6. Fornleifar og byggð Seltjarnarneskaupstaður nær nú yfir svæði sem var vestasti og ysti hluti hins gamla Seltjarnarneshrepps. Flatarmál kaupstaðarlandsins er um 2,9 km2. Umfang fjara á Seltjarnarnesi er, eins og gefur að skilja, mikið og er áætlað flatarmál þeirra um 0,93 km2. Seltjarnarnes er láglent og er stærstur hluti þess undir 15 m hæðarlínu. Á nesinu ber Valhúsahæð hæst og er hún 31 m.y.s. Á nesinu eru þrjár tjarnir (Bakkatjörn, Búðatjörn og Tjörn í Dal) en enginn lækur rennur á svæðinu. Inn í strönd Seltjarnarness skerast víkur og varir. Fjörurnar eru að jafnaði sendnar að sunnan- og vestanverðu en stórgrýttara er við norðurströndina. Landbrot við Seltjarnarnes er talsvert og hefur nesið oft orðið illa úti í óveðrum vegna sjávargangs og flóða. Ásýnd nessins breyttist talsvert í einu því minnisstæðasta, Básendaflóðinu 1799, þegar sjór gekk yfir nesið á rúmlega 500 m breiðu belti. Afleiðingar þessa flóðs urðu að Grótta rofnaði frá landi og fleiri jarðir á nesinu urðu aldrei aftur jafn byggilegar og áður. Landslag og umhverfi á Seltjarnarnesi hafa tekið miklum breytingum á síðustu 100 árum eftir að þéttbýli fór að myndast. Nú er svo komið að allt austanvert svæðið, allt að Nesi, er þéttbýlt. Óbyggð svæði á Seltjarnarnesi eru nú um 1 km2 að flatarmáli og einkennast þau mest af túnum og graslendi þótt þar megi einnig finna móa, mela, votlendi og strandagróður. Á Seltjarnarnesi eru tvö svæði sem eru friðlýst náttúrusvæði, annars vegar Grótta og hins vegar kollur Valhúsahæðar. Auk þessa eru Suðurnes og Seltjarnarnesfjörur í kringum nesið frá Bakka að Bygggarði, Suðurnes allt, Kotagrandi, Bakkagrandi og Bakkatjörn á Náttúruminjaskrá.28
Bæjarhólar, bæjarstæði og býli Bæjarhólar myndast þar sem bæir hafa staðið á sama stað um aldir. Hólarnir verða til úr gólflögum sem hafa hlaðist upp í tímans rás, byggingarefni, torfi og grjóti og öskuhaugum. Í bæjarhólum er helst að leita upplýsinga um húsakost, fæðu og almenn lífsskilyrði til forna og þar eru mestar líkur á að finnist merkir gripir. Bæjarhólar eru því mikilvægir minjastaðir en jafnframt eru þeir sá minjaflokkur sem einna verst hefur farið í uppbyggingu í landbúnaði á þessari öld. Alls sjást enn leifar 6 bæjarhóla á Seltjarnarnesi, á helmingi af lögbýlunum átta (á Lambastöðum, í Nesi, í Gróttu og Bygggarði) og á tveimur hjáleigum sem tilheyrðu Nesi,
28
Samantektin hér að ofan byggir á upplýsingum úr útgefinni skýrslu um Náttúrufar á Setljarnarnesi.
135