
1 minute read
Kraftmikið ár. Bls
Bls.44 Kraft mikið ár

Advertisement



Þetta er svo sannarlega búið að vera kraftmikið og spennandi ár hjá Krafti og erfitt að tína til allt sem við erum búin að hafa fyrir stafni. En hér nefnum við nokkra af þeim viðburðum og styrkjum sem og samstarfi sem vert er að minnast á.
Strákastund og Kvennastund
Kraftur hélt bæði Kraftmikla Strákastund og Kraftmikla Kvennastund. Á þessum stundum hvetjum við fólk til að koma saman og hlusta á reynslusögur frá öðrum, hvort sem þau hafa greinst með krabbamein eða eru aðstandendur. Eins og nöfnin gefa til kynna þá greina strákar frá sinni reynslu á Strákastundinni og stelpur á Kvennastundinni.
Krabbamein fer ekki í frí
Á hverju ári vekur Kraftur athygli á því að þó að starfsfólk fari í sumarfrí fer krabbamein ekki í frí. Því auglýsum við opnunartíma hjá hinum ýmsu þjónustuaðilum í heilbrigðiskerfinu og stuðningsaðilum og dreifum plakötum og upplýsingum um opnunartíma yfir sumartímann. Liður í þessu er einnig að halda skemmtilega viðburði í júlí fyrir félagsmenn og skelltum við okkur til Viðeyjar og nutum náttúru og samvista þar. Svo vorum við með kvöldvöku og varðeld í Heiðmörk þar sem Arnar Friðriks trúbador leiddi söng.
Samstarf við Töru Tjörva
Kraftur hóf samstarf við ljósmyndarann og margmiðlunarhönnuðinn Töru Tjörva en hún býr til falleg plaköt með handskrifuðum orðum sem minna okkur á að staldra við í núinu og njóta. Plakötin eru seld í nokkrum stærðum inn á vefverslun Krafts.
Sumargrillið
Kraftur hélt sitt árlega sumargrill með stæl í Guðmundarlundi þar sem í kringum 200 Kraftsfélagar komu saman, nutu skemmtunar og veitinga í fallegu veðri. Fjöllista- og sirkushópurinn Hringleikur var með sirkus- og loftfimleikaatriði, Sirkus Íslands sá um andlitsmálun fyrir börnin sem og blöðrudýr og bauð upp á kandífloss. Reiðskólinn Hestalíf teymdi börn á hestbaki og að sjálfsögðu voru hoppukastalar og Instamyndir á svæðinu. Hamborgarabúlla Tómasar grillaði borgara ofan í alla viðstadda og Ölgerðin sá um drykki. Emmsjé Gauti toppaði svo sumargrillið með því að taka nokkur lög og fékk fullt af krökkum í lið með sér að hoppa á sviðinu og rappa.