3 minute read

Helsta

Skorunin A Halda S Rh Finguna Sameina Ri Deild

Signý Vala Sveinsdóttir, yfirlæknir blóðlækninga á Landspítalanum, segir mikilvægt að halda í sérhæfingu hjúkrunarfræðinga og annars starfsfólks á legudeild blóð- og krabbameinslækninga, 11EG. Legudeild blóðlækninga, 11G, og legudeild krabbameinslækninga, 11E, voru sameinaðar í lok árs 2019, rétt áður en Signý

Advertisement

Vala tók við sem yfirlæknir.

Agnes Smáradóttir er yfirlæknir lyflækninga krabbameina.

Það var því nýbúið að sameina legudeildirnar þegar Covid-faraldurinn skall á sem Signý Vala segir að hafi gert sameiningu deildanna erfiðari en ella.

„Það verður að segjast að þetta var krefjandi tími þegar það var ákveðið að sameina og eins og er alltaf með svona stórar breytingar þá geta þær valdið ákveðnum óróleika. Þetta var þó nokkuð ferli, ekki bara starfsfólksins vegna heldur var ráðist í ýmsar breytingar og umbætur á deildinni. Síðan skellur Covid á þarna rétt eftir upphaf sameiningarinnar þannig að þessi félagslegi þáttur sem þurfti svo mikið að passa upp á og styðja við í kjölfarið, var mun erfiðari en ella. En með mikilli samstöðu allra og frábærum deildarstjóra, Rögnu Gústafsdóttur, var allt kapp lagt í að sjá til þess að þjónustan við sjúklingana yrði ekkert öðruvísi og mikil áhersla lögð á að auka gæði hennar og tryggja sem best öryggi okkar skjólstæðinga. En því er ekki að neita að Covid seinkaði ferlinu að þó nokkru leyti,“ segir Signý Vala.

Ýmsar ástæður voru fyrir því að sameina annars vegar krabbameinsdeildina og hins vegar blóðlækningadeildina, meðal annars hagræðing en fyrst og fremst að útbúa eina öfluga legudeild sem sinnir sjúklingum með illkynja sjúkdóma. Þrátt fyrir að um ólíkar sérgreinar í læknisfræðinni sé að ræða þá eiga þær margt sameiginlegt.

Krabbameinsteymið og blóðteymið

Signý Vala útskýrir að blóðmegin á deildinni, vængnum sem kallast 11G, séu blóðkrabbameinin; hvítblæði, bráðahvítblæði, eitlakrabbamein og mergæxli en líka góðkynja sjúkdómar í blóði og/ eða beinmerg sem þarfnast sérhæfðra rannsókna og/eða meðferðar. Krabbameinsmegin, á væng 11E, eru síðan öll önnur krabbamein en engir góðkynja sjúkdómar.

Aðspurð segir Signý Vala að enn sé ýmislegt sem þarfnist frekari vinnu tengt sameiningunni en, eins og alls staðar annars staðar á sjúkrahúsinu, sé stöðug umbóta- og gæðavinna í gangi. Þá sé gríðarlega mikilvægt að þróa og halda í sérhæfingu starfsfólks. Sérhæfingin geti að mörgu leyti verið ólík milli þessara tveggja sérgreina, ekki bara hvað varði læknisfræðina heldur einnig hjúkrunina. Þannig starfi tvö teymi á deildinni, krabbameinsteymið og blóðteymið.

„Við erum til dæmis hérna blóðmegin meira að gefa krabbameinslyfjameðferðir sem gera sjúklinga afar veika um tíma með ýmsum fylgikvillum eins og alvarlegum sýkingum og blóðhlutagjöfum. Þá eru veittar háskammtameðferðir með stofnfrumuígræðslu sem er afar sérhæf meðferð og hjúkrunin eftir því. Krabbameinsmegin er minna um krabbameinslyfjagjafir, þótt það sé auðvitað stundum, en til dæmis sérhæfð verkjameðferð, sýkingar, og önnur vandamál beint tengd æxlum. Hugsunin að þetta sé ein stór deild þar sem hjúkrunarfræðingar vinna á báðum teymum deildarinnar getur haft bæði kosti og galla. Á deild sem þessari er gott tækifæri til að fá mikla og breiða reynslu en eins og ég hef áður sagt, samt mikilvægt að viðhalda þessari sérhæfingu. Hins vegar hefur sameining deildarinnar hjálpað við að innleiða breytingar á ýmsu verklagi, til dæmis aukið lyfjaöryggi með tilkomu lokaðs lyfjaferlis. Núna eru komin rúm þrjú ár og sökum þessarar ólíku nálgunar er og verður alltaf þessi grunnskipting deildarinnar, það eru tvö teymi, 11E-hlutinn og 11G. Það er þó oft einhver skörun,” segir Signý Vala.

Mönnun takmarkandi þáttur í starfseminni

Töluvert hefur verið rætt og ritað um bága aðstöðu á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga, 11B og 11C, eins og raunar má lesa um á öðrum stað hér í Kraftsblaðinu.

Deildin er löngu sprungin og er ekki gert ráð fyrir nýrri aðstöðu fyrir deildina í meðferðarkjarna nýja Landspítalans. Aðspurð um aðstöðuna á legudeildinni segir Signý Vala hana verða fljótt of litla með fyrrnefndri fjölgun krabbameinssjúklinga á næstu árum. Það kemur fyrir að blóð- og krabbameinssjúklingar liggi inni á öðrum deildum spítalans því ekki sé pláss fyrir þá á 11EG.

„Það þykir okkur afar erfitt því við viljum jú hafa okkar skjólstæðinga hjá okkur,“ segir Signý Vala og heldur áfram:

„Deildin er með 28-30 rúm opin en við vildum gjarnan geta haft allt að 34 pláss. Hins vegar er ekki nóg að vera með sjálf rúmin því það þarf að vera mönnun starfsfólks til að sinna sjúklingunum. Því miður er það svo að heilbrigðisstarfsfólk hefur verið einn af takmarkandi þáttum starfseminnar, eins og svo sem víða í heiminum í dag. Eins og oft hefur komið fram, fer einstaklingum með krabbamein fjölgandi, bæði er þjóðin að eldast og meðferðarúrræðin betri þannig að fólk lifir lengur með hina ýmsu illkynja sjúkdóma. Það er því ljóst að deildin verður of lítil og vonandi verður gert ráð fyrir því á nýjum Landspítala.“

Signý Vala segir að starfsfólk 11EG finni mjög vel fyrir því hvað sjúklingum sé að fjölga mikið.

„Þannig eru alltaf einhverjir sjúklingar á bráðamóttökunni, á bráðalyflækningadeildinni eða á öðrum deildum því við erum ekki með pláss hérna. Þá ber að hafa í huga að starfsemin hefur breyst mikið síðastliðin 15-20 ár. Í dag erum við að gefa mun fleiri krabbameinslyfjameðferðir á dagdeild sem kannski áður þurfti að gefa inni á legudeild. Þá þurfa sjúklingar yfirleitt ekki að leggjast inn til að fá blóðhluta heldur eru þeir gefnir sem allra mest á dagdeildum. Við reynum að sinna sjúklingunum sem mest í gegnum dag- og göngudeildina svo þeir geti verið sem allra mest heima. Sjúklingar sem leggjast inn eru því oft mjög veikir einstaklingar eða eru að fá sérstaklega sérhæfða meðferð sem er ekki hægt að gefa á dagdeildinni,“ segir Signý Vala.

This article is from: