nemendur um 400 talsins árið 2020. Alls voru greiddar um 14 mkr. til Sjávarútvegsmiðstöðvar HA fyrir umsjón með Sjávarútvegsskóla unga fólksins árið 2020. Forstöðumaður SJÁ annast skipulagningu Sjávarútvegsskólans og hefur alla umsjón með framkvæmd. Undirbúningur að Fiskeldisskóla unga fólksins hófst á árinu. Tveir stúdentar í sjávarútvegsfræði við HA tóku að sér að vinna grunn að kennsluefni fyrir Fiskeldisskólann, sem fyrirhugað er að hefji starfsemi 2021 með svipuðu sniði og Sjávarútvegsskóli unga fólksins. Starfsemin verður á þeim stöðum þar sem fiskeldi er stundað. Til að afla kennsluefnis heimsóttu stúdentarnir Arnarlax ehf. á Bíldudal, Laxa fiskeldi á Eskifirði og Fiskeldi
76
Austfjarða hf. á Djúpavogi. Þetta verkefni var styrkt af áðurnefndum fyrirtækjum. Í lok árs var undirritaður samningur við Evrópusambandið um samstarf fjögurra landa um úttekt á námi í fiskeldisfræði og gerð tillagna að skipulagi náms fyrir framtíðarstarfsmenn fiskeldisstöðva. Verkefnið, sem nefnist BRIDGES CoVE, hlaut 4.000.000 evra styrk frá Erasmus+. Samstarfslöndin eru Noregur, Svíþjóð, Finnland og Ísland. Verkefnið hófst formlega 1. nóvember 2020 og stendur yfir í fjögur ár. Sjávarútvegsmiðstöðin við HA heldur utan um verkefnið af hálfu Háskólans á Akureyri. Auk HA eru þátttakendur fyrir hönd Íslands Háskólinn á Hólum, Fiskitækniskóli Íslands og Arnarlax ehf. Starfsfólk Auðlindadeildar HA og Kennslumiðstöðvar HA mun koma að verkefninu, alls þrír starfsmenn. Í hlut Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri koma um 280.000 evrur vegna þessa verkefnis. Forstöðumaður SJÁ annaðist bókhald fyrir félagið Konur í sjávar útvegi. Það, ásamt aðstöðu vegna bókhaldsins, er stuðningur Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar við félagið.
Eftirfarandi er yfirlit yfir helstu verkefni Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar 2020 Sjávarútvegsskóli unga fólksins Starfsemin er svæðisskipt eins og áður segir. Við Sjávarútvegsskóla Austurlands voru 94 nemendur alls. Fóru þeir í heimsóknir í fiskvinnslufyrirtæki og til fyrirtækja í stoðþjónustu við sjávarútveg. Skólinn fór fram á Vopnafirði og Fáskrúðsfirði, í Neskaupstað og á Eskifirði og Seyðisfirði. Aðalstyrktaraðilar voru Síldarvinnslan hf., Brim hf., Loðnuvinnslan hf. og Eskja hf. Nokkur önnur fyrirtæki styrktu skólann sem og bæjarfélögin. Björgunarsveitir byggðarlaganna komu einnig að verkefninu. Sjávarútvegsskóli Norðurlands hóf að starfa sumarið 2017. Nemendur sumarið 2020 voru alls 184 talsins, frá Akureyri, Dalvík og Grenivík. Vegna fjölda þátttakenda frá Akureyri, sex hópar, var kennt þar í jafnmargar vikur. Nemendur fóru í heimsóknir í vinnslu Samherja hf., í Sæplast ehf. á Dalvík og til