
4 minute read
Fögnum á hverjum degi. Bls
Fögnum á
Í síðasta tölublaði af Krafti kynntumst við hjónunum Önnu Dröfn og Hjörleifi sem eru einstaklega samrýnd hjón, búsett við fallegan ós í Borgarfirði ásamt börnunum sínum þremur. Anna var þá nýbúin að greinast aftur með krabbamein, meinvörp í lifur á fjórða stigi og var í krabbameinsmeðferð. Nú, ári síðar, fengum við að heyra hvernig staðan er.
Advertisement
Lifa í átta vikna lotum
Krabbameinslyfjameðferðin sem Anna fór í varði í þrettán mánuði en í dag er hún einungis á líftæknilyfi og þarf að fara inn á Landspítala á tveggja vikna fresti í lyfjagjöf. „Þegar að ég greindist aftur þá fengum við að vita það eftir á að það væri í raun bara þessi meðferð eða engin meðferð. Það var algjört raunveruleikatékk,“ segir Anna. Krabbameinslyfjameðferðin sem Anna hefur nú lokið náði að eyða þeim sjö æxlum sem voru í lifrinni. Líftæknilyfið sem hún er á núna drepa ekki frumurnar hennar heldur gera þær veikari. Það hefur mikil áhrif á ónæmiskerfið sem er erfið aukaverkun og segist Anna oft vera þreytt eftir þær meðferðir en hún sé búin að læra að lifa með þeim.
hverjum degi
„Við gátum ekki beðið um meira eða betra en það sem er að gerast. Krabbameinið er í dvala en Anna er í stöðugu eftirliti og fer á átta vikna fresti í tölvusneiðmynd sem hefur hingað til komið vel út. Svo er bara áfram með smjörið. Það er ekkert ólíklegt að við verðum á þessu blessaða lyfi áfram. Auðvitað langar okkur að vera laus við alla meðferð en það gæti alveg verið að þetta þurfi að fylgja okkur það sem eftir er,“ segir Hjörleifur en þau hjónin tala alltaf um að þau séu í meðferð en ekki bara Anna þar sem þau eru saman í þessu verkefni.
Þau hafa náð að sníða líf sitt eftir þessum tveggja og átta vikna fösum, þ.e. lyfjagjöf og svo tölvusneiðmynd. „Við vitum alltaf bara stöðuna á átta vikna fresti þar sem krabbameinið er á fjórða stigi og 60% vaxandi. Ef það væri í 70% vexti þá myndi lyfið aldrei ná fram fyrir vöxtinn á æxlinu. Svo við erum á einhverju svona nippi en það virðist halda sér niðri. En ég gæti hins vegar alltaf tekið
upp á því að smella í eitt æxli í heilanum eða á einhverjum öðrum stað í líkamanum. Maður veit aldrei hvað maður er vís til, ég geri þetta jú allt sjálf,“ bætir Anna glottandi við. Hún segist samt alltaf finna fyrir óróleika daginn fyrir rannsókn og fer í tilfinningalega rússibana á átta vikna fresti. „En þetta er ósköp einfalt. Þegar við förum einhvern tímann með húsbílinn til Suður-Frakklands þá flýgur hún bara heim í meðferð og kemur svo bara aftur út til mín,“ segir Hjörleifur. „Þetta er hundleiðinlegt og ekkert það sem stóð til en þetta er það sem gefur okkur tíma til að fá að vera áfram saman. Það er alls virði,“ bætir hann svo við.
Spila núna í annarri deild
Anna og Hjörleifur hafa náð að aðlaga líf sitt að þessum aðstæðum og taka hverjum degi fagnandi. Hjörleifur stefnir á nám í fjalla- og ævintýraleiðsögn á næstu misserum. „Það er svo gaman að hann sé með pínu plan fyrir sig en ekki bara fastur í umönnunarhlutverkinu með mig. Mér finnst að hann eigi einmitt að nýta tímann meðan ég er í stöðugu eftirliti. Þegar ég veit við erum að halda þessu niðri,“ segir Anna.
Anna hefur nú meiri orku heldur en hún hafði í fyrstu krabbameinsmeðferðinni sinni og hefur farið í Ljósið í sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun og hún skellti sér líka í göngu í sumar yfir Fimmvörðuháls með Krafti. „Ég hefði ekki þorað í þá göngu í fyrri meðferðinni. Í þeirri meðferð var ég búin að sætta mig við að verða ekkert endilega eldri og geta svona hluti.“ Hjörleifur hefur einnig leitað sér stuðnings og farið í sálfræðimeðferð á vegum Krafts þar sem hann fór í meðferð við kvíða.
„Það er eins og maður hafi farið upp um deild. Núna spilar maður bara í annarri deild og það er ekkert það sama og með fyrri greininguna. Þetta er allt annar slagur og líka bara hvernig er talað við mann þar sem ég greindist jú með meinvörp í seinna skiptið. Það er öðruvísi viðhorf hjá öllum,“ bætir Anna við. Anna heldur áfram úti Playlistanum sínum á Spotify Ég dey ekki í dag og Instastory á Instagram reikningnum sínum undir #látumdælunaganga. „Ég fæ reglulega snöpp frá fólki sem er að hlusta á listann minn og við bætum alveg við hann reglulega. Ég fæ líka skilaboð á Instagram frá bæði fólki sem ég þekki og ókunnugum og það hefur hjálpað mér að finna að ég hafi hjálpað einhverjum,“ segir Anna. Þau ræða stundum um það hvernig þau vilja hátta hlutunum í framtíðinni og nýverið ræddi fjölskyldan hvað eigi að gera við t.d. öskuna eftir andlát Önnu og hún sagðist vilja láta setja öskuna undir tré eða jafnvel birkikvist. Hjörleifur hins vegar hváði mjög við þessa tillögu. „birkikvist?! Hvers konar rugl er það? Það þarf að vera eitthvað frábært minningartré um stórkostlega konu. Ég sé fyrir mér reynitré eða eitthvað aðeins meira tignarlegt heldur en runna!“
Fjörtíu og fabjúlös!
Anna hélt risastóra afmælisveislu um miðjan ágúst til að fagna lífinu og fjörutíu ára afmæli sínu. „Það er ekkert sjálfsagt að verða 40 ára og við ákváðum að slá í stórt og skemmtilegt partý og ég er svo glöð að fólk vildi fagna þessum áfanga með mér sem er ekki sjálfsagður,“ segir Anna. Fjölmargir komu í veisluna. „Það er nú bara ein ástæða fyrir því elsku Anna. Þú ert afskaplega vel liðin og fólki þykir vænt um þig. Markmiðið okkar er svo bara að ná saman í framtíðarpartýið Áttræð og einstök,“ segir Hjörleifur ástúðlega við Önnu að lokum.