fjarri heimahögunum. Staðreyndin er sérstakalega áhugaverð í ljósi þeirra vangavelta sem hafa verið settar fram um mögulegan aldur Lambastaða (sjá kafla um byggðasögu).
Sjóminjar Minjar tengdar sjósókn voru einna algengastar minja á Seltjarnarnesi og þarf það e.t.v. ekki að koma á óvart þegar blómleg sjósókn Seltirninga í gegnum aldirnar er höfð í huga. Samtals voru skráðar 46 fornleifar tengdar sjósókn á Seltjarnarnesi. Af þessum fornleifum hefur þegar verið fjallað um sjö sjóvarnargarða en að neðan fylgir umfjöllun um aðrar minjar í þessum flokki. Algengastar sjóminja á Seltjarnarnesi eru varir. Samtals voru skráðar 16 varir/lendingar, á öllum lögbýlunum átta og á mörgum af smærri býlunum. Um helmingur varanna er nú alveg horfinn í landfyllingu og umrót síðari tíma en hinar (221:003, 223:004, 224:037, 039 og 044, 225: 004, 226:008 og 228:009) má enn greina á fjöru. Varirnar á nesinu voru misgóðar en flestar þeirra þurfti að hreinsa reglulega þar sem stórgrýti vildi safnast í þær. Þegar dreifing varanna er skoðuð má sjá að skörp skil eru í dreifingu milli norður- og suðurstrandar nessins og eru meira en tvöfalt fleiri varir norðanmegin á nesinu. Ástæður þessa munar kunna að vera margvíslegar en bent hefur verið á að líklega hafi þyngst vegið að styttra var á fiskimiðin frá norðanverðu nesinu. Hefur það að líkindum vegið þyngra heldur en hvort ryðja þurfti varirnar til að halda þeim hreinum.37 Heimildir eru þekktar um uppsátur á fjórum stöðum á Seltjarnarnesi (224:058, 224:071, 225:005 og 226:016) og sjást merki þeirra á einum stað (225:005). Staðsetning fjögurra hjalla er þekkt á nesinu. Tveggja þeirra var getið í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, annars vegar beint suður af Nesi (224:059) og hins vegar fram af verbúðum á Suðurnesi (224:142). Heimildir um hina hjallana tvo eru töluvert yngri. Annars vegar var hjallur þar sem enn stendur skúr við Bollagarðsvör (224:092) og hins vegar var hjallur í Gróttu (225:007) sem var skráður í fornleifaskráningu árið 1980 en er nú horfinn. Þrjár sjóbúðir voru skráðar á Seltjarnarnesi. Um tvær þeirra, sjóbúð í Gróttu (225:015) og óstaðsetta sjóbúð í Neslandi (sjá 224:062), er getið í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 en ummerki um hvoruga sjást nú á yfirborði. Sjóbúð var hins vegar byggð að nýju í Gróttu um 1930 (225:006) og stendur hún enn. Húsið er nú í eigu Rótarýklúbbs Seltjarnarness sem hefur látið gera húsið upp. Sjóbúðin er timburhús undir bárujárnsklæddu þaki og virðist vera í góðu ástandi.
37
Sbr. t.d. Guðrún Einarsdóttir. 1979, 14-15.
145