3 minute read

Vesturland

Á Vesturlandi blasir sagan ljóslifandi við í hverju skrefi: Íslendingasögur, þjóðsögur eða jafnvel bara sögur af mönnum og málefnum. Sögusvið þessara sagna er hvarvetna að finna á svæðinu. Margar Íslendingasögurnar eru skráðar á Vesturlandi, svo sem Egilssaga, Sturlunga, Laxdæla og Eyrbyggja, og því er svæðið oft kallað Sögulandið Vesturland. Landslagið, náttúran og menningin endurspeglar þessa arfleifð og færir sögunum líf. Styrkleikar Vesturlands liggja í náttúruundrum þess, ríkri sögu og góðu aðgengi allt árið um kring. Sagan var að stórum hluta skrifuð í Borgarfirði og allt í kringum Vesturland má sjá og upplifa merkar minjar frá landnámi Íslands. Þjónusta hefur aukist verulega á síðustu árum og auðvelt er að skipuleggja hið fullkomna ferðalag sem innifelur fjölbreytta afþreyingu, góðan mat og gistingu sem hentar mismunandi þörfum.

Hvalfjörður er talinn einn af fegurri fjörðum landsins. Hann er einn lengsti fjörður á landinu, staðsettur nærri höfuðborgarsvæðinu og útsýnið þar er stórkostlega fallegt á góðviðrisdögum. Innst í botni fjarðarins er vinsælt útivistarsvæði og skemmtileg en krefjandi gönguleið að fossinum Glym. Kyrrð og friður ríkir í firðinum og fuglalíf er fjölbreytt. Víða í Hvalfirði má finna ýmsar minjar frá hernámsárunum 1940–1945, þar sem Bandaríkjamenn reistu mikla bækistöð í landi

Sveitasæla á Vesturlandi. ljósmyndari: Dagbjört Dúna Rúnarsdóttir

Miðsands og Litlasands við Hvalfjörð. Þar má einnig finna heillega bragga sem herlið Bandamanna reisti á stríðsárunum og safn þar sem rakin er einstök og merkileg saga hernámsins. Akranes er stærsta bæjarfélagið á Vesturlandi. Strandlengjan þar er fjölbreytt og skemmtileg og kjörið að byggja þar sandkastala með fjölskyldunni, njóta útsýnis, baða sig í sjónum eða heitri náttúrulaug í grjótgarðinum. Þar er einnig að finna vita sem hægt er að ganga upp í, stórt safnasvæði og útivistarsvæði margvísleg.

Borgarfjörður og Mýrar er svæði sem er rómað fyrir náttúrufegurð. Það er að miklu leyti hulið gömlu og grófu hrauni þar sem ár og lækir renna um og búa til einhverja glæsilegustu fossa á Íslandi. Í Borgarfirði má finna öflugasta hver Evrópu, einn fallegasta foss landsins, stærsta hraunhelli á landinu, næststærsta jökul í Evrópu, náttúruböð og sögulega staði. Borgarfjörðurinn er sannkölluð jarðhitaparadís þar sem sagan drýpur af hverju strái og fjölmörg söfn, setur og menningartengd þjónusta er á svæðinu ásamt gnægð af veitingastöðum, úrvali gististaða og fjölbreyttri afþreyingu.

Snæfellsnes er sannkölluð útivistarparadís og er þar margar náttúruperlur að finna. Nesið er stundum kallað Ísland í hnotskurn en á þessu 90 km langa nesi er hægt að upplifa flest það sem Ísland hefur upp á að bjóða eins og, eldfjöll, hraun, jökla, náttúrulaugar, eyjar, fjöll, stórkostleg stuðlaberg og klettamyndanir. Snæfellsnes er í fararbroddi áfangastaða í heiminum þegar kemur að sjálfbærri þróun í umhverfismálum. Þar er hægt að njóta lífsins í sjávarþorpum með litríkum húsum, heimsækja söfn, listamenn og upplifa áhugaverða og spennandi afþreyingu. Veitingastaðir eru margir og fjölbreyttir og gistingu af öllu tagi er að finna víðsvegar um nesið. Yst á nesinu trónir hinn dulmagnaði Snæfellsjökull og umhverfis hans liggur yngsti þjóðgarður landsins, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Sérstaða þjóðgarðsins felst í nálægðinni við sjóinn og samspili mannlífs og náttúru en þar má finna gönguleiðir um stórbrotna náttúru undir Jökli, sjá mikið af ýmsum tegundum sjófugla og margbreytilegt gróðurlendi frá fjöru til fjalls.

Dalir er svæði sem býður upp á ótal möguleika til útiveru, gönguferða, hjólaferða og einveru með náttúrunni. Dalirnir umlykja Hvammsfjörð og liggja að Breiðafirði og við alla strandlengjuna má finna heillandi náttúru, fjölbreytt

Fossá í Hvalfirði. ljósmyndari: Thelma Dögg Harðardóttir

fuglalíf og seli. Haförninn, konungur íslenskra fugla er einnig algeng sjón við sjávarsíðuna. Fá svæði landsins státa af jafn ríkulegri sögu og Dalir en marga sögufræga staði, sem skrifað er um í sögum frá þjóðveldistímanum , er að finna í Dölum. Þar má heimsækja lifandi safn þar sem fólk, klætt að fornum sið, fræðir gesti, smakka dásamlegar mjólkurvörur á meðan fylgst er með kúnum í sínu náttúrlega umhverfi, hitta talandi krumma og margt fleira. Velkomin á Vesturland

This article is from: