ÁRSSKÝRSLA 2020
MARKAÐS- OG KYNNINGARMÁL Árið 2020 var um margt óvanalegt vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Ýmsum viðburðum var aflýst, frestað, eða þeir færðir á stafrænan vettvang. Við daglegt starf bættist upplýsingagjöf til starfsfólks og stúdenta vegna faraldursins. Einnig var tekið til rafrænnar miðlunar við alla kynningu á námsleiðum háskólans.
Námskynningar Kynningarfulltrúi Stúdentafélags Háskólans á Akureyri tekur að jafnaði þátt í undirbúningi og framkvæmd námskynninga. Árið 2020 sinntu þær Karen Jónsdóttir og síðan Agnes Ögmundsdóttir þessu hlutverki. Þannig var það verkefni Karenar að taka þátt í skipulagi Háskóladagsins í Reykjavík, sem haldinn var þann 29. febrúar, ásamt Sigrúnu Vésteinsdóttur, sem stýrði undirbúningnum fyrir HA. Um 30 fulltrúar frá HA tóku þátt í Háskóladeginum, bæði stúdentar og starfsfólk. Kynning skólans fór fram á neðri hæð Háskólatorgs. Fjöldi fólks kynnti sér námsframboð HA. Margir gestir spjölluðu við stúdenta úr öllum námsgreinum og starfsfólk af öllum fræðasviðum sem og frá stoðþjónustu háskólans. Í stað kynningarbæklinga dreifðu fulltrúar HA svonefndum námshyrnum. Með námshyrnunum geta nemendur velt fyrir sér styrkleikum sínum til að auðvelda sér námsvalið. Þá komu fjarkennsluvélmenni háskólans að góðu gagni. Starfsfólk og stúdentar sem ekki komust á kynninguna vegna röskunar á flugi gátu tekið þátt í gegnum fjærveru og spjallað við gesti.
Þetta var í 16. skipti sem Háskóladagurinn var haldinn í Reykjavík. Til stóð að halda Háskóladaginn aftur á Akureyri 7. mars og hefði það verið í fyrsta skipti, en af því varð ekki. Í kjölfarið var ákveðið að bjóða upp á rafrænar námskynningar fyrir allar námsleiðir í grunnnámi í apríl og maí. Fóru kynningarnar fram með gagnvirkum hætti í gegnum Zoom Webinar þar sem þátttakendur gátu spurt spurninga í gegnum sérstakt spurningabox. Kynningarnar voru auglýstar á Facebook en þær voru einnig teknar upp og settar á YouTube rás háskólans.
Viðburðir Háskólaráð ákvað í ljósi aðstæðna að halda ekki hefðbundna Háskólahátíð heldur yrði leitað annarra leiða til að brautskrá kandídata. Óvenjuleg Háskólahátíð fór fram laugardaginn 13. júní. Þennan dag var sýndur þáttur á sjónvarpsstöðinni N4. Þátturinn var í formi dagskrár sem sérstaklega var sniðin að kandídatahópnum. Í stað ávarps kandídats var kallað eftir myndbandskveðjum frá kandídötum fyrir brautskráningu og þær klipptar saman fyrir þáttinn. Stefán Elí Hauksson flutti frumsamið lag sitt og Amelía Ósk Hjálmarsdóttir, kandídat í sjávarútvegsfræði, og Ágústa Skúladóttir, kandídat í viðskiptafræði, fluttu sitt lagið hver.
Fv. Sólveig María Árnadóttir, verkefnastjóri í afleysingum, Kristjana Hákonardóttir, verkefnastjóri og vefstjóri og Katrín Árnadóttir, forstöðumaður Markaðs- og kynningarmála
52