2 minute read

Kröftug Strákastund: Frá körlum til karla. Bls

Kröftug Strákastund

Árlega halda strákarnir í Krafti Kröftuga Strákastund í tilefni af Mottumars. Markmið kvöldsins er að bjóða karlmönnum á öllum aldri sem einhverja tengingu hafa við krabbamein að koma saman meðal jafningja, hlusta á reynslubolta og deila eigin reynslu af krabbameini og áhrifum þess. Strákastundin hefur vakið mikla lukku meðal karla og góð mæting ber þess vitni.

Advertisement

Í ár var Kröftuga Strákastundin haldin þann 24. mars á Kex Hostel en Kexið hefur verið dyggur styrktaraðili Strákastundarinnar. Reynsluboltarnir Róbert Jóhannsson, Pétur Helgason og Arnar Sveinn Geirsson sögðu frá sínum reynsluheimi af krabbameini sem hefur haft áhrif á líf þeirra á mismunandi hátt. Í lok stundarinnar kom tónlistarmaðurinn Jónas Sig og tók nokkur lög og spjallaði um hvernig hann hefur notað textasmíð og tónlist til að yfirstíga erfiðleika í sínu lífi.

„Ekki bera byrðarnar einn“

Erfitt hefur reynst að fá karlmenn til að nýta þjónustu Krafts. Félagið hefur lengi reynt að finna nýjar leiðir til að hvetja karlmenn til að nýta sér þjónustu og stuðning sem félagið býður upp á. Við spurðum því nokkra af þeim körlum sem mættu á Kraftmiklu Strákastundina hvaða ráðleggingar þeir hafa til annarra karlmanna, og hvernig Kraftur getur eflt stuðning og þjónustu við þá. Viðmælendur höfðu góð ráð að gefa öðrum karlmönnum sem eru í svipuðum sporum.

Það er morgunljóst á þessum svörum hér til hliðar að karlar leitast ekki eftir einhverjum töfralausnum sem eiga sérstaklega við um kyn þeirra. Heldur undirstrika þeir það upp til hópa hversu mikilvægt það sé að gefa af sjálfum sér og öðrum leyfi til að tjá sig og tala um tilfinningarnar sem þeir upplifa varðandi krabbameinið.

Við hvetjum karlmenn á öllum aldri til að nýta sér þá þjónustu sem Kraftur, Ljósið og Krabbameinsfélag Íslands býður upp á. Það getur reynst ómetanleg hjálp í erfiðu ferli.

Frá körlum til karla:

„Það gerir okkur karlmönnunum afar gott að hitta aðra karlmenn í sambærilegri stöðu, tala saman, hlusta á aðra, deila eigin reynslu og opna okkur.“ „Það er mikilvægt að heyra sögur annarra og heyra hvað aðrir upplifa.“ „Tjá tilfinningar og tala um málin.“

„Þú ert ekki einn í baráttunni, sæktu þér stuðning.“ „Jafningjastuðningur milli stráka reyndist mér strax vel og mun gera það áfram.“ „Komdu þér úr hellinum.“

„Nýttu þér allt sem er í boði til að styrkja sjálfan þig.“

„Get sjálfur ekki hugsað út í þetta “ferðalag” án stuðnings og jafningjaumhverfis. Það hefur gert svo mikið fyrir mig!“ „Það er svo hollt fyrir sálina að koma á Strákakvöld, fræðandi og skemmtilegt. Það hjálpar mjög mikið að fá skilning á þessu.“ „Því meiri þátttaka okkar karla, því meiri stuðningsnet er hægt að byggja og betra utanumhald er hægt að sækja í.“

„Ég hélt að ég þyrfti að vera sterkur fyrir alla í fjölskyldunni.“ „Ég er rétt að byrja að vinna úr áfallinu núna það munar öllu að leita sér hjálpar.“ „Koma sér af stað, ekkert kjaftæði! Prófaðu og taktu svo afstöðu.“

Kynntu þér StrákaKraft með því að taka mynd af QR kóðanum með snjallsíma

This article is from: