1 minute read

Miðstöð alþjóðasamskipta

Í lok árs 2018 var Miðstöð alþjóðasamskipta við HA stofnuð og heyrir miðstöðin undir Rektorsskrifstofu. Rúnar Gunnarsson gegnir þar stöðu verkefnastjóra alþjóðamála og Gunnar Már Gunnarsson er í hálfu starfi sem verkefnastjóri í málefnum norðurslóða (Northern Ersearch Forum - NRF).

Verkefnastjóri alþjóðamála hefur umsjón með stúdenta-, kennara- og starfsmannaskiptum, ásamt öðrum verkefnum sem tengjast alþjóðlegu samstarfi. Á árinu 2020 voru alls 56 erlendir skiptinemar skráðir í HA, bæði í venjulegt skiptinám og í verknám, en það er fækkun um 14 nemendur milli ára. Helsta skýringin á fækkun þetta árið er heimsfaraldur Covid-19. Nemendurnir komu frá eftirtöldum löndum: Austurríki, Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Finnlandi, Frakklandi, Frönsku Gíneu, Lettlandi, Portúgal, Póllandi, Slóvakíu, Slóveníu, Spáni, Svíþjóð, Tékklandi, Ungverjalandi og Þýskalandi.

Advertisement

Alls stunduðu 18 stúdentar frá HA skiptinám eða verknám erlendis í eftirtöldum löndum: Bandaríkjunum, Finnlandi, Danmörku, Grænlandi, Japan, Noregi, Spáni og Svíþjóð.

Auk þess tóku stúdentar og kennarar þátt í samstarfsverkefnum í formi örnámskeiða innan Nordplus sem yfirleitt vara í um það bil viku. Um tuttugu kennarar og starfsmenn stoðþjónustu HA stefndu að því að fara utan í kennara- eða starfsmannaskiptum í gegnum Erasmus eða Nordplus. Því miður setti Covid-19 strik í reikninginn og margir þurftu að hætta við eða fresta för. HA tók ekki á móti mörgum erlendum gestum árið 2020 vegna faraldursins. Árið var mjög óvenjulegt og setti heimsfaraldurinn Covid-19 ýmis plön úr skorðum hjá Miðstöð alþjóðasamskipta. Sumir erlendir skiptinemar þurftu frá að hverfa til síns heima strax í mars og nokkrir íslenskir skiptinemar komu heim fyrr en áætlað var.

Samstarfsskólar HA í gegnum samninga og samstarfsnet fyrir stúdenta- og kennaraskipti eru um 200 talsins. Samstarf þetta er unnið í gegnum eftirfarandi skiptiáætlanir: Erasmus+, Nordplus, North2North og einnig tvíhliða samninga. Ný áætlun er framundan hjá Erasmus+ og eru spennandi nýjungar sem verða kynntar þar, til dæmis styttri námsdvöl eða svokallað „blended mobility“.

Unnið er að því auka fjölda skiptinema frá HA og hafa verið haldnir sérstakir fundir og kynningar fyrir stúdenta sem hafa áhuga á að fara í skiptinám eða framhaldsnám. Sem dæmi má nefna kynningar Fulbright-stofnunarinnar á Íslandi (Fulbright-styrkir), kynningar frá erlendum sendiráðum á Íslandi og kynningar á sumarnámskeiðum og möguleikum til skiptináms.

This article is from: