
1 minute read
Takk innilega fyrir stuðninginn
Kraftur er alfarið rekinn fyrir góðvild og velvilja fyrirtækja og einstaklinga í þjóð félaginu. Hjartans þakkir fyrir stuðninginn.
Án ykkar gætum við ekki hjálpað öðrum. Hér eru nokkrir af þeim styrkjum sem Kraftur hlaut á starfsárinu.
Advertisement
Seldu snúða og fleira fyrir Kraft
Skátafélagið Vífill seldi kanilsnúða og annan varning til styrktar Krafti í vor í sölubási í Garðabæ og á Álftanesi sem og með því að ganga í hús. Það var virkilega vel tekið í þetta framtak þeirra. Meira að segja forsetinn sjálfur kíkti við og keypti sér snúða í sunnudagskaffið. Alls söfnuðust 550.000 kr.
Torfærulið styrkti Kraft
Torfærulið Ingvars Jóhannessonar / Víkingurinn tók þátt í Ameríkukeppni íslenskrar torfæru í október. Auglýsingaflötur á toppi bílsins var seldur á uppboði og bolir seldir í ferðinni og rann allur ágóði óskiptur til Krafts. Ingvar afhenti Krafti 300.000 krónur sem var afrakstur söfnunarinnar.
Sýrlenskur styrktarkvöldverður
Þau Kinan, Talal og Zinab héldu sýrlenskan styrktarkvöldverð hjá Krafti. Borðin hreinlega svignuðu undan sýrlenskum veitingum og yfir 100 manns mættu í Skógarhlíðina og söfnuðust yfir 300.000 krónur.
Hlupu í drullu til styrktar Krafti

Hjónin Viktoría Jensdóttir, félagskona í Krafti, ásamt eiginmanni sínum Stuart Maxwell hlupu sannkallað drulluhlaup í Bretlandi og söfnuðu áheitum til styrktar Krafti í leiðinni. Þau söfnuðu alls 382.000 krónum og ákváðu að láta upphæðina renna í Minningarsjóð Krafts.
Kraftur