2 minute read

Miðstöð doktorsnáms

Hlutverk Miðstöðvar doktorsnáms að fara með málefni doktorsnáms við háskólann og að efla rannsóknir við skólann. Í umsjón með doktorsnámi felst allur ferill doktorsnema frá umsóknarferli til mats á doktorsverkefni og skipulagningu doktorsvarnar. Miðstöð doktorsnáms heldur einnig utan um námsferilsskrá fyrir hvern doktorsnema, framvinduskýrslur og niðurstöður áfangamats.

Doktorsnámsráð, sem er stjórn Miðstöðvar doktorsnáms, ber samkvæmt reglum um doktorsnám og doktorspróf við HA nr. 701/2018 akademíska ábyrgð á öllu doktorsnámi við háskólann enda tekur ráðið allar helstu ákvarðanir sem varða námsferil doktorsnema. Doktorsnámsráð tekur til dæmis ákvörðun um að samþykkja doktorsnema í nám, skipar leiðbeinendur og að lokum einnig andmælendur.

Advertisement

Það er á ábyrgð Miðstöðvar doktorsnáms og doktorsnámsráðs að gæði námsins séu samkvæmt viðmiðum um æðri menntun og prófgráður og að doktorsnámið falli að heildarhlutverki háskólans sem fræðastofnunar í þágu samfélagsins. Til þess að efla þekkingu og færni leiðbeinenda doktorsnema stendur Miðstöð doktorsnáms fyrir sérhönnuðum námskeiðum ætluðum leiðbeinendum en þeim var frestað á árinu 2020 vegna heimsfaraldursins.

Við lok árs 2020 voru samtals sjö doktorsnemar skráðir við Háskólann á Akureyri, þrír í félagsvísindum, þrír í heilbrigðisvísindum og einn í auðlindavísindum. Fyrirhugað er að fyrstu doktorsnemarnir brautskráist 2023.

Miðstöð doktorsnáms gegnir einnig hlutverki miðlægrar stjórnsýslu rannsókna við háskólann. Það felur í sér að framkvæma grunnmat vegna umsókna akademísks starfsfólks háskólans um framgang í starfi. Einnig samskipti við dómnefnd háskólans, sem og við umsækjendur um akademískar stöður sem auglýstar eru. Enn fremur falla undir stjórnsýslu rannsókna umsjón með rannsóknarmisserum akademísks starfsfólks og ýmis samskipti vegna úthlutunar úr vinnumatssjóði. Þá heldur stjórnsýsla rannsókna utan um rannsóknarstig og sér um samskipti við akademíska starfsmenn vegna mats á stigum og úrvinnslu. Á árinu 2020 hélt Miðstöð doktorsnáms utan um þátttöku Háskólans á Akureyri í innleiðingu miðlægs upplýsingakerfis um íslenskar rannsóknir, Íris, sem verður tekið í notkun á árinu 2021. Báðir starfsmenn Miðstöðvar doktorsnáms áttu sæti í stýrihóp verkefnisins á landsvísu. Á haustmisseri fór fram sjálfsmat doktorsnáms sem hluti af QEF2-mati háskólans og undirbúningur fyrir ytri gæðaúttekt á starfi skólans. Rektor skipaði sjálfsmatsnefnd doktorsnáms og í henni voru Guðmundur Heiðar Frímansson prófessor, fulltrúi doktorsnámsráðs, Lara Wilhelmine Hoffmann doktorsnemi, fulltrúi doktorsnema, Lars Gunnar Lundsten forstöðumaður, formaður sjálfsmatsnefndar, Sigríður Halldórsdóttir prófessor, fulltrúi leiðbeinenda, og Soili Nystén-Haarala, prófessor og sviðsforseti lagasviðs við University of Lapland (erlendur sérfræðingur).

Doktorsnámsráð var þannig skipað við lok árs 2020:

• Grétar Þór Eyþórsson prófessor, fulltrúi Viðskipta- og raunvísindasviðs, til vara Steingrímur Jónsson prófessor • Guðmundur Heiðar Frímannsson prófessor, fulltrúi Hug- og félags- vísindasviðs, til vara Anna Ólafsdóttir dósent • Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar HA, fulltrúi Háskólaskrifstofu, til vara Hilmar

Janusson, forstjóri Genís • Karen Birna Þorvaldsdóttir doktorsnemi, til vara Hulda

Sædís Bryngeirsdóttir doktorsnemi • Lars Gunnar Lundsten, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms, formaður, til vara Stefán B. Sigurðsson, prófessor emeritus • Sigríður Halldórsdóttir prófessor, fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs, til vara Árún K. Sigurðardóttir prófessor.

Tvö stöðugildi eru við Miðstöð doktorsnáms. Forstöðumaður er Lars Gunnar Lundsten og Sif Jónsdóttir er verkefnastjóri doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna. Stefán B. Sigurðsson, prófessor emeritus, starfar sem ráðgjafi Miðstöðvar doktorsnáms. Miðstöð doktorsnáms heyrir undir Rektorsskrifstofu.

This article is from: