12 minute read

Reykjanes

Á Reykjanesi er tilvalið fyrir fjölskylduna að njóta útivistar og afþreyingar enda er þar fjölmargt í boði. Inn á milli leynast faldar perlur sem margir eiga eftir að uppgötva. Hér höfum við tekið saman lista yfir það markverðasta fyrir barnafjölskyldur og fólk á öllum aldri sem nýtur útivistar og menningar eða er að leita eftir dægradvöl.

Sundferð

Öll góð ferðalög enda á sundferð. Á Reykjanesi má finna sundlaug í hæsta gæðaflokki í hverju einasta sveitarfélagi. Innilaugin í Reykjanesbæ er einstaklega hentug fyrir yngstu börnin en allar hafa laugarnar ákveðin sérkenni og sjarma.

Fjöruferð

Reykjanes á nóg af fjörum sem auðvelt er að sækja. Hvíti sandurinn á Garðskaga, svarti sandurinn í Sandvík eða magnað landslagið við Kleifarvatn þar sem tilvalið er að busla og njóta náttúru á góðviðrisdegi.

Skógarferð

Já, það er hægt að fara í skógarferð á Reykjanesi. Sólbrekkur er tilvalið svæði fyrir fjölskyldur að heimsækja. Skógi vaxið svæði þar sem leiktæki eru til staðar, auk þess sem þar er hægt að grilla. Þar eru góðir göngustígar og tilvalið að hjóla, hlaupa eða ganga meðfram Seltjörn.

Háibjalli við Snorrastaðartjarnir er afar fallegur trjálundur í skjóli kletta þar sem einnig er hægt að grilla og njóta. Þar sem er mikið fuglalíf. Þaðan er einnig hægt að ganga eftir Hrafnagjá sem er gróðurmikil sprungugjá.

Selskógur er eitt af útivistarsvæðum Grindvíkinga og liggur við rætur Þorbjörns. Þar eru gönguleiðir og glæsilegt nestishús. Svo er stutt í Bláa Lónið.

Gönguleiðir

Gönguleiðir eru um gjörvalt Reykjanes og margar þeirra eru einstaklega aðgengilegar og hentugar fyrir börn. Nægir þar að nefna Eldborg við Geitahlíð en hægt er að ganga upp að StóruEldborg, sem margir telja fegursta gíg Suðvesturlands, og þaðan niður í LitluEldborg þar sem hægt er að sjá ofan í gíginn.

Stampar eru mjög aðgengilegir fyrir fríska fætur. Þaðan er magnað útsýni yfir Sandvík, úfið hraunið og Reykjanestá.

Staðarborg er ótrúlegt hlaðið hringlaga mannvirki sem er staðsett 2–3 km frá Kálfatjarnarkirkju.

Brú milli heimsálfa er einstök á heimsvísu enda staðsett á plötuskilum Evrópu og Ameríku.

Selatangar hafa að geyma verðbúðarrústir og stórbrotið umhverfi.

Safna- og menningarferð Reykjanes hefur að geyma fjölmörg söfn þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Má þar nefna: Skessuna í hellinum, Rokksafn Íslands, Víkingasafnið, Duus hús, byggðasafnið á Garðskaga, Þekkingarsetrið í Sandgerði og Saltfisksetrið í Grindavík. Glæsileg bókasöfn eru einnig á Reykjanesi þar sem gaman er að grúska í bókum og leika.

Golfferð

Á Reykjanesi eru þrír afbragðsgóðir 18 holu golfvellir og tveir 9 holu vellir. Tilvalið er fyrir fjölskylduna að spila golf saman með sjávarútsýni á hverjum velli. Vellirnir eru: Hólmsvöllur Leiru, Húsatóftavöllur í Grindavík, Kirkjubólsvöllur Sandgerði og Kálfatjarnarvöllur í Vogum (vantar ekki einn?).

Hellaferð

Ævintýraferð um hellinn Leiðarenda er tilvalin fyrir alla fjölskylduna. Að lokinni göngu er svo tilvalið að skella sér í kakóbolla hjá norðurljósamiðstöðinni Aurora Basecamp og skoða umhverfið við Kleifarvatn og Seltún.

Hjólaferð

Hvergi er betra að hjóla en á Reykjanesi þar sem útsýni er með eindæmum gott og lítið um brekkur. Eins er einstök upplifun að skella sér á fjórhjól frá Grindavík með börnum eldri en sex ára. Þar er einnig hægt að leigja reiðhjól fyrir fjölskylduna.

Bíltúr um Krýsuvíkurleiðina

Auðvelt er að keyra um gjörvalt Reykjanesið á einum degi með nokkrum góðum stoppum. Staðir sem óhætt er að mæla með til þess að bregða sér út, njóta náttúru, borða nesti og smella af mynd eru til dæmis: Seltún og Kleifarvatn, Brimketill, Reykjanesviti, Gunnuhver, Hvalsneskirkja, Garðskagaviti og Brú milli heimsálfa.

Fjallganga

Á Reykjanesi eru fjölmargir tindar sem hæfa reynslulitlu fjallgöngufólki. Þorbjörn við Grindavík er afar hentugur fyrir fjölskylduna alla. Þar er stórbrotin Þjófagjá sem allir ættu að skoða. Auk þess er útsýnið magnað og stutt í Selskóg og Bláa Lónið.

Fleiri hugmyndir:

Ljósmyndaferð - Reykjanesið er fullt af stöðum þar sem ljósmyndarar geta notið sín. Lautarferð - Fjölmargir ofantaldir staðir eru hentugir til lautarferðar.

Rétt austan við Reykjanesvita er mikið jarðhitasvæði, eitt af mörgum á Reykjanesi. Gunnuhver er þekktasti hverinn þar. Mynd: Þráinn Kolbeinsson

Vitaferð - Alls eru 13 vitar á Reykjanesi sem gaman er að heimsækja. Berjamó - Víða má finna góð berjalyng á Reykjanesi í stórbrotinni náttúru. Rólóferð - Leikvellir eru í hverju sveitafélagi. Tilvalið að kíkja í bakarí að leik loknum. Sigling - Hægt er að bregða sér í siglingu frá Vogum þar sem hægt er að veiða og skoða hvali og náttúru. Kayak - Frá Vatnsleysuströnd er hægt að bregða sér á sjókajak. Frábær upplifun fyrir alla fjölskylduna. Veiðiferð - Hægt er að dorga á öllum bryggjum á svæðinu. Hægt er að veiða í Djúpavatni, Kleifarvatni og hornsíli má finna í Seltjörn og Snorrastaðartjörn.

Reynsluakstur

Tesla Model 3

Bandaríska fyrirtækið Tesla Motors var stofnað árið 2003 með áherslu á þróun rafbíla og annarra umhverfisvænna orkulausna. Tesla Roadster var fyrsti fjöldaframleiddi rafbíllinn frá fyrirtækinu og kom hann á markað árið 2008. Um var að ræða tveggja sæta sportbíl sem var um margt merkilegur þar sem hann var fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn með litíum rafhlöður og einnig fyrsti rafmagnsbíllinn til að hafa yfir 300 km drægni á einni hleðslu. Athugið að þetta var að gerast árið 2008, tveimur árum áður en Nissan Leaf kom á markað með 117 km drægni. Einungis 2450 Roadster bifreiðar voru seldar á þeim fjórum árum sem bíllinn var í framleiðslu en henni var hætt 2012. Sama ár kom Model S á markað og fékk hann mikla athygli, þá einna helst fyrir drægni og hröðun. Bíllinn var þó heldur dýr fyrir hinn almenna neytanda og því ríkti mikil eftirvænting þegar Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, kynnti til sögunnar Model 3 sem átti að bjóða allt það besta frá Tesla á viðráðanlegu verði. Um mitt ár 2017 fóru fyrstu bílarnir í afhendingu í Bandaríkjunum og tæpu einu og hálfu ári síðar voru fyrstu bílarnir afhentir í Evrópu.

Haustið 2019 opnaði loks Tesla útibú hér á landi og ekki létu viðbrögðin standa á sér. Þrátt fyrir langan biðtíma eftir afhendingu voru allir bílar seldir í fyrstu sendingu sem kom til landsins 6 mánuðum síðar en það voru um 300 eintök af Tesla 3.

Að því sögðu ríkti mikil eftirvænting hjá undirrituðum þegar komið var að reynsluakstri enda var löngu kominn tími á að kynnast því yfir hverju menn voru svo spenntir.

Model 3 kemur í þremur útgáfum. Fyrst er það „Standard Range“ sem hefur drægni upp á rúmlega 300 kílómetra en þessi útgáfa er sú eina sem kemur eingöngu með drifi á afturöxli. Næst er „Long Range“ sem er með drifi á öllum hjólum og drægni í allt að 560 kílómetra. Að lokum er það dýrasta útgáfan „Performance“ en eins og nafnið gefur til kynna er sá bíll með aukna hröðun, betri bremsur og fjöðrun en þessar breytingar eru gerðar á kostnað drægninar sem fer niður í 530 kílómetra.

Reynsluaksturbíllinn var „Long Range“ útgáfan og var hún án allra frekari aukahluta. Aðgangskortið (lykillinn) að bílnum er eins og greiðslukort. Til að opna bíllin þarf að bera það upp að hurðastafnum og síðan er það lagt á milli framsætanna svo hægt sé að ræsa bílinn. Þetta kort er í raun aukalykill að bílnum því að eigendur geta notað símann til að framkvæma þessar aðgerðir án þess að þurfa að taka hann úr vasanum.

Að utan

Model 3 er fremur einfaldur í útliti og ekki verið að skreyta hann að óþörfum. Mikil vinna hefur verið lögð í að draga úr allri loftmótstöðu og fyrirstöðum sem geta valdið hávaða í akstri. Bílarnir eru í boði með fimm litum og var viðkomandi bíll fallega perluhvítur. Þakið er úr gleri og svart á öllum útgáfum. Innfeldir hurðahúnar vöndust furðuvel en það verður ekki hjá því komist að athöfnin verði klunnaleg við fyrstu opnun. Reynsluakstursbíllinn er afhentur á fremur óspennandi 18 tommu felgum og plast hjólkoppum. En þegar betur er að gáð þá gegna þessir koppar ákveðnu hlutverki við að draga úr vindmótstöðu og auka drægni. Lítið mál er að kippa þeim af og þá koma í ljós steingráar tíu arma felgur sem fara bílnum einstaklega vel.

Það verður ekki litið fram hjá þeim umræðum sem hafa loðað við Tesla bílaframleiðandann varðandi gæðavandamál í samsetningu og þá sérstaklega í Model 3. Litamismunur

Model 3 er fremur einfaldur í útliti og ekki verið að skreyta hann að óþörfum.

og frávik í samsetningu virðast hrjá bílaframleiðandann og var því sérstaklega litið til þessara hluta á viðkomandi reynsluakstursbíl. Í stuttu máli stóðst bíllinn alla skoðun hvað varðar gæði og frágang.

Að innan

Innréttingunni verður best lýst sem einfaldri og lágstemmdri. Ljóst viðarlíki liggur þvert yfir mælaborðið en á því miðju er áfastur fimmtán tommu snertiskjár þar sem allar stillingar bílsins eru framkvæmdar. Stór og djúpur stokkur er á milli framsætanna með miklu geymsluplássi. Plássið í aftursætunum er þokkalegt og ágætlega fer um tvo fullorðna en sá þriðji myndi ekki njóta sýn vel. Mögulega er það stærðin á rafhlöðunni sem veldur því að gólfið er fremur hátt og minnkar það fótaplássið. Stórt og mikið glerþak gefur góða tilfinningu og stækkar rýmið. En með svo stórum og hörðum fleti koma vandamál sem snúa að hljóðvist því að óvenju mikið bergmál er í farþegarými og var það sérstaklega áberandi þegar ökumaður var einn í bílnum og var til dæmis að notast við handfrjálsan búnað. Möguleg lausn á þessu máli er að setja upp net sem er fáanlegt sem aukabúnaður og skermir af glugga. Þá hafa hönnuðir tekið einfaldleikann einu númeri of langt með því að fjarlægja handföng í lofti fyrir farþega. Hiti er í öllum fimm sætum í bílnum og eru framsætin þægileg með fjölbreyttum stillingum. Það kom á óvart að enginn hiti er í stýri eins og er orðinn staðalbúnaður í mörgum nýjum bílum í dag og þá sérstaklega rafmagnsbílum. Því er eykst þörfin fyrir akstur í hönskum á köldum dögum en það skarast á við snertiskjá bílsins sem virkar ekki nema hanskarnir séu sérstaklega gerðir fyrir slíka notkun.

Engar sjáanlegar miðstöðvarristar eru í mælaborði og kemur blástur eftir því endilöngu og virkar þetta ágætlega þar sem hægt er að stilla stefnu og kraft á einfaldan hátt úr tölvu bílsins.

Skottið er ágætlega stórt og varð enn rýmra þegar lúga í botninum var opnuð og er það því samtals um 425 lítrar. Það gæti valdið smá ergelsi fyrir suma að hlerinn yfir auka rýminu helst ekki opinn. Að framan er einnig smá geymslupláss sem dugir ágætlega fyrir íþróttatösku eða innkaupapoka.

Stjórntæki

Vegna þess hversu frábrugðinn Tesla er í raun frá öðrum bílum á markaðnum þykir ástæða til að fara sérstaklega vel yfir stjórntæki bílsins. Tesla er í raun eins og stór tölva þar sem allar stýringar fara í gegnum einn snertiskjá. Notendaviðmótið og gæðin í skjánum og tölvunni á bakvið hann gerir gríðarlega mikið fyrir alla upplifun af akstri og umgengni við bílinn.

Ljóst viðarlíki liggur þvert yfir mælaborðið en á því miðju er áfastur fimmtán tommu snertiskjár þar sem allar stillingar bílsins eru framkvæmdar.

Bíllinn er nettengdur og fylgir tenging frítt fyrsta árið með öllum nýjum bílum. Þannig er hægt að tengjast beint inn á netvafra, nota streymisveitur eins og Spotify og Netflix (jafnvel þegar bíllinn er ekki í akstri).

Þrátt fyrir það krefjandi verkefni að setja allar stýringar í eitt viðmót hefur Tesla tekist það sérlega vel. Ökumaður var fljótur að átta sig á öllum helstu aðgerðum og brást skjárinn, sem er úr gleri, hratt við öllum snertingum. Í stýrinu voru síðan skrunhjól á hvorri hlið fyrir sig sem voru virkjuð fyrir ákveðnar skipanir í gegnum snertiskjáinn.

Stefnuljósasveifin er enn á sínum stað ásamt rofa fyrir rúðuþurrkur en frekari stýring fyrir þær, eins og hraði, fór um snertiskjáinn góða. Hægri sveifin sá síðan um að skipta um „gír“.

Akstur

Því verður ekki leynt að Model 3 er einstaklega þægilegur akstursbíll. Fjöðrun er þétt án aukahljóða en ójöfnur voru aftur á móti full

greinilegar og mætti mögulega skrifa það á dekkin. Vindgnauður er í lágmarki en veghljóð var í meira lagi en búist var við og vil ég einnig kenna dekkjunum um þann þátt þar sem þau breið og stíf ásamt því að bergmál í farþegarými gæti einnig virkað sem magnari.

Hröðunin í bílnum er langt umfram það sem maður má venjast úr fjöldaframleiddum bílum en „Long Range“ útgáfan er 4,6 sekúndur í hundraðið og er þetta ekki öflugasta útgáfan.

Í reynsluakstrinum var ekið austur fyrir fjall og gafst gott tækifæri til að prófa sjálfstýringuna. Undirritaður

hefur prófað þó nokkuð marga bíla á þessari leið sem hafa skynvædda sjálfstýringu af einhverju tagi en Teslan bar af við þessa prófun. Þannig gat hún haldið stefnu og hraða á akbraut sem var nær ómerkt. Aksturinn var átakalaus og ekkert svig eða rykkir þegar bíllinn hélt sér innan línanna eða skipti um akgrein.

Endurhleðslubremsan var ágæt í bílnum og nær alltaf hægt að aka án þess að þurfa að stíga á bremsuna. Það hefði verið góður kostur ef bíllinn stoppaði alveg niður í 0 og héldi kyrru fyrir á ljósum án þess að

tippla í bremsu.

Að framan er einnig smá geymslupláss sem dugir ágætlega fyrir íþróttatösku eða innkaupapoka.

Tesla Model 3 Long Range Aflrás: 361 kW rafmagnsmótor Hámarksafl: 442 hö. Hámarkstog: 600 Nm. Verð frá: 5.683.000 kr. Rafhlaða: 75 kWst. Rafmagnsnotkun (WLTP): 15 - 18 kWh/100km Drægni skv. framleið.: 560 km. Losun CO2: 0 g/km Eiginþyngd: 1881 kg Lengd / Breidd / Hæð (mm): 4.694 / 1.849 (án spegla) / 1.443 Veghæð (mm): 140 mm.

Drægni, staðalbúnaður, notkun

Hljóðvist

Niðurstaða

Fyrir mig sem áhugamann um bifreiðar og tækni er Tesla einstaklega góður og vel hannaður bíll. Bíllinn er góður sem fjölskyldubíll með gott pláss fyrir farþega og farangur. Drægnin er umfram allt sem maður hefur mátt venjast en eftir að hafa tekið við bílnum í 80% hleðslu og ekið honum til vinnu, heim og áfram í gegnum Þrengslin með viðkomu á Stokkseyri, Selfossi og fleiri stöðum þá átti ég enn 180 kílómetra í drægni þegar honum var skilað daginn eftir.

Notendaviðmótið fór langt fram úr væntingum og er það greinilegt að ökumaður er í fyrsta sæti þegar kemur að hönnun á stýrikerfi.

Þrátt fyrir að vera með yngri bílaframleiðendum í heimi tókst Tesla að skila framúrskarandi árangri í árekstrarprófunum Euro NCAP og fékk fimm stjörnur.

Vissulega er verðmiðinn hærri en margir eru tilbúnir til að eyða í farartæki fyrir heimilið og má fá marga frambærilega rafbíla á markaðnum fyrir um fjórar milljónir. En það virði sem Tesla er að bjóða upp á er umtalsvert og því mikið sem kaupendur fá fyrir peninginn. Vissulega er enginn bíll eða tæki gallalaus en þau fáu atriði sem hægt var að benda á skipta litlu þegar litið er á heildina. Það er á mörgu að taka varðandi þennan bíl og því er gott að benda á að þessi umfjöllun er alls ekki tæmandi. Ef þú hefur áhuga á að fræðast frekar um Tesla þá hafa myndast margir áhugahópar um bílana á samfélagsmiðlum og netinu sem geta gefið aukna og upplýsingar.

Tesla gefur okkur innsýn fjölda ára fram í tímann um hvað það er sem koma skal í hönnun bifreiða og notendaviðmóts.

Björn Kristjánsson

This article is from: