
2 minute read
Tannskemmdir sem síðbúnar afleiðingar krabbameinsmeðferða. Bls
Kraftur hefur að undanförnu vakið athygli á þeim gífur lega kostnaði sem krabbameinsgreindir þurfa að bera vegna tannskemmda eftir krabbameinsmeðferð. Við viljum nýta tækifærið og hvetja alla sem eru á leið í krabbameinsmeðferð að fara til tannlæknis í skoðun áður en meðferð hefst.
Advertisement
Síðbúnar afleiðingar krabbameinsmeðferða geta haft mikil áhrif á þá sem greinast, jafnvel löngu eftir að krabbameinsmeðferð lýkur. Afleiðingarnar geta verið líkamlegar, andlegar og fjárhagslegar og þar eru tennur engin undantekning. Í kjölfar lyfja- og geislameðferðar getur slímhúð munns og munnvatnskirtla breyst. Þetta getur raskað heilbrigðu jafnvægi baktería og leitt til munnsára, sýkinga, tannskemmda og munnþurrks en munnvatn ver tannhold og tennurnar frá glerungseyðingu og tannátu. Þetta á sérstaklega við um þá sem greinast með krabbamein í höfði eða hálsi en getur einnig átt við um önnur krabbamein þar sem lyfjameðferðin fer misjafnlega í okkur öll. Oft koma þessar tannskemmdir ekki fram fyrr en löngu eftir að krabbameinsmeðferð lýkur.
Tannheilsa bara fyrir forréttindapésa?
Félagsmaður okkar í Krafti þurfti til dæmis að greiða úr eigin vasa 1,5 milljón króna þrátt fyrir að viðkomandi hafi fengið fulla niðurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) vegna tannskemmda sem urðu vegna aukaverkana í lyfjameðferð. Þetta stafar af misræmi í verðskrá Sjúkratrygginga og verðskrá tannlækna. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hversu mikill kostnaður það er fyrir ungan einstakling með fjölskyldu og börn á framfæri.
Þá er sönnunarbyrði einstaklinga mikil til að fá niðurgreiðslu því er mjög mikilvægt að viðkomandi láti taka út tannheilsu sína hjá tannlækni áður en meðferð hefst með dagsettum myndum af ásigkomulagi tanna og tannholds fyrir krabbameinsmeðferð.
Það gefur augaleið að þegar fólk fær krabbameinsgreiningu eru aðrir og mikilvægari hlutir í huga en að skella sér í ástandsskoðun á settinu korter í meðferð. Þó ekki sé minnst á að oft gefst ekki tími enda getur verið langur biðlisti hjá tannlæknum.
Krabbameinslæknar, verið vakandi!
Engu að síður er mjög mikilvægt að krabbameinslæknar séu vakandi fyrir þessum aukaverkunum og bendi sjúklingum sínum á að láta taka út tannheilsu áður en meðferð hefst. Sækja þarf um greiðsluþátttöku SÍ áður en meðferð hefst. Ef sönnun er ekki fyrir hendi neitar SÍ alfarið að taka þátt í kostnaði svo krabbameinsgreindir gætu þurft að leita réttar síns fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála sem getur reynst tímafrekt og erfitt og ekki víst að málið falli einstaklingi í vil.
Það er alltaf áfall að greinast með krabbamein, sama á hvaða aldri þú ert. En ungt fólk sem greinist er oft á tíðum að koma undir sig fótunum, hefur meiri fjárhagslegar skuldbindingar og fjölskyldu á framfæri. Það er því svívirðilegt að slíkur kostnaður eins og hér hefur verið settur fram sé raunverulegt dæmi úr okkar samtíma.

Kíktu í tannskoðun fyrir meðferð
Það er virkileg þörf á að tannlækningar verði viðurkenndur kostnaður sem getur fallið til vegna krabbameinsmeðferðar og að tannskemmdir geti verið aukaverkun vegna meðferðar rétt eins og hármissir. Auk þess á að sjálfsögðu að vera samræmi á milli verðskrár tannlækna og SÍ. Tannheilsa er ekki annars flokks og á aldrei að vera forréttindi í okkar samfélagi heldur nauðsynleg heilbrigðisþjónusta. Engu að síður, á meðan fyrirkomulagið er eins og raun ber vitni, hvetjum við alla sem eru á leið í krabbameinsmeðferð að fara í skoðun hjá tannlækni, svo sannanir séu til staðar fyrir SÍ ef að krabbameinsmeðferðin veldur tannskemmdum.