1 minute read

Kraftur klífur Fimmvörðuháls. Bls

Kraftur klífur Fimmvörðuháls

Þann 27. júní hélt kraftmikill hópur Kraftsfélaga af stað yfir Fimmvörðuháls í fylgd frábærra leiðsögumanna frá Midgaard Adventures. Veður lék við hópinn þrátt fyrir að það hefðu verið skúrir á köflum framan af en gengnir voru 24 kílómetrar, þar af u.þ.b. 4 kílómetrar í snjó. Leiðsögumennirnir pössuðu vel upp á hópinn, að allir nærðust vel og að gengið væri á þeim hraða sem hentaði hverjum og einum.

Advertisement

Gangan tók á en fegurð náttúru Íslands bætti það upp jafnóðum og gaf mikinn styrk á erfiðri og langri göngu. Göngunni var skipt upp í þrjá parta, þar sem fyrst var gengið frá Skógum og upp eftir Skógargljúfri en þar má sjá fjölmarga dásamlega fossa á leiðinni og upp að göngubrúnni yfir Skógá. Frá brúnni tók við erfiður kafli þar sem gengið var upp að Baldvinsskála en löng og góð nestispása tekin eftir það. Frá Baldvinsskála var gengið yfir Fimmvörðuhálsinn en þar mætast Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull. Svæðið hefur tekið miklum breytingum og því margt að sjá eins og til dæmis gígana Magna og Móða sem mynduðust í gosinu 2010.

Heppnin var með hópnum því nokkuð var um snjóþungar brekkur sem unnt var að renna sér niður að Heljarkambi. Kraftsfélagar létu nafnið ekkert á sig fá og skottuðust auðveldlega yfir. Að lokum var gengið niður í Þórsmörk í dásamlegu veðri. Sól og 16 gráður mættu hópnum þegar komið var í Bása en þar grillaði Midgaard Adventure fyrir hópinn sem rann ótrúlega vel niður eftir heilan dag á göngu.

Ferðaþjónustan Midgaard Adventure sem starfar á Hvolsvelli sá algjörlega um hópinn og að allir fengju að njóta sín vel. Þetta var ótrúlega vel heppnuð ferð og heyrst hefur á Kraftsfélögum að þau séu strax farin að hlakka til næstu ferðar næsta sumar!

Göngur eru hollar og góðar fyrir líkama og sál og hafa göngur reynst mörgum krabbameinsgreindum vel sem partur af endurhæfingu. Ekki er verra ef að félagsskapurinn í göngunni er góður! Sérstaklega ef um er að ræða einstaklinga sem gengið hafa í gegnum svipaða hluti og maður sjálfur. Kraftur starfrækir gönguhópinn Að klífa brattann, en göngur eru alla jafnan einu sinni í mánuði.

Kynntu þér gönguhópinn Að klífa brattann með því að taka mynd af QR kóðanum með snjallsíma.

This article is from: