
2 minute read
Að eiga mömmu eða pabba með krabbamein. Bls
Krabbamein hefur áhrif á alla í fjölskyldunni. Börnin finna að það er eitthvað í gangi og við viljum hvetja foreldra til að tala við börnin sín um krabbamein. Ef börnin fá að taka þátt í ferlinu er hægt að styðja þau í því að skilja framvindu veikindanna á jákvæðan hátt.
Það er óhjákvæmilegt að veikindin hafi áhrif á börnin en þú getur haft áhrif á hvernig sú reynsla verður. Ef börnin finna að þau eru leynd mikilvægum hlutum þá eiga þau oft erfiðara með að treysta öðrum í framtíðinni, auk þess sem þeim finnst þau þá ekki vera hluti af fjölskyldueiningunni eða ekki skipta máli. Börn skynja spennu og áhyggjur foreldra og þau ímynda sér sjálf hluti ef þeim er ekki sagt frá og jafnvel að veikindin séu þeim að kenna.
Advertisement
Það er mjög eðlilegt að þú vitir ekki hvernig þú getur sagt börnunum frá krabbameininu. Hversu mikið þú átt að segja og hvernig þú getur útskýrt veikindin fyrir þeim. En við í Krafti ásamt öðrum getum hjálpað.
Að eiga mömmu eða pabba með krabbamein
Kraftur
Kraftur býður upp á jafningjastuðning þar sem þú getur hitt og talað við einhvern sem hefur upplifað svipað og þú ert að upplifa. Í jafningjastuðningi getur þú t.d. hitt aðra foreldra sem hafa verið í svipaðri stöðu og þau geta deilt sinni reynslu og hvernig þau töluðu við börnin sín. Jafningjastuðningurinn er bæði fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og fyrir aðstandendur.
Krabbameinsfélag Íslands
Hjá Krabbameinsfélaginu starfa sálfræðingar og geta foreldrar komið til þeirra með börnin sín og rætt um krabbameinið og tilfinningarnar sem því fylgir. Eins geta foreldrar einnig komið og fengið aðstoð um hvernig þau geta stutt börnin sín.
Landspítali
Hjá Landspítalanum starfa félagsráðgjafar, djáknar og prestar þar sem foreldrar geta fengið viðtal og fræðslu um hvernig er best að tala við börnin um veikindin. Einnig geta þau vísað áfram á þá sem veita slíka þjónustu.
Það er ekki hægt að panta tíma heldur senda læknar og hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum, og þá aðallega frá blóð- og krabbameinslækningadeildum, beiðni fyrir þeirra hönd.
Ljósið
Öllum aðstandendum gefst kostur á að koma í viðtal til fagaðila í Ljósinu. Hvort sem það er í formi einstaklingsviðtals eða ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum.
Ljósið heldur reglulega námskeið fyrir börn á aldrinum sex til þrettán ára. Námskeiðið er vikulega í tíu skipti í senn en þar geta börn sem eru aðstandendur krabbameinsgreindra hitt krakka sem einnig eiga foreldri, systkini, afa, ömmu eða annan náinn ástvin með krabbamein.
Aðstandendum á aldrinum 14-17 ára stendur einnig til boða sérsniðið námskeið þar sem lögð er áhersla á fræðslu, sjálfsstyrkingu og jafningjastuðning. Námskeiðin hafa verið í samstarfi við Kvan, Dale Carnegie og Út fyrir kassann.
Fyrir aðstandendur á aldrinum 17-20 ára er lögð áhersla á einstaklingsviðtöl hjá fagaðila.