
1 minute read
Vissir þú að Kraftur styður fjárhagslega við félagsmenn?
Að greinast með krabbamein setur oft strik í fjárhaginn, það vitum við hjá Krafti.
Eitt mikilvægasta samstarf Krafts er við Apótekar ann í sambandi við lyfjakortið. Lyfjakostnaður getur verið umtalsverður hjá þeim sem greinast með krabbamein. Það er því okkur afar mikilvægt að geta boðið félagsmönnum okkar upp á lyfjakortið þar sem Apótekarinn kostar lyf vegna krabbameinsgreiningar og aðrar tengdar vörur.
Advertisement
Í vor gerðum við nýjan samning sem var með nokkrum breytingum frá fyrri samning. Lyfjakortin gilda nú til sex mánaða í stað tveggja eins og áður. Ákveðnir lyfjaflokkar eru undanskildir samningnum og má finna upplýsingar um þá á www.kraftur.org.
Einnig er sú breyting í nýjum samningi að veittur er styrkur fyrir ódýrasta samheitalyfið hverju sinni. Ef viðkomandi vill ekki þiggja ódýrara samheitalyfið má nýta styrkinn til að fá frumheitalyfið en viðkomandi greiðir mismuninn. Einnig geta félagsmenn óskað eftir því hjá sínum lækni að fá frumheitalyfið skráð á lyfjaskírteinið.
Lyfjastyrkur þessi er mikil búbót fyrir okkar félagsmenn og erum við afar stolt af því að geta boðið félagsmönnum okkar upp á þennan góða styrk.
Aðrir fjárhagslegir styrkir sem standa félagsmönnum til boða eru:
Styrktarsjóður Krafts:
Styrktarsjóði Krafts er ætlað að styrkja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og lent hefur í fjárhagslegum erfiðleikum vegna veikinda sinna. Sjóðnum er ætlað að standa straum af kostnaði sem fellur utan greiðsluþátttöku sem og öðrum tekjumissi sem getur hlotist vegna veikinda viðkomandi. Veitt er úr sjóðnum tvisvar á ári.
Styrkur til útfarar:
Tilgangur sjóðsins er að styrkja aðstandendur til að standa straum af útfararkostnaði þegar félagsmaður Krafts fellur frá vegna krabbameins eða afleiðingum þess. Útfararkostnaður er oft mjög mikill og bætist við þann kostnað sem þegar hefur verið greiddur vegna undanfarinna veikinda hins látna.
Félagskort Krafts:
Félagskortið veitir tilboð og afslátt hjá fjölbreyttum hópi samstarfsaðila Krafts. Við leggjum metnað við að finna sem fjölbreyttasta hóp samstarfsaðila sem veita góða afslætti fyrir okkar félagsmenn. Í ár hefur fjöldinn allur af nýjum samstarfsaðilum bæst í hópinn. Sjá má allt um félagskortið inn á vefsíðu Krafts.