
2 minute read
Hver perla hefur sína sögu. Bls
Frá 16. maí til 6. júní stóð Kraftur fyrir vitundar- og fjáröflunarátakinu – Hver perla hefur sína sögu. Átakið vakti mikla athygli og vorum við sýnileg víðsvegar í þjóðfélaginu.
Markmið átaksins var að selja ný Lífið er núna armbönd, fá fólk til að koma saman og sýna samstöðu með því að perla armbönd og sýna almenningi inn í reynsluheim félagsmanna Krafts og þeim áskorunum sem verða á vegi þeirra.
Advertisement
Hver perla hefur sína sögu
Sex sögur voru sagðar á vefnum www.lifidernuna.is og þeim dreift á samfélagsmiðlum og víðar. Sögurnar voru frá einstaklingum sem greinst hafa með krabbamein sem og aðstandendum; föður, syni, dóttur og maka. Fólk fékk þannig innsýn inn í heim félagsmanna okkar, þær áskoranir sem þeir standa oft frammi fyrir sem og hvaða þýðingu Lífið er núna armbandið hefur fyrir þá.
Sýndu Kraft í verki
Um 70 ungir einstaklingar greinast á ári hverju með krabbamein og hefur það bæði áhrif á þá greindu sem og fjölskyldu og ástvini þeirra. Hver perla hefur sína sögu var yfirskrift átaksins í ár og vísaði til lífsreynslu okkar félagsmanna og hvaða þýðingu „Lífið er núna“ armbandið hefur fyrir þá. Sem fyrr var slagorð Krafts „Lífið er núna“ í hávegum haft og hvöttum við fólk til að sýna Kraft í verki með því að perla með okkur armbönd eða kaupa þau. En með því að bera armbandið sýnir fólk stuðning sem það jafnvel áttar sig ekki alveg á en félagsmenn okkar finna ætíð fyrir meðbyr og stuðningi þegar þeir sjá aðra með armböndin,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.
Krabbamein snertir fjölmarga í þjóðfélaginu Hver perla skiptir máli

„Hver perla hefur sína sögu“ náði til fjölmargra á tímabilinu eða um 1.095 snertinga á Instagram og 26.078 á Facebook. Lífið er núna strætó keyrði um götur bæjarins og minnti vegfarendur á átakið og að njóta þess að vera í núinu en talið er að um 100.000 manns hafi séð strætisvagninn í umferðinni. Lífið er núna rúllustigi var settur upp í Smáralind en um 250.0000 manns lögðu leið sína í þangað á tímabilinu og rúlluðu upp stigann. Eins voru gólfmerkingar settar víðs vegar sem minntu fólk á armbandið.
Viðtöl við þátttakendur átaksins og starfsmenn Krafts voru í hinum ýmsu miðlum svo sem í útvarpi, vefmiðlum, sjónvarpi og dagblöðum. Það minnti fólk enn fremur á að leggja málefninu lið og sýndi hve brýn þörf er fyrir félag eins og Kraft. Kraftur perlaði víða um land svo sem í Reykjavík, á Akureyri og í Borgarnesi. Jafnframt voru fullt af velviljuðum fyrirtækjum og skólum sem perluðu með okkur af krafti. Með þeirra hjálp perluðum við um 7.000 armbönd og söfnuðust yfir 14 milljónir króna sem munu nýtast í þágu ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda.

Við þökkum öllum þeim sem sýndu Kraft í verki á einn eða annan hátt, með því að bera og kaupa armbandið, perla með okkur, með vinnuframlagi, fjárhagslegum styrkjum og fleiru. Þá þökkum við einnig fjölmiðlum og birtingaraðilum sérstaklega fyrir að aðstoða okkur með birtingar á auglýsingum, fréttum og viðtölum.
Með ykkar hjálp getum við hjálpað öðrum. Enn er hægt að lesa reynslusögurnar og kaupa armbönd inn á www.lifidernuna.is