
2 minute read
Kröftug Strákastund: Frá körlum til karla. Bls
Kröftug Strákastund
Árlega halda strákarnir í Krafti Kröftuga Strákastund í tilefni af Mottumars. Markmið kvöldsins er að bjóða karlmönnum á öllum aldri sem einhverja tengingu hafa við krabbamein að koma saman meðal jafningja, hlusta á reynslubolta og deila eigin reynslu af krabbameini og áhrifum þess. Strákastundin hefur vakið mikla lukku meðal karla og góð mæting ber þess vitni.
Advertisement
Í ár var Kröftuga Strákastundin haldin þann 24. mars á Kex Hostel en Kexið hefur verið dyggur styrktaraðili Strákastundarinnar. Reynsluboltarnir Róbert Jóhannsson, Pétur Helgason og Arnar Sveinn Geirsson sögðu frá sínum reynsluheimi af krabbameini sem hefur haft áhrif á líf þeirra á mismunandi hátt. Í lok stundarinnar kom tónlistarmaðurinn Jónas Sig og tók nokkur lög og spjallaði um hvernig hann hefur notað textasmíð og tónlist til að yfirstíga erfiðleika í sínu lífi.
„Ekki bera byrðarnar einn“
Erfitt hefur reynst að fá karlmenn til að nýta þjónustu Krafts. Félagið hefur lengi reynt að finna nýjar leiðir til að hvetja karlmenn til að nýta sér þjónustu og stuðning sem félagið býður upp á. Við spurðum því nokkra af þeim körlum sem mættu á Kraftmiklu Strákastundina hvaða ráðleggingar þeir hafa til annarra karlmanna, og hvernig Kraftur getur eflt stuðning og þjónustu við þá. Viðmælendur höfðu góð ráð að gefa öðrum karlmönnum sem eru í svipuðum sporum.
Það er morgunljóst á þessum svörum hér til hliðar að karlar leitast ekki eftir einhverjum töfralausnum sem eiga sérstaklega við um kyn þeirra. Heldur undirstrika þeir það upp til hópa hversu mikilvægt það sé að gefa af sjálfum sér og öðrum leyfi til að tjá sig og tala um tilfinningarnar sem þeir upplifa varðandi krabbameinið.
Við hvetjum karlmenn á öllum aldri til að nýta sér þá þjónustu sem Kraftur, Ljósið og Krabbameinsfélag Íslands býður upp á. Það getur reynst ómetanleg hjálp í erfiðu ferli.