2 minute read

Fallnir félagar

Kraftur heldur úti minningarsjóði sem hefur þann tilgang að aðstoða með útfarakostnað þegar félagsmaður Krafts fellur frá vegna krabbameins eða afleiðingum þess. Nánustu aðstandendur geta sótt um slíkan styrk í minningarsjóðinn til félagsins. Sjóðurinn hefur verið við lýði síðan árið 2019. Hann var stofnaður til að heiðra minningu fallins félaga

Bjarka Más Sigvaldasonar sem lést það ár og til að halda á lofti þeim gildum sem Bjarki stóð fyrir, sem voru að láta veikindin ekki stjórna lífi sínu, heldur lifa fyrri daginn í dag.

Advertisement

Hjá Krafti fást minningarkort sem eru falleg kort sem hægt er að senda í minningu látins félaga eða ástvinar til aðstandenda. Allur ágóði minningakorta Krafts renna í Minningarsjóðinn.

Að auki á Kraftur fallegan sorgarfána sem hægt er að óska eftir að sé settur upp við útför fallins félaga. Hægt er að hafa samband við skrifstofu félagsins og óska eftir því og mun félagið sjá um að koma fánanum á staðinn.

Þessa dagana erum við með í vinnslu minningarkort sem við sendum til ástvina þegar einn af okkar góðu félögum fellur frá. Þar viljum við votta ástvinum samúð okkar og í leiðinni minna þau á að hlúa að sjálfum sér og nýta alla þá aðstoð sem í boði er fyrir syrgjandi ástvini, hjá öflugum félagasamtökum sem einbeita sér að syrgjendum t.a.m. Ljónshjarta og Sorgarmiðstöð svo einhver séu nefnd. Að auki erum við í Krafti ætíð til staðar fyrir þá.

Að vita hvað maður á að segja þegar einhver nákominn manni fær krabbamein getur verið vandasamt.

Við spurðum félagsmenn okkar að því hvað af því sem fólk hafi sagt í ferlinu sem hefði farið í taugarnar á þeim og hvað þau hefðu í raun viljað heyra frekar.

Setningar á borð við „þetta er nú bara hár“, að halla undir flatt og segja með aumkunnartóni „hvernig hefur þú það“ og „láttu mig vita ef það er eitthvað sem ég get gert“ eru dæmi um algeng viðbrögð fólks. Sem eru auðvitað eðlileg, því sem betur fer erum við ekki með mikla reynslu af því að ástvinir okkar fái krabbamein.

Eðli málsins samkvæmt þá er þetta persónubundið og því þarf að vega og meta í hvert sinn.

En hvað á maður þá að segja og gera?

Til dæmis varðandi það að missa hárið ætti kannski ekki að tala um hvað maður er sætur með skalla eða að þetta sé nú bara hár sem vex aftur. Þá væri kannski betra að segja „ég skil að þér þykir erfitt að missa hárið og sért í óvissu um hvernig hár komi til baka eða spyrja hreinlega hvernig líður þér með að missa hárið?“ Hár er mikið karaktereinkenni hjá mörgum og því stór partur af persónunni sem fer og því mikilvægt að sýna fólki nærgætni og skilning hvað það varðar.

Matarlyst getur verið af skornum skammti og stundum í ferlinu er bara stór sigur að geta komið einhverju niður hvort sem það er heilt gosglas eða súkkulaðistykki. Það er því ekki góð hugmynd að vera endilega að gagnrýna það sem viðkomandi er að borða í hvert sinn, kannski er þetta bara það eina sem kom til greina.

This article is from: