2 minute read

Heildstæðar rannsóknir á Seltjarnarnesi

3. Fyrri rannsóknir á Seltjarnarnesi

Saga Seltjarnarness er löng og merkileg. Það þarf því e.t.v. ekki að koma á óvart að miklar rannsóknir sem lúta að sagnfræði og fornleifafræði hafi verið gerðar á svæðinu. Á síðustu 30 árum hafa fjölmargir fræðimenn beint athygli sinni að Seltjarnarnesi, ýmist sem heild eða að einstaka jörðum og/eða minjastöðum. Þar sem afmörkuð svæði hafa verið rannsökuð hefur athyglinni undantekningarlaust verið beint að Framnesinu, nánar tiltekið þess hluta nessins sem nær austur að Þvergarði.1 Þar sem um auðugan garð er að gresja í rannsóknum á Seltjarnarnesi var hér valin sú leið að gera fyrst grein fyrir þeim rannsóknum á nesinu sem beinast að svæðinu í heild en fjalla síðar um rannsóknir í Nesi og á öðrum afmörkuðum svæðum á Framnesinu.

Advertisement

Heildstæðar rannsóknir á Seltjarnarnesi

Fyrstu ítarlegu úttektina á landnámi og byggðarþróun á Seltjarnarnesi gerði Ólafur Lárusson. Árið 1936 birtist eftir hann greinin „Hversu Seltjarnarnes byggðist” þar sem hann fjallaði um landnám og byggðarþróun á Seltjarnarnesi og í Reykjavík.2 Úttekt Ólafs var greinargott yfirlit um líklega þróun byggðar á nesinu en um hana verður fjallað nánar í næsta kafla. Björn Teitsson fjallaði einnig um svipað efni í grein sinni „Byggð í Seltjarnarneshreppi hinum forna” sem birtist í Safni til sögu Reykjavíkur árið 1974. Báðir eiga Ólafur og Björn það sameiginlegt að nota heimildir sagnfræðinnar og örnefni til að reyna að varpa ljósi á sögu byggðar. Á sjötta áratug 20. aldar tók Ari Gíslason tók saman skrá um örnefni á nesinu og afréttarlandi þess á vegum Örnefnastofnunar. Önnur örnefnaskrá var tekin saman nokkru síðar, eða 1976, af Guðrúnu S. Magnúsdóttur. Árið 1978 vann Guðrún Einarsdóttir, landafræðinemi við Háskóla Íslands, lokaverkefni um örnefni á Seltjarnarnesi. Verkefnið beindist að því að greina og staðsetja örnefni á Seltjarnarnesi og tók Guðrún viðtöl við fjölda heimildamanna á nesinu. Í kjölfar ritgerðar Guðrúnar var ráðist í útgáfu af örnefnakorti þar sem loftmynd af Seltjarnarnesi var notuð sem grunnur og öll helstu örnefni merkt inn. Guðrún sá um vinnslu kortsins en Rótarýklúbbur Seltjarnarnes kostaði verkefnið og sá um útgáfuna.

1 Rétt er að geta þess að það sem er hér og víðar í skýrslunni nefnt Framnes er vestari hluti Seltjarnarness, þ.e. svæðið vestan Þvergarðs en austanvert nesið nefnt Innnes eins og gert er í úttekt Guðrúnar Einarsdóttir á örnefnum á nesinu. Stundum er hins vegar allt Seltjarnarnes nefnt Framnes og þá oft í samhengi við hinn forna Seltjarnarneshrepp sem var miklu stærri en það svæði sem hér er til umfjöllunar. 2 Ólafur Lárusson. 1936 og Ólafur Lárusson. 1944.

This article is from: