
4 minute read
Reynsluakstur Renault
Reynsluakstur
Renault Megane E-Tech
Töluverð eftirvænting ríkti fyrir komu Renault Megane E-Tech á markað en heimsfaraldur og annað kom í veg fyrir að hann liti dagsins ljós fyrr en í byrjun ársins 2022. Biðin var ef til vill þess virði því að bíllinn hefur margt til bruns að bera sem klæðir góðan bíl. Megane hefur frá upphafi verið einn vinsælasti fjölskyldubíll Renault og hefur nú verið endurhannaður frá grunni að utan og innan og má segja að um algerlega nýjan bíl sé að ræða. Hann var m.a. kjörinn fjölskyldubíll ársins hjá TopGear.
470 km drægni við bestu ákjósanlegustu skilyrði
Megane E-Tech hefur allt að 470 km drægni við bestu ákjósanlegustu skilyrði. Bíllinn er boðinn í fimm mismunandi búnaðarútfærslum og vali um 40 kWh eða 60 kWh rafhlöðu við 160 kW rafmótor sem gefur annars vegar 130 hestöfl og allt að 300 drægni og hins vegar 220 hestöfl og allt að 470 km drægni. Bíllinn tekur mismunandi hleðslukosti, þar á meðal 22 kWh AC hleðslu, DC hleðslu og allt að 130kW hraðhleðslu í vönduðustu útgáfu bílsins sem gerir kleift að hlaða allt að 400 km drægni á rafhlöðuna á rúmum hálftíma.

440 lítra farangrursrými með sætin uppi, 1332 lítrar með sætin niðri.
Bílnum sem var reynsluekið er af gerðinni Iconic og er sú dýrasta sem í boði er. Hinar gerðirnar eru aftur á móti mjög álitslegir kostir á ágætu verði með öllum þeim góðum kostum sem þær búa yfir. Grunngerð Renault Megane E-Tech, sem ber heitið Equlibre (áður Zen), er mjög vel útbúin með 12“ skjá í mælaborði, vönduðu Arkamis-hljómkerfi, hita í sætum og stýri og notendavænu Android/ Google-stýrikerfi í margmiðlunarkerfi bílsins sem stjórnað er frá 9“ skjá. Þá er Equlibre einnig með bakmyndavél og nálægðarskynjurum, akgreinavara og stýringu, aðfellanlega hurðarhúna, vegaskiltisnema og fjölmargt fleira.
Línulegur ásýndar og fallegur á allan hátt
Renault hefur verið mjög framarlega í rafbílavæðingunni og biðu margir eftir að þessi bíll liti dagsins ljós á markaði og má segja að biðin hafi verið þess virði. Bíllinn er hannaður alveg frá grunni, línulegur ásýndar og fallegur á allan hátt. Renault Megane e-Tech mun veita bílum í svipuðum harða samkeppni, ekki síst fyrir einstaka góða hönnun og þar nýtur framleiðandinn góðrar reynslu af fyrri framleiðslu. Í öllum gerðum bílsins eru eingöngu í boði framhjóladrifnar útgáfur sem gefa tækifæri að létta bílinn þar sem minna fer í rafmagnsleiðslur og loftræstikerfi. Að innan kemur bíllinn skemmtilega á óvart og er hönnun er á margan hátt sérlega vel heppnuð. Vel fer um ökumanninn og gott aðgengi er í öll stjórntæki umhverfis stýrið. Mælaborð er næstum algjörlega stafrænt með 12 mælaskjá og 12 tommu snertiskjá í andlitsmynd sem hallar nokkrum gráðum í átt að ökumanninum.
Upplýsingakerfið er gott og notast við Google-stýrikerfi sem er einfalt í allri notkun. Af fólksbíl að vera er plássið í bílnum býsna gott en útsýnið úr bílnum mætti vera betra en kannski ekki til að setja mikið út á. Gluggar eru frekar litlir en fyrir vikið er hann sportlegri. Útsýnið út um afturglugga er minna en ökumenn hafa vanist en hönnuðir Renault sáu við því en í baksýnisspeglinum er myndavél sem sýnir mjög vel afturfyrir bílinn og til hliðar við hann.
Góð fjöðrun kom vel í ljós á malarköflum
Í reynsluakstrinum kom í ljós að fjöðrun bílsins er með ágætasta móti sem kom bersýnilega í ljós á malarköflum þar sem hann dregur auðveldlega í sig holur. Það fer vel um ökumanninn þegar keyrt er yfir bylgjulaga vegi eins og margir aðrir rafbílar hafa tilhneigingu til að gera. Þægilegt var að keyra bílinn um borgina og hljóðlaust mál. Ferhyrnt sporöskjulaga stýrið er frekar létt, jafnvel í sportstillingu en lætur bílinn líða vel um. Rafhlöðunum er komið sérlega vel fyrir til að draga úr hávaða í farþegarými, aðferð sem kallast ,,cocoo effect“ á ensku. Heilt yfir er bíllinn hljóðlátur og helst það þótt hraðinn aukist, aðeins smá hljóð í dekkjum læðast inn. Bæta má við 20 tommu álfelgum í dýrustu útfærslu bílsins en þær eru afar smartar og gera útlit hans enn glæsilegra.


Bíllinn getur hlaðið allt að 22 kW á AC óháð útgáfu. 40 kWst rafhlaðan býður upp á 85 kW hraðhleðslu en 60 kWst nær allt að 130 kW hraðhleðslu.
Annað sem vekur athygli er lítill stýrispaði sem gerir ökumanni kleift að stilla stig endurnýjandi hemlunar en hægt er að velja um fjórar stillingar. Þetta sendir ekki aðeins orku aftur inn í rafhlöðuna undir hraðaminnkun til að bæta drægni, heldur getur það einnig dregið verulega úr þörfinni á að nota venjulegar bremsur, sérstaklega í borgarakstri
Eins og áður segir er Renault Megane E-Tech boðinn í fimm mismunandi búnaðarútfærslum og er verðið frá 5.390 þúsundum króna fyrir Equlibre til 6.990 þúsunda króna fyrir Iconic sem er vandaðasta útgáfa Renault Megane E-Tech, sem ásamt öðru er m.a. búinn Harman Kardon-hljómflutningskerfi.
Jón Kristján Sigurðsson
Renault Megane E-Tech

Verð: 5.390.00/6.990.000 kr. Afl: 130 / 220 hestöfl Tog: 250 / 300 nm Drægni WLTP: 384 - 481 km Eyðsla bl. ak: 15,5 - 16,1 kWh/100 km Farangursrými: 440 lítrar / 1332 lítrar L/B/H: 4200/1768/1505 mm Hjólhaf: 2685 mm Eigin þyngd: 1.636 kg Dráttargeta: 900 kg.