3 minute read

Fornbíllinn hefur mikið gildi

Bílaklúbbur Akureyrar var stofnaður 27. maí 1974 og er eitt elsta akstursíþróttafélag landsins. Klúbburinn setti fljótt mark sitt á akstursíþróttasögu og bílamenningu landans með tíðum keppnum og öðrum viðburðum. Stóðu þar framan af upp úr árlega 17. júní bílasýningin og torfæru- og sandspyrnukeppnir.

Klúbburinn hefur verið með félagsheimili á Óseyri í Frostagötu 6b og frá 2012 á núverandi svæði að Hliðarfjallsvegi 13. Um langa hríð hefur hann staðið fyrir ótrúlega fjölbreyttum viðburðum en þar má nefna bílasýningar, torfæru- og sandspyrnukeppnir, rally-cross, götuspyrnur, auto-x, go-kart, mótorhjóla- og vélsleðaspyrnur, reykspól- og græjukeppnir og eflaust ýmislegt annað.

Klúbburinn hefur ötullega unnið frá fyrstu tíð að því að koma upp svæði með aðstöðu til keppna og til að vinna að bættri umferðarmenningu á Akureyri. Eftir nokkurra áratuga baráttu eignaðist hann svo núverandi svæði, þar sem unnið hefur verið ötullega að uppbyggingu. Á svæðinu er félagsheimili klúbbsins, ökugerði og keppnissvæði. Keppnissvæðið hýsir götuspyrnur, sandspyrnur, torfærukeppnir, auto-x, go-kart og annað. Síðustu ár hafa Bíladagar verið aðalviðburðir klúbbsins.

Innan klúbbsins er rekin fornbíladeild sem hefur vakið mikla aðdáun bæjarbúa og eins þeirra sem sækja bæinn heim. Áki Áskelsson hefur lengi starfað í henni og er þar meðstjórnandi. Áki segir að stofnun deildarinnar og tilgangur hafi verið fyrir bílasýningar. Hún hafi á þessum tíma eignast gamlan vörubíl, fornbíl Ford AA frá 1931 og hefur séð um hann og gert hann upp. Bíllinn kom 1986 inn í klúbbinn svo að þetta er búið að taka langan tíma. Áki segir bílinn vera kominn á ágætan rekspöl núna en margir einstaklingar hefðu komið að þessari vinnu. Einn þeirra eru Eiríkur Ingvar Ingvarsson frá Færeyjum ásamt sonum sínum. Faðir Eiríks átti þennan bíl lengst af en þeir feðgar hafa gert mikinn skurk í því að smíða pall á bílinn. Þetta hefur lengi verið svona vetrarverkefni hjá okkur og þótt afar gefandi.

Klúbburinn hefur jafnt og þétt vaxið fiskur um hrygg

„Fornbílaklúbbnum hefur jafnt og þétt vaxið fiskur um hrygg. Ég kom ekki að þessu í upphafi en félagarnir byrjuðu fyrir einum tuttugu árum síðan að safnast saman á Ráðhústorginu einu sinni í viku, komu á bílunum sínum og tóku rúntinn. Sex okkur stjórnuðu einna mest í fornbíladeildinni, gömlu jálkarnir ég, Þorgeir Sævarsson, Jón Rúnar Rafnsson og Hjalti Jóhannesson. Einnig eru tveir ungir, Andri Þorgeirsson og Stefán Waage, sem eru smám saman að taka við þessu.

Við fórum loks í samstarf við Akureyrarstofu sem sér um alla viðburði á vegum bæjarins og kynningu fyrir ferðamenn og menningarfélag Akureyrar sem rekur Hof og þar hittumst við á hverjum miðvikudegi. Við hefjum þar sýningar í maí á vorin erum þar fram á haust og stundum lengur. Það er alltaf ágæt mæting og frá Hofi keyrum við inn í bæinn og til baka þar sem við stillum bílunum upp. Sýningarnar hafa verið að vaxa stöðugt, bílarnir oftast verið um 35 en stundum farið upp í 50. Þetta er orðinn fastur punktur í bæjarlífinu sem bæjarbúar og ferðamenn eru duglegir að sækja,“ segir Áki.

Áki segir að yfir veturinn hittist félagsmenn alltaf á miðvikudögum í félagsheimilinu við kvartmílubrautina. Þar tökum við kaffispjall en ákveðinn kjarni hefur verið duglegur að mæta. Enn fremur erum við duglegir að fara í heimsóknir yfir vetrartímann.

Allir félagsmenn í fornbílaklúbbnum eru í Bílaklúbbi Akureyrar og taldist Áka til að þeir væru um um þúsund manns. Á listanum fyrir miðvikudagsfundina í fornbílaklúbbnum eru um 450 manns, Áki segir þetta afskaplega skemmtilegan félagsskap sem fer vaxandi. Alls 30 manns fóru í heimsókn á Ystafell á dögunum.

Akureyringar hafa verið þekktir fyrir að fara vel með bílana sína

Bílaáhugi á Akureyri hefur alltaf verið mikill, ekki satt?

„Svo má segja. Það helgast af því að lítið salt er hjá okkur og bílar hafa enst betur hér en víða annars staðar. Þegar menn sáu á sínum tíma að eitthvað var hægt að gera úr þessum gömlu bílum voru miklu fleiri bílar hér en annars staðar. Þegar bíll var orðinn 20 ára gamall og þar yfir var ekki svo vitlaust að gera eitthvað fyrir hann. Þetta byrjaði fyrir alvöru um 1980. Akureyringar hafa verið þekktir fyrir að fara vel með bílana sína, bónað og þvegið þá mikið, segir Áki. Aðspurður um fjölda fornbíla á Akureyri sagðist hann ekki hafa alveg tölu um þá. Margir bílar eru í bílskúrum en það kæmi honum ekki á óvart þó að bílarnir væru um eitt þúsund talsins.

Áki vildi koma á framfæri góðum frændskap við fornbílavini í Skagafirði og í Þingeyjarsýslu en gott samstarf er við félög annars staðar. Við sækjum til þeirra og þeir koma til okkar á sýningar. Við höfum verið með sýningar á Mærudögum á Húsavík og heimsótt Skagafjörðinn og þar er alltaf tekið vel á móti okkur.

Brýnt er að fá unga fólkið með okkur í starfið

Hvernig sjáið til framtíðina fyrir ykkur?

„Við munum halda áfram á sömu braut en höfum rætt það á milli okkar að brýnt sé að fá unga fólkið til okkar. Því miður hefur það ekki mikinn áhuga, hvað sem veldur, en við gömlu refirnir reynum hvað við getum að halda merkjum klúbbsins á lofti og halda áfram með bílasýningar sem vakið hafa verðskuldaða athygli.

Árleg sýning bílaklúbbsins í heild á Akureyri 17. júní verður alltaf á sínum stað. Við höfum verið mjög sýnilegir um verslunarmannahelgar á Siglufirði og á Hjalteyri og eins á Fiskideginum mikla. Oft er farið á Reyðarfjörð og stofnaður hefur verið fornbílaklúbbur Austurlands,“ segir Áki. Áki bætti við að hann teldi fornbíla hafa mikið gildi. Hann ætti þrjá fornbíla sjálfur, tvo á götunni og einn sem væri í uppgerð. Hann á Jaguar Arthur tólf síletra SJS

86-módelið og Skoda Felexia með blæjum, 64-módelið. Áki sagði hann alltaf vekja óskipta athygli hjá öldnum og ungum, einkum hjá börnum. Bíllinn sem er í uppgerð er af gerðinni Taunus, 74-módelið.