
2 minute read
Listin að deyja og að tala um dauðann
Það eina sem við vitum fyrir víst eftir að við fæðumst er að við munum einhvern tímann deyja. En flest okkar hræðumst við að tala um dauðann, sér í lagi þegar við vitum að hann nálgast. Þegar fólk greinist með lífsógnandi sjúkdóm þá er dauðinn oft nær þeim í huga en ella.
Kraftur heldur úti hlaðvarpinu „Fokk ég er með krabbamein“ þar sem talað er um allt sem viðkemur krabbameini á mannamáli. Í einum þættinum „Er dauðinn tabú?“ spjallar Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir, umsjónarmaður hlaðvarpsins, við Rósu
Advertisement
Kristjánsdóttur hjúkrunarfræðing og djákna á Landspítalanum um dauðann en hún hefur áralanga reynslu af sálgæslu og við eða í að styðja við fólk á erfiðum tímum í lífi þeirra.
Undirbúðu þig
Rósa segir það mikilvægt að undirbúa sig hvort sem maður er aðstandandi eða sá sem bíður dauðans. Það þarf að fara yfir erfðamál, hugsa um hvernig maður vill láta minnast sín, hvernig jarðarförin á að vera og fleira. Þessi umræða er þörf og að það hjálpi oft einnig eftirlifendum að kveðja ef að fólk hefur sjálft t.d. haft skoðun á hvernig það vilji hafa jarðarförina sína. Inn á vefsíðunni www.utfor.is er hægt að nálgast form sem heitir Hinsta ósk þar sem viðkomandi getur komið óskum sínum á framfæri um skipulag útfara þar sem vilji hans eyðir óvissu ástvina.
Verum opinská og hlý
„Barn sem glímir við vanda þarf hlýjan faðm, hlýtt hjarta og galopin eyru en munnurinn má gjarnan vera lítill“ eru orð Sigurðar Pálssonar sem var prestur í Hallgrímskirkju en þau eiga alveg eins við um fullorðna sem börn. Rósa segir mikilvægt að allir komi að borðinu og það þurfi að leyfa börnum líka að vera með og fá að kveðja en vissulega þurfi að taka tillit til aldurs þeirra og skilnings. Hjá djáknum, prestum, ýmsum ráðgjöfum og Sorgarmiðstöðinni sé meðal annars hægt að fá ýmis ráð og handleiðslu um hvernig best er að bera sig að. Það er hins vegar nauðsynlegt að loka ekki á minningar sem að næra okkur sem best. Það er alltaf sárt að missa einhvern en ef að við lokum ekki á tilfinningarnar mun okkur líða betur þegar líða tekur á og minnast með brosi þess sem fallinn er nú frá.
Heiðarleiki borgar sig
Rósa hvetur fólk til að eiga heiðarleg og opin samskipti við fólkið í kringum sig um lífslokin, hvort sem fólk glímir við alvarlega sjúkdóma eða ekki. Það að ræða dauðann geti vissulega verið erfitt en það borgar sig til frambúðar. Hún nefnir til að mynda dæmi um ung hjón þar sem ekkjan var afskaplega reið eftir andlát mannsins. Hún var aðallega reið út í hann því hann hafði aldrei viljað tala um dauðann við hana og leyft henni að tjá sig um hvað væri að taka við hjá henni. En Rósa segir að hann hafi sennilega ekki treyst sér í þá umræðu.
Við mælum eindregið með að þú hlustir á viðtalið í heild sinni á hlaðvarpi Krafts. Þú getur nálgast þáttinn með því að taka mynd af QR kóðanum með snjallsíma eða heimsækja vefinn okkar www.kraftur.org