2 minute read

Símenntun Háskólans á Akureyri

Meginhlutverk Símenntunar Háskólans á Akureyri er að bjóða upp á alhliða sí- og endurmenntun á háskólastigi með þarfir viðskiptavina og hagkvæmni í rekstri að leiðarljósi.

Símenntun nýtur ekki opinberra fjárveitinga og þarf starfsemin því að standa undir útlögðum kostnaði og taka tillit til samkeppnislaga. Þjónusta sem lýtur að kennsluhúsnæði og fjárhagslegum rekstri Símenntunar heyrir undir viðkomandi einingar Háskólaskrifstofu HA.

Advertisement

Unnið hefur verið að því að fækka staðarnámskeiðum og nýta betur möguleika fjarkennslu með Zoom og Canvas. Með því sparast ferðakostnaður og ferðatími og hefur sú nýbreytni mælst vel fyrir bæði hjá kennurum og þátttakendum á námskeiðum.

Heimsyfirráð kórónaveirunnar breyttu samfélögum heimsins eins og hendi væri veifað og allir hafa þurft að tileinka sér nýja siði og starfsvenjur. Eitt af því sem við höfum lært er að nýta betur þá tækni sem við búum yfir, sem getur sparað mikinn tíma og fjármuni ef rétt er á haldið.

Vegna áhrifa Covid-19 ákvað Alþingi að veita háskólum landsins fjárheimild vegna sértækra námsúrræða sumarið 2020. Markmiðið var að sporna gegn atvinnuleysi og efla menntun meðal ungs fólks. Símenntun var falið að annast sumarnámið fyrir hönd Háskólans á Akureyri og þrátt fyrir stuttan undirbúningstíma tókst framkvæmd sumarnámsins vel. Símenntun hélt 29 námskeið, þar af 11 sem voru ECTS-einingabær, og sóttu námskeiðin 1.137 manns.

Á vormisseri hófst samstarf Háskólans á Akureyri og University of The Highlands and Islands – UHI í Skotlandi. Það gerir fólki kleift að stunda MBA-nám við UHI í fjarnámi. Námið felur í sér sex áfanga og ritgerð. Nemendur í því námi fá tæknilega aðstoð Símenntunar HA ásamt almennri handleiðslu þegar við á. Námið er vottað af The Quality Assurance Agency for Higher Education – QAA í Bretlandi. Mikill áhugi er á því og voru 19 stúdentar innritaðir.

Önnur nýbreytni hjá Símenntun var að bjóða fyrirtækjum og stofnunum að setja upp og halda sérsniðin námskeið fyrir viðkomandi í fjarkennslu. Þetta er gert með aðgengi að Zoom fjarnámskerfinu. Reynsla af námssamfélögum á Internetinu er mjög góð og að auki spara þau tíma og ferðakostnað. Enn fremur býður Símenntun upp á umsjón með rafrænum ráðstefnum.

Frá árinu 2017 hefur Símenntun fyrir hönd háskólans annast rekstur stjórnendanáms sem þróað er af Starfsmenntasjóði Samtaka atvinnulífsins og Sambandi stjórnendafélaga. Námið er á þriðja og fjórða hæfniþrepi íslenska hæfnirammans um menntun og námslok og er það metið til 30 ECTS eininga. Um er að ræða 100% fjarnám og skiptist það í fimm lotur sem nemendur stunda þar sem þeir kjósa, en öll kennsla og námsefni er á vefsvæðinu Canvas.

Á árinu voru kenndar átta lotur í stjórnendanámi og um 140 manns stunduðu námið. Vegna Covid-19 var engin formleg útskrift þeirra er luku náminu og því hittust nemendur og kennarar ekkert að þessu sinni.

Okkar sívinsæla nám Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun (Vogl) var kennt einn enn veturinn í samstarfi við Nordica ráðgjöf ehf. Luku 24 nemendur náminu vorið 2020 og 21 nemandi innritaðist um haustið.

Námið er metið til 24 ECTS eininga. Lögð er áhersla á að samtvinna stjórnun og samskipti og koma nemendur í fjórar lotur í skólann til verkefnavinnu en sinna náminu að öðru leyti í fjarnámi. Vegna Covid-19 var ekki hefðbundin námslota í mars heldur fjarkennsla í gegnum Zoom. Á haustmisseri fór námið alfarið fram á Zoom. Þá var ekki venjuleg brautskráning, heldur voru skírteini send nemendum í námslok í staðinn.

Starfsfólk Símenntunar hefur áfram unnið að athugun og kynningum á möguleikum sem felast í aukinni samvinnu við deildir háskólans til að bjóða símenntun og endurmenntun á háskólastigi.

Við Símenntun eru tvö og hálft stöðugildi. Símenntunarstjóri er Elín Hallgrímsdóttir.

This article is from: