5 minute read

Markaðs- og kynningarmál

Árið 2020 var um margt óvanalegt vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Ýmsum viðburðum var aflýst, frestað, eða þeir færðir á stafrænan vettvang. Við daglegt starf bættist upplýsingagjöf til starfsfólks og stúdenta vegna faraldursins. Einnig var tekið til rafrænnar miðlunar við alla kynningu á námsleiðum háskólans.

Námskynningar

Advertisement

Kynningarfulltrúi Stúdentafélags Háskólans á Akureyri tekur að jafnaði þátt í undirbúningi og framkvæmd námskynninga. Árið 2020 sinntu þær Karen Jónsdóttir og síðan Agnes Ögmundsdóttir þessu hlutverki. Þannig var það verkefni Karenar að taka þátt í skipulagi Háskóladagsins í Reykjavík, sem haldinn var þann 29. febrúar, ásamt Sigrúnu Vésteinsdóttur, sem stýrði undirbúningnum fyrir HA. Um 30 fulltrúar frá HA tóku þátt í Háskóladeginum, bæði stúdentar og starfsfólk. Kynning skólans fór fram á neðri hæð Háskólatorgs. Fjöldi fólks kynnti sér námsframboð HA. Margir gestir spjölluðu við stúdenta úr öllum námsgreinum og starfsfólk af öllum fræðasviðum sem og frá stoðþjónustu háskólans. Í stað kynningarbæklinga dreifðu fulltrúar HA svonefndum námshyrnum. Með námshyrnunum geta nemendur velt fyrir sér styrkleikum sínum til að auðvelda sér námsvalið. Þá komu fjarkennsluvélmenni háskólans að góðu gagni. Starfsfólk og stúdentar sem ekki komust á kynninguna vegna röskunar á flugi gátu tekið þátt í gegnum fjærveru og spjallað við gesti. Þetta var í 16. skipti sem Háskóladagurinn var haldinn í Reykjavík. Til stóð að halda Háskóladaginn aftur á Akureyri 7. mars og hefði það verið í fyrsta skipti, en af því varð ekki. Í kjölfarið var ákveðið að bjóða upp á rafrænar námskynningar fyrir allar námsleiðir í grunnnámi í apríl og maí. Fóru kynningarnar fram með gagnvirkum hætti í gegnum Zoom Webinar þar sem þátttakendur gátu spurt spurninga í gegnum sérstakt spurningabox. Kynningarnar voru auglýstar á Facebook en þær voru einnig teknar upp og settar á YouTube rás háskólans.

Viðburðir

Háskólaráð ákvað í ljósi aðstæðna að halda ekki hefðbundna Háskólahátíð heldur yrði leitað annarra leiða til að brautskrá kandídata. Óvenjuleg Háskólahátíð fór fram laugardaginn 13. júní. Þennan dag var sýndur þáttur á sjónvarpsstöðinni N4. Þátturinn var í formi dagskrár sem sérstaklega var sniðin að kandídatahópnum. Í stað ávarps kandídats var kallað eftir myndbandskveðjum frá kandídötum fyrir brautskráningu og þær klipptar saman fyrir þáttinn. Stefán Elí Hauksson flutti frumsamið lag sitt og Amelía Ósk Hjálmarsdóttir, kandídat í sjávarútvegsfræði, og Ágústa Skúladóttir, kandídat í viðskiptafræði, fluttu sitt lagið hver.

Fv. Sólveig María Árnadóttir, verkefnastjóri í afleysingum, Kristjana Hákonardóttir, verkefnastjóri og vefstjóri og Katrín Árnadóttir, forstöðumaður Markaðs- og kynningarmála

MARKAÐS- OG KYNNINGARMÁL

Hyrnan - Hvað höfðar til þín? Var dreift í stað kynningarbæklings á Háskóladeginum í Reykjavík.

Leikarinn og tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson var heiðursgestur. Hann hvatti stúdenta til að vera þau sjálf og skapa sér tækifæri, og minnti á mikilvægi þess að fylgja hjartanu og njóta lífsins. Sérstakur hópur stúdenta kom að undirbúningi dagskrárinnar og var hann með í ráðum við allt skipulag. Markmiðið var að gera daginn eins hátíðlegan og ef um hefðbundna Háskólahátíð hefði verið að ræða. Upptökur á þættinum fóru fram á háskólasvæðinu dagana fyrir brautskráningu og lauk þeim að kvöldi 12. júní. Á hátíðardaginn sjálfan voru kandídatar hvattir til virkrar þátttöku á samfélagsmiðlum með því að nota myllumerkið háskólahátíð. Starfsfólk Markaðs- og kynningarmála hafði yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd Háskólahátíðar. Kandídatar fengu prófskírteini sín send með pósti að þessu sinni. Í ágúst sendi háskólinn væntanlegum stúdentum heim skóladagbók, kort og karamellur sem nýnemagjöf. Nýnemadagar í lok ágúst fóru fram með rafrænum hætti. Ávarp rektors var í beinni útsendingu frá myndveri Kennslumiðstöðvar og síðan tók við kynningarmyndband fyrir nýnema þar sem aðstaðan í HA var kynnt. Að því loknu hófust rafrænir fundir fyrir hverja námsleið. Nýnemar voru hvattir til að notfæra sér rafrænar leiðir til að kynnast skólanum, nýta sér netspjall og taka þátt í rafrænum viðburðum sem Stúdentafélag HA skipulagði. Sara Atladóttir, nýnemi í iðjuþjálfunarfræði, hringdi Íslandsklukkunni 20 slög. Þar með var skólaárið hringt inn, og var hringingunni streymt í gegnum Facebook. Þátttaka stúdenta í rafrænu kynningunni var góð og ætlað er að fleiri hafi nýtt sér hana en venjulega nýnemadaga. Árlegir Opnir dagar féllu niður. Í staðinn var ákveðið að bjóða upp á kynningar í gegnum nýtt verkefni sem nefnist HA vinur. Áhugasamir geta óskað eftir HA vini og þannig komist í samband við stúdent við háskólann sem getur deilt sinni persónulegu reynslu af náminu. Umsókn um HA vin er eins konar skráningarform þar sem umsækjandi er beðinn um grunnupplýsingar, til dæmis hvaða námi hann hefur einna helst áhuga á, á hvaða aldri hann er og hvernig hann vill vera í sambandi við HA vininn. Síðan er umsækjandi paraður saman við valinn stúdent eða starfsmann háskólans, eftir því sem við á. Sá setur sig í samband við umsækjanda í gegnum Messenger, í síma, með tölvupósti, á rafrænum fundi eða eftir öðrum leiðum. Einnig er í boði að vinahópar taki sig saman og fái sér námskynningu.

MARKAÐS- OG KYNNINGARMÁL

Íslandsklukkunni var aftur hringt á fullveldisdaginn 1. desember. Agnes Guðmundsdóttir kynningarfulltrúi hringdi 20 slög. Starfsfólki og gestum var heimilt að vera á staðnum en halda þurfti tveggja metra fjarlægðarmörk. Hringingin fór fram í streymi og var drónamyndavél notuð við þetta tækifæri. Í tilefni dagsins, sem helgaður er stúdentum, skrifaði Steinunn Alda Gunnarsdóttir, formaður Stúdentafélags HA, hugvekju sem birtist á vef HA og í fjölmiðlum.

Almannatengsl og áherslan á rannsóknir

Sú skipulagsbreyting var gerð haustið 2020 að starfseiningin Markaðs- og kynningarmál var færð undir Rektorsskrifstofu og um leið ákveðið leggja aukna áherslu á almannatengsl sem og kynningu á rannsóknum við Háskólann á Akureyri. Við Markaðs- og kynningarmál starfaði Birna Heiðarsdóttir í fæðingarorlofi Kristjönu Hákonardóttur, verkefnastjóra og vefstjóra. Sólveig María Árnadóttir hóf störf sem verkefnastjóri við Markaðs- og kynningarmál í mars. Sigrún Vésteinsdóttir var ráðin til að sinna afmörkuðum verkefnum og einnig tók Karen Jónsdóttir, kynningarfulltrúi Stúdentafélags HA, þátt í undirbúningi Háskóladagsins. Katrín Árnadóttir var forstöðumaður Markaðs- og kynningarmála. Hún var í leyfi á vormisseri.

Nýnemi hringir inn skólaárið. Fv. Steinunn Alda Gunnarsdóttir, formaður SHA, Almar Knörr Hjaltason, varaformaður SHA, Sara Atladóttir, nýnemi í iðjuþjálfunarfræði og hringjari, og Eyjólfur Guðmundsson rektor. Sólveig María Árnadóttir sá um rafrænar námskynningar í myndveri KHA.

This article is from: