3 minute read

Fyrir hvern setur þú upp kolluna?

Dagana 25. janúar til 20. febrúar stóð Kraftur fyrir fjáröflunar- og árvekniátakinu — Fyrir hvern setur þú upp kolluna. Markmið átaksins var að selja nýjar „Lífið er núna“ húfur og vekja athygli á þeim áskorunum sem verða á vegi þeirra sem greinast með krabbamein sem og aðstandendum og hvernig Kraftur getur stutt við þá.

Viðtöl voru tekin við einstaklinga sem hafa greinst með krabbamein eða eru aðstandendur og var reynslu þeirra gerð skil í tíu frásögnum sem voru birtar á vefnum www.lifidernuna.is og þeim dreift á samfélagsmiðlum og víðar. Viðtölunum var einnig skeytt saman í fallega sjónvarpsauglýsingu sem sýndi þeirra reynslu og hvernig Kraftur hefur aðstoðað þá.

Advertisement

Kolluna upp fyrir ….

Um 70 ungir einstaklingar greinast á ári hverju með krabbamein og hefur það vissulega áhrif á bæði þá sem greinast sem og fjölskyldur þeirra og aðra ástvini. Kraftur er til staðar fyrir þá. Fólk var hvatt til að setja upp kolluna þ.e. húfuna fyrir einhvern ákveðinn eða hreinlega fyrir Kraft. „Heitið - Fyrir hvern setur þú upp kolluna vísaði til þess að oft á tíðum missir fólk hárið í krabbameinsmeðferð og sumir velja að setja upp hárkollu. Við hvöttum fólk til að sýna samstöðu með því að setja upp „Lífið er núna“ kolluna sem er líka annað heiti yfir húfu og vekja þannig athygli á málefnum ungs fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda,“ sagði Þórunn Hilda Jónasdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Krafts.

Vöktum athygli víðsvegar

Átakið hófst svo sannarlega af krafti þar sem Sóli Hólm mætti í Gísla Martein og kynnti til leiks „Lífið er núna“ húfuna og árvekniátakið. Fjölmiðlar tóku vel við sér og birtu auglýsingar víðsvegar og viðtöl voru tekin við þá sem deildu sinni reynslu í átakinu. Auglýsingar voru birtar í sjónvarpi, kvikmyndahúsum, útvarpi, tímaritum, blöðum, vefsíðum, strætóskýlum, auglýsingaskiltum og að sjálfsögðu á hinum ýmsu samfélgasmiðlum. Svo sannarlega má segja að Kraftur hafi látið appelsínugula ljós sitt skína í janúar og febrúar en það voru í kringum 60.000 snertingar bæði á Facebook og Instagram, um 23.000 heimsóttu vefina www.kraftur.org og www.lifidernuna.is. Kraftur lét til sín taka á Tiktok og talið að rúmlega 600.000 vegfarendur hafi séð umhverfisauglýsingarnar svo eitthvað sé nefnt.

Appelsínugulir og svartir kollar um land allt Húfurnar voru til sölu í vefverslun Krafts sem og í helstu Krónuverslunum, Hagkaupum, Karakter og Company’s. Auk þess tóku starfsmenn Krafts sig til og voru með kynningar á Krafti og sölu á húfunum í Smáralind og Kringlunni einn laugardag á tímabilinu. Yfir sex þúsund húfur seldust á tímabilinu og er virkilega ánægjulegt að sjá húfuna á kollum landsmanna hvar sem er í þjóðfélaginu hvort sem er á götum úti eða á samfélagsmiðlum.

„Lífið er núna“ styrktartónleikar

Samhliða átakinu skellti Kraftur sér hringinn í kringum landið og hélt styrktartónleika með flottu tónlistarfólki. „Tilgangur ferðalagsins var að minna fólk á að „Lífið er núna“ og muna að njóta líðandi stundar en einnig til að minna fólk á starfsemi Krafts og þá þjónustu sem félagið býður sínum félagsmönnum,“ sagði Þórunn. Tónleikar voru haldnir á Höfn, Neskaupstað, Akureyri, Reykjanesbæ og hringferðinni lauk svo á sjálfum baráttudegi gegn krabbameini, þann 4. febrúar, í Iðnó í Reykjavík.

„Lífið er núna“ dagurinn

Kraftur hélt í fyrsta sinn upp á „Lífið er núna“ daginn fimmtudaginn 9. febrúar og hvatti þá landsmenn alla til að skarta einhverju appelsínugulu, staldra við og njóta líðandi stundar með fólkinu í kringum sig. Fyrirtæki, skólar, félagasamtök, vinir og vandamenn voru öll hvött til að taka höndum saman og njóta dagsins til hins ýtrasta. Fjölmargir tóku þátt í deginum og er ljóst að hann er svo sannarlega kominn til að vera og verður haldinn næst fimmtudaginn 8. febrúar 2024.

Við viljum nýta tækifærið og þakka öllum þeim sem tóku þátt í átakinu okkar á einn eða annan hátt. Með ykkar hjálp getum við hjálpað öðrum.

Kynntu þér málið nánar með því að taka mynd af QR kóðanum með snjallsíma.

Kraftur

Ilmkerti

Falleg kerti sem fást í fjórum ilmum; Basil & Grape, Epla & Kanil, Lavender & Vanillu og Sandalwood & Myrra. Kertið kemur í öskju og er með loki. Kertið er umhverfisvænt og náttúrulegt soja kerti, brennslutími er 55 klst.

Húfur

Fallegar húfur sem koma í einni stærð, henta bæði fullorðnum og börnum. Hægt að nota bæði með uppábroti og án en alltaf sést „Lífið er núna“ á ísaumuðum miða. Fáanlegar í svörtu og appelsínugulu.

This article is from: