
6 minute read
Hleðsla rafbíla
Nýjar leiðbeiningar Hleðsla rafbíla
Flestir gera sér nú ljóst að rafbílar eru framtíðin varðandi orkuskipti í samgöngum og að nýir bensín- og dísilbílar munu ekki verða seldir í framtíðinni. Margar þjóðir og einstaka borgir hafa gefið það út að bílar með mengandi útblástur verði bannaðir á komandi áratug. Fólk sem er að hugsa um að kaupa nýjan bíl ætti ekki að kaupa bensín- eða dísilbíla, þar sem þeir verða brátt úreltir. Mikilvægt er að halda fast í tauma svo aðþróunin í fjölgun rafbíla haldi áfram á Íslandi og markmið okkar um orkuskipti í samgöngum nái fram að ganga. Ísland á nokkuð langt í land að ná settum markmiðum og því þarf að halda stuðningi við orkuskipti áfram. Breytingar á byggingarreglugerð 2018 og á fjöleignarhúsalögum eru mikilvæg skref í þessu ferli. Nýjum leiðbeiningum um hleðslu rafbíla er ætlað að styðja við þessa þróun. Kröfur í byggingarreglugerð Í byggingarreglugerð frá 20. júní 2018 eru kröfur um hleðslumöguleika fyrir rafbíla fyrir allar nýjar byggingar og vegna endurbygginga. Kröfurnar eru mismunandi fyrir íbúðarhúsnæði annars vegar og byggingar til annarra nota hins vegar. Byggingarreglugerð gerir nú kröfu um að í nýbyggingum og við endurbyggingu skuli gert ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði. Kröfurnar gilda fyrir allar nýjar byggingar sem samþykktar hafa verið af byggingarnefnd viðkomandi sveitarfélags frá þeim tíma. Athuga ber að kröfurnar gilda óháð því hvort þær koma fram á aðaluppdráttum eða hvort láðst hefur að geta þeirra. Allir aðilar tengdir byggingarframkvæmdum þurfa því að vera vakandi í byggingarferlinu, þannig að ekki þurfi að ráðast í kostnaðarsamar aðgerðir eftir á. Nýjar leiðbeiningar fyrir fjölbýlishús Árið 2019 setti Mannvirkjastofnun (nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun) af stað verkefni um gerð leiðbeininga fyrir rafbílahleðslu í fjölbýlishúsum. Mikil þörf er fyrir heildstæðar leiðbeiningar varðandi fyrirkomulag hleðslu í nýjum og eldri byggingum. Þær eru ætlaðar bæði leikmönnum og fagaðilum varðandi kröfur og bestu leiðir til uppsetningar á hleðslustöðvum. Leiðbeiningarnar verða með nánari útlistun á kröfum byggingarreglugerðar til nýbygginga. Þar kemur fram hverju þarf að huga að í nýjum byggingum varðandi hönnun og frágang til að uppfylla byggingarreglugerð. Mikilvægt er að auðvelt verði að setja upp hleðslu í fjölbýlishúsum á hagkvæman hátt. Til þess að það megi verða þarf að ganga nokkuð langt í frágangi, þannig að hver og einn íbúi þurfi ekki að leggjast í kostnaðarsamar aðgerðir eftir á. Til dæmis þarf nægjanlega mikið afl rafmagns inn í bygginguna til að anna núverandi notkun og þeirri notkun sem fyrirsjáanleg er í framtíðinni. Fyrir fjölbýlishús er aflstýring milli hleðslustöðva vitrænasti kosturinn til að nýta afl byggingarinnar sem best og rétt að gera ráð fyrir því frá byrjun í hönnun nýbygginga. Ekki er þörf á að allir rafbílar geti hlaðið með hámarksafköstum á sama tíma. Eldri fjölbýlishús Fyrir eldri fjölbýlishús skiptir aflstýring sérstaklega miklu máli, þar sem nýta verður sem best aflið sem er til aflögu. Þó nokkur kostnaður getur verið fólginn í því að stækka rafmagnsinntak bygginga. Fyrir flesta rafbíla og fullkomnari hleðslustöðvar er hægt að stilla hvenær dagsins hleðsla fer fram en æskilegt er að hlaða á nóttunni þegar almenn rafmagnsnotkun er einna minnst. Í flestum tilvikum er hægt að koma upp ásættanlegri rafbílahleðslu í eldri byggingum með aflstýringu. Í framtíðinni, þegar flestir verða komnir á rafbíla, gæti aflþörfin verið meiri en kerfið ræður við. Sú lausn, sem valin er til rafbílahleðslu, þarf því að taka mið af þessum breytingum. Myndirnar sýna hvernig rafmagnsálag (notkun) er í fjölbýlishúsum á mismunandi tímum og hvernig best er að nýta þá orku sem er til staðar.

Dæmigerð álagskúrfa notkunar fjölbýlishúss. Mest álag er á milli 16 og 22.
Álagskúrfa almennrar notkunar (grá) að viðbættu álagi við hleðslu rafbíls (græn)


Til að álagsstýring sé möguleg þurfa hleðslustöðvar að hafa samskipti sín á milli. Í reynd þýðir það að stöðvarnar séu frá sama framleiðanda, þannig að söluaðili eða framleiðandi ábyrgist samvirkni þeirra. Mjög hröð þróun er í hleðslustöðvum og ekki ólíklegt að í framtíðinni geti stöðvar mismunandi framleiðenda talað saman samkvæmt sameiginlegum staðli. Þær hleðslulausnir sem valdar eru þurfa að geta stækkað með auknum fjölda notenda. Uppsetning rafbílahleðslu fyrir eldri byggingar þarf að fara fram í nokkrum skrefum. Það ferli nýtist hvort sem um er að ræða kröfu í samræmi við byggingarreglugerð eða óskir eigenda en getur verið misjafnlega umfangsmikið eftir því hversu stórfelldar breytingarnar eru.
Helstu skref við uppsetningu hleðslu fyrir eldra húsnæði.

Mögulegt afl sem er til staðar í kerfi fjölbýlishúss, miðað við að hleðslu sé dreift á allan sólarhringinn Ný fjöleignarhúsalög Nú er á leiðinni mikilvægt skref sem lýtur að breytingum á fjöleignarhúsalögum og er í vinnslu hjá félagsmálaráðuneyti. Breytingar gera íbúum auðveldara að koma upp hleðslu og fækka þröskuldum á leiðinni. Við uppfærslu laganna hefur meðal annars verið litið til reynslu Norðmanna, sem komnir eru lengst í heiminum varðandi orkuskipti í samgöngum. Húsfélög munu ekki geta neitað einstaklingum um að koma sér upp rafbílahleðslu, sé þess óskað. Að því sögðu er mikilvægt að skapa sem besta sátt um fyrirkomulag hleðslu í fjölbýlishúsum. Það er meðal annars gert með að skipuleggja fyrir fram hvernig að uppbyggingu skuli standa og kostnaður eigi að skiptast milli aðila. Hraðhleðslustöðvar T il að tryggja orkuskiptin á landinu öllu er mikilvægt að uppbygging hraðhleðslustöðva haldi áfram á fullum hraða. Á sama tíma er ljóst að hraðhleðslustöðvar á fáförnum stöðum munu ekki bera sig fjárhagslega, heldur verður að líta á þær sem hluta af stærri mynd. Ríkið þarf því að koma að uppbyggingu þeirra með styrkjum, eins og gert hefur verið hingað til. Rafbílar eru með misjafnlega mikla drægni eins og gengur og því þarf net hraðhleðslustöðva að vera þétt. Í raun er óþarfi að fólk, sem keyrir nær eingöngu innanbæjar, fjárfesti í mjög stórum rafhlöðum. Eðlilegra er að net hraðhleðslustöðva sé þéttriðið þannig að fólk geti notað bílana eins og óskir eru um. Öryggismál Samhliða auknum fjölda rafbílahleðslustaða er mikilvægt að huga að rafmagnsöryggismálum. Til dæmis skulu bilunarstraumsrofar vera af gerð A eða B og í flestum tilvikum hentar gerð B best. Bilunarstraumsrofa af gerðinni AC skal ekki nota fyrir hleðslu rafbíla. Mikilvægt er að frágangur á rafmagni og hleðslubúnaði sé framkvæmdur af fagaðila. Þó að minni líkur séu á að það kvikni í rafmagnsbíl en bensínbíl getur slakur frágangur á rafmagni valdið íkveikjuhættu. Ekki er til dæmis ásættanlegt að hleðsla rafbíla fari fram í gegnum hefðbundna heimilistengla, þar sem þeir eru ekki hannaðir fyrir langtímanotkun. Ekki er leyfilegt að nota færanlega tengla, til dæmis á framlengingarsnúru, til hleðslu rafbíla. Hver tengill skal einungis fæða einn rafbíl. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um frágang rafmagns og val á bilanastraumsrofum og leiðurum á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar www.hms.is. Höfundur Böðvar Tómasson verkfræðingur er stofnandi verkfræðistofunnar ÖRUGG, sem sinnir öryggismálum í víðum skilningi, svo sem hönnun öryggisvarna, brunahönnun, áhættugreiningu og rýmingaráætlunum. Hann hefur enn fremur sinnt margvíslegum verkefnum tengdum rafbílum og rafbílahleðslu. Böðvar hefur undanfarið unnið að gerð leiðbeininga um hleðslu rafbíla fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem líta brátt dagsins ljós. Af hverju þarf ekki að gera ráð fyrir hámarksaflþörf allra rafbíla við hleðslu á sama tíma. • Orkunotkun er breytileg milli einstaklinga og breytileg eftir dögum. • Bílar eru settir í hleðslu á mismunandi tímum eftir því hvenær fólk kemur heim. • Mjög sjaldgæft er að bílar séu með 0% hleðslu eftir daginn. • Almennt eru rafbílar ekki hlaðnir upp 100% í hvert skipti.