RÁÐHERRA BÓNDINN- Þorsteinn Magnússon

Page 1

RÁÐHERRABÓNDINN


Um verkefnið: Þegar ég fékk verkefnið í hendurnar og fór að spá í hvað ég vildi gera, var það fyrsta sem mér datt í hug að nýta það hversu lítil þjóð okkar er og velja einhvern valdamikinn einstakling. Hann þyrfti að skera sig úr frá öðrum, t.d. bóndi og þá hvarlaði að mér að reyna að gera verkefnið um daglegt líf formans Framsóknarflokksins, Sigurðs Inga Jóhannssonar, sveita- og samgönguráðherra sem jafnframt er hestabóndi. Þetta var vissulega mjög metnaðafullt og ég var ekki voðalega bjartsýnn á köflum um að hann myndi nenna að einhver tvítugur ljósmyndari væri endalaust að elta hann um allt og mynda hann. Ég hoppaði líka af gleði þegar ég fékk þær fréttir að hann væri til í það. Þegar ég hitti hann fyrst var smá skjálfti í mér og það bætti ekki úr skák, þegar skjálfti uppá 5,7 skall á, en Sigurður Ingi var hins vegar sallarólegur yfir þessum skjálftum enda frá suðurlandi. Fyrsta takan var svo rétt fyrir ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum og Sigurður Ingi kynnti mig í hvert skipti sem nýr ráðherra kom inn og benti þeim jafnframt á að ég væri í Gettu betur, get ekki sagt að mér hafi leiðst að fá þessa athygli frá öllum helstu ráðamönnum landsins. Næst var farið á óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi. Svo fórum við í þingflokksherbergið í smá erindi, áður en farið var niður í ráðuneyti. Þar gerðist ekkert frásögufærandi nema að ég fékk að mynda fund sem mér fannst dálítið til marks um hversu hann treysti mér. Næsta dag var svo þingflokksfundur sem ég fékk að mynda allan og er fyrsti óflokksbundni aðilinn sem fær að vera heilan þingflokksfund, allavega hjá Framsókn. Síðan var förinni heitið á Alþingi aftur og þar átti hann að tala. Þarna var ég kominn með góðann grunn en ég vildi samt ólmur ná fleiri myndum. Ég var alveg á því að það væri frábært ef hann myndi vera í viðtali einhverstaðar. Þá datt ég lukkupottinn því ég myndaði hann í sinni frumraun í hlaðvarpi. Var þetta í fyrsta og eina skiptið sem ég þurfti að passa mig að opna ekki munninn, því ég vildi mikið vera með í umræðunni. Daginn eftir var förinni heitið til Grindavíkur að hitta


Björgunarsveitina Þorbjörn og skoða hvernig þeir væru að undirbúa sig fyrir gos, sem þá var ekki hafið. Var þetta síðasta skiptið sem ég myndaði hann í vinnunni með einni undantekningu, því ég myndaði hann einu sinni fyrir utan Ráðherrabústaðinn eftir ríkisstjórnarfund eftir að hafa beðið þar í rigningu í um 1 ½ tíma. Ég fór svo til hans í sveitina og var það mjög skemmtilegt að sjá hann sem óbreyttan borgara. Það fyrsta sem maður sér þegar maður gengur inn í stofuna hjá honum eru þrjár myndir frá opinberri heimsókn forsætisráðherra allra norðurlanda til Hvíta húsins árið 2016, sem var mjög skemmtilegt þar sem að við undirbúning verkefnisins, skoðaði ég mikið af myndum frá forsetatíð Obama. Við fórum svo fljótlega niður í hesthús ásamt hinum fjöruga hundi þeirra hjóna, honum Kjóa þar gaf Sigurður Ingi hestunum hey og mokaði skítinn frá þeim, á meðan gelti hundurinn á allt sem hægt var að gelta á, frá fimmtíu ára traktor til hestanna. Þegar aftur var komið í hús fór Sigurður Ingi að sykra pönnukökur sem verið var að gera og rúlla þær upp, þær voru mjög góðar. Enda áttu þau von á mikilvægum gesti, barnabarninu sínu ásamt foreldrum hennar. Þegar barnabarnið kom fór afinn að sýna henni lestateina en hún virtist oft hafa meiri áhuga á þessum ókunna einstakling með myndavélina. Sigurður Ingi er mikill Arsenal maður og þegar ég kom í heimsókn var Arsenal að spila og hann var nú ekki voðalega sáttur þegar ég sagði honum að hans menn voru tveim mörkum undir eftir korters leik. Síðan þegar ég fattaði það að ég var ekki búinn að taka nýjar myndir í þó nokkurn tíma, þá var mér það ljóst að nú væri kominn tími til að fara. Að lokum vil ég þakka samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu fyrir að opna þessa dyr og þá langar mig sérstaklega að taka tvo út fyrir sviga, Sigtrygg annan aðstoðarmann ráðherra og Sigurð Inga sjálfan fyrir að nenna þessu og rúmlega það. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og mjög gaman að læra og upplifa hvernig stjórnsýslan vinnur og virkar. Þorsteinn Magnússon














Sigurður Ingi Jóhannsson Sigurður Ingi er fæddur á Selfossi, bjó þar fyrstu sjö mánuði lífs síns, heima hjá ömmu og afa, síðan í Dalbæ í Hrunamannahreppi í þriðju kynslóða húsi. Hann varð bóndi í Dalbæ 1987-94. Hann er menntaður dýralæknir frá Konunglega dýralækna og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn. Ég vissi ekki hverju ég átti von á með hvernig manneskja hann er, en hann er mjög jarðbundinn einstaklingur, með góðan húmor

Þorsteinn Magnússon Ég er tvítugur útskriftanemi úr ljósmyndun. Ég er fæddur, uppalinn og búsettur í Reykjavík. Ég var í Gettu betur liði Tæknniskólans árið 2020 þar sem skólinn komst í fyrsta skipti í sögu skólans í sjónvarpshluta keppninar og var það endurtekið nú í ár. Ég hef æft skák síðan 2011 en ég hef teflt síðan að ég man eftir mér. Ég hef alltaf haft gaman að ljósmyndun en ég held að ég fattaði það ekki fyrr enn ég fékk mína fyrstu myndavél í 15 ára afmælisgjöf. Ég ætlaði ekki fyrst í ljósmyndun, því frá 7. bekk var ég ákveðinn að fara á tölvubraut en hætti síðan við og fór í ljósmyndun sem ég sé ekki eftir.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.