1 minute read

Ljósastýringar

Misvísandi upplýsingar eru á kreiki um framgang ljósastýringa á höfuðborgarsvæðinu. Öllum er ljóst að hér er á ferð afar brýnt mál. Með skilvirkri ljósastýringu er tryggt að umferðin gangi betur fyrir sig innan þeirra samgöngumannvirkja sem eru til staðar. Arðsemi ljósastýringa á höfuðborgarsvæðinu gæti því verið töluverð eins rannsóknir hafa sýnt fram á.

Okkur lék forvitni á að vita hvernig staðan er á þessum málum í dag?

Eins hvað er búið að framkvæma í þessum efnum?

Hafa komið upp hnökrar í framkvæmdinni?

Við leituðum til Þorsteins R. Hermannsonar hjá Betri samgöngum og inntum hann svara við spurningunum hér að framan.

Þorsteinn upplýsti að eitt af verkefnum í samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga væri „að ráðast í markvissar aðgerðir til að nýta nýjar tæknilausnir og bæta umferðarljósakerfi á höfuðborgarsvæðinu“. Til að fá yfirsýn yfir stöðu mála var sænska verkfræðistofan Sweco fengin til að gera óháða úttekt á umferðarljósabúnaði á höfuðborgarsvæðinu og utanumhaldi og umsýslu hans. Staða umferðarljósastýringa var greind með aðferðarfræði bandarísku vegagerðarinnar og jafnframt borin saman við stöðuna í fjórum öðrum evrópskum borgum. Niðurstaða greiningar Swecos er að tæknilausnir og búnaður sem fjárfest hefur verið í síðastliðin ár er góður og styður við snjallar lausnir í umferðarljósastýringu. Því er talin ástæða til að skipta honum út og Sweco leggur til að haldið verði áfram á sömu braut við frekari fjárfestingar í umferðarljósabúnaði og tæknilausnum.

Skýrslan frá Sweco benti á nokkur tækifæri til úrbóta sem snéru einna helst að rekstri, að nýta betur þá möguleika sem núverandi kerfi og tæknilausnir hafa upp á að bjóða og að efla samvinnu veghaldara á höfuðborgarsvæðinu.

Til að bregðast við þeim ábendingum var stofnaður samstarfshópur um umferðarljósastýringar en í honum sitja fulltrúar veghaldara á höfuðborgarsvæðinu þ.e. frá Vegagerðinni og sveitarfélögunum. Á þessum vettvangi hefur verið unnið markvist að sameiginlegri stefnumótun og áherslum í málaflokknum og í apríl 2021 gaf starfshópurinn út 5 ára aðgerðaáætlun sem unnið er eftir. Hópurinn hefur m.a. skoðað áfram hvaða áætlanir aðrar borgir gera í umferðarljósastýringum, innkaupum á tæknilausnum, rekstri þeirra o.fl. Auk þess er verið á skerpa á samstarfi mismunandi veghaldara hér um umferðarljósastýringar og skoða það með markmið og þróun í málaflokknum í huga.