6 minute read

Vetrarbílarannsókn á drægni rafbíla

Vetrarbílarannsókn Félags norskra bifreiðaeigenda (NAF) og félagstímaritsins Motors á rafbílum var framkvæmd í Osló í febrúar. FÍB var aðili að rannsókninni og aðstoðaði við framkvæmd hennar. NAF-rafbílarannsóknin er sú viðamesta í heimunum og var nú framkvæmd í fjórða sinn. Í henni eru gerðar vandaðar prófanir á drægni og úttektir á rafbílum bæði við sumar- og vetraraðstæður.

Að rannsókninni komu fagmenn hver á sínu sviði og bíða áhugamenn um bifreiðar og framleiðendur þeirra spenntir eftir niðurstöðunni enda eru Norðmenn í fremstu röð í heiminum þegar kemur að rafbílavæðingu. Í prófuninni var raundrægni 29 rafbíla skoðuð í vetraraðstæðum og enn fremur hvernig bílarnir brugðust við þegar rafhlaðan var að tæmast. Enginn af nýjum rafbílum í vetrarprófuninni var nálægt WLPT-staðlinum um orkunotkun bifreiða og raundrægni í akstri.

Heldur kaldara var í ár en það síðasta

Aðstæður í þessari nýju vetrarkönnun voru í stórum dráttum þær að veðurfar og færð var breytileg, yfirborð vega var ýmist autt, þurrt, blautt og ís á köflum. Hitafar á meðan prófunum stóð var frá frostmarki niður í allt að 19 gráðu í mínus á fjöllum. Í könnuninni í fyrra var hitinn á bilinu 0 til mínus tíu stig en í ár var heldur kaldara.

Prófanir fóru fram bæði á láglendi og á fjallvegum. Tveir voru í hverjum bíl, ökumaður og aðstoðarökumaður.

Marianne Borgen borgarstjóri Oslóar og Stig Skjöstad framkvæmdastjóri NAF ræstu keppendur frá Aker Bryggehverfinu í miðborginni og þaðan var bílunum ekið tæpa 250 km á þjóðvegum í norður til Frya. Þaðan var ekið rúmlega 230 km hring um fjallvegi þar sem hver einstakur bíll þurfti að halda áfram uns hann varð rafmagnslaus.

Þá fyrst var kílómetrafjöldi skráður. Eftir þetta þurftu prófunarteymin 29 að bíða eftir að vegaaðstoð NAF kæmi á staðinn og flytti orkulaus ökutækin að prófunar- og hleðslustað.

Veðrið var að mestu bjart og lítill vindur. Fyrsti kafli leiðarinnar var þéttbýlisakstur í Osló og þaðan var verið mest á þjóðvegum með hámarkshraða frá 60 upp í 110 km hraða á klukkustund. Á síðasta kaflanum var töluverður stígandi upp miklar brekkur sem voru allt að kílómetra hæð yfir sjávarmáli.

Bílarnir hófu prófanir með fullhlaðna rafhlöðu án forhitunar. Bílategundir geta haft mismunandi prófunargildi samkvæmt WLTP-staðlinum, allt eftir búnaðarstigi og hjólastærð. Miðað var við það WLTP-gildi sem söluumboðið eða framleiðandinn gaf upp á bílana sem tóku þátt.

Að meðaltali var um 25% samdráttur í akstursdrægni

Eins og vænta mátti að vetrarlagi náðu rafhlöður bílanna 29 ekki sömu nýtni og afköstum og í sumarakstri. Orkunotkunin var að meðaltali yfir 10 prósent meiri en uppgefin eyðsla var samkvæmt WLTP-staðlinum. Bílarnir töpuðu að meðaltali um 25% af akstursdrægninni á leiðinni. Af þátttökubílunum voru 12 kínverskir frá sjö mismunandi framleiðendum. Sumir þeirra hafa ekki áður verið í boði á evrópskum markaði. Árangur þeirra var misjafn. Maxus Euniq6 náði mjög góðum árangri en á hinum endanum var Hongqi E-HS9 með næstversta drægnirhlutfallið.

Met slegið í akstursdrægni

Met var slegið varðandi hversu langt rafbíll ók að vetrarlagi í drægnisprófi.

Þar átti í hlut Tesla Model S sem ók 530 kílómetra í köldu vetrarveðri.

Það er 16,40% frávik frá drægni samkvæmt WLTP sem gefur upp

634 km. Þótt Tesla S hafi ekið lengst komst ódýrari bíll næst uppgefnu drægi, Maxus Euniq6 með 10,45% frávik. Bíllinn fór 317 km en uppgefin drægni hans var 354 km.

Þetta er fjórða vetrarprófið sem NAF og Motor standa fyrir. Sagan sýnir frávik á bilinu fjögur til yfir 35%. Í prófun þessa árs stóðu fjórir bílar sig verr en það sem hingað til hefur verið mesta frávikið í drægni: Mercedes EQE 300, Skoda Enyaq Coupe RS, Hongqi e-HS9 og Toyota bZ4x 2WD en bílar þessir voru með meira en 33% styttri drægni í prófunum. Toyota dró bZ4x 4WD bílinn sinn út úr keppninni nokkrum dögum áður en prófanir hófust en héldu eindrifsbílnum inni. BZ4X var með lökustu hlutfallsniðurstöðuna af öllum þátttökubílunum eða -35,79%.

Á meðfylgjandi töflu eru niðurstöður, yfirlit yfir bílana í prófinu með uppgefnu WLTP-staðalgildi, stöðvunartölum og frávikum frá WLTP. Orkueyðslutölur eru kWh/100 km.

Reynsluakstur Seres 3

Sumarið 2022 kom kínverski rafbíllinn Seres 3 á markað hér á landi, enn ein nýjungin sem bílaáhugamönnum stendur til boða. Kínverskir rafbílar hafa í auknum mæli komið inn á markað í Evrópu og hlutdeild þeirra vex jafnt og þétt. Í metsölulandinu Noregi hefur Seres 3 verið vel tekið og selst hann með ágætum. RAG ehf. að Helluhrauni 4 í Hafnarfirði er umboðsaðili bílsins á Íslandi. Starfsemi fyrirtækisins hefur þróast og breyst undanfarin ár og er nú er inn- og útflutningur stór þáttur í rekstri þess.

Aflið var ekki nægjanlegt

Mjög spennandi var að setjast undir stýri á Seres 3 og sjá hvað þessi bíll hefur upp á að bjóða. Margir virtir og reyndir hönnuðir og tæknifræðingar komu að smíði bílsins. Reynsluaksturinn fór fram við misjafnar aðstæður innan borgarmarkanna og eins á malarvegum utanbæjar. Þar kom fljótlega í ljós að aflið var ekki nægjanlegt þó að einhverjum kynni að þykja það ásættanlegt. Fjöðrunin var nokkuð stíf en þó alls ekki óþægileg, stýrið reyndist þægilegt og létt með auknum hraða. Það má hækka og lækka en ekki draga að bílstjóra. rafmótor sem gefur um 163 hestöfl og togar 300 Nm. Uppgefin drægni, samkvæmt WLTP-staðlinum, er um 420 km en er í raun varla meiri en 300 km. Í heimahleðslustöð getur Seres 3 tekið við allt að 6,6 kW á klukkustund. Rafhlaðan tekur um 52 kWst. og þarf um 45 mínútur til að hlaða bílinn í hraðhleðslustöð sem gefur innan við 50 kW á klukkustund.

Fjöðrunin stendur fyrir sínu Á malarköflum í grennd við Hafravatn kom vel í ljós hve fjöðrunin var góð. Bílar með mjúka fjöðrun hafa hneigingu til að gefa eftir en svo var ekki. Beygjuradíus bílsins var góður og það gefur honum ákveðinn stimpil.

Allar aðgerðir eru auðveldar og miðstöðinni er sjálfstætt stjórnað

Bílar af Asíumarkaði hafa haft orð á sér fyrir að vera með slæmar miðstöðvar. Í Seres 3 er hún aftur á móti mjög góð. Allar aðgerðir eru auðveldar og miðstöðinni er sjálfstætt stjórnað.

Hljóðeinangrun í bílnum mætti vera betri en þegar farið var yfir 80 km/ klst var svolítill vindgnýr en vindur á köflum var um 10–12 metrar á sekúndu. Hlaðbremsan er ekki nógu öflug og efnisval í bílnum mætti vera betra á sumum sviðum. Einnig er vert að hafa í huga að ekkert

Android Auto eða Apple Carplay er í þessum bíl því að nálgast má allt í snjallsímanum með því að spegla hann á skjá bílsins eða nota bluetooth.

Engu að síður býr bíllinn býr yfir mörgum góðum kostum. Viðbragð í snertiskjá er gott og í raun mun betra en við mátti búast. Útsýnið er þægilegt og því er auðvelt að átta sig á umhverfinu. Ágætlega fer um ökumann og farþega í framsæti. Rýmið mætti þó vera meira í aftursætum.

Gott verð

Upp úr stendur eftir þennan reynsluakstur að kaupandinn fær mikið fyrir peningana. Í samanburði við marga aðra bíla í þessum flokki staldra eflaust margir við og hugsa næstu skref þegar verðið á bílnum er haft í huga. Markmið framleiðandans var að bjóða bíl með gott öryggi, góða aksturseiginleika og á viðráðanlegu veðri. Þetta virðist hafa gengið eftir.

Um framleiðandann

Seres (áður nefnt SF Motors, Chongqing Jinkang New Energy Automobile) er rafbíla- og íhlutaframleiðandi með höfuðstöðvar í Santa Clara í Kaliforníu. Fyrirtækið, sem er dótturfyrirtæki Chongqing Sokon Industry Group, hefur komið á fót rannsóknar- og þróunaraðstöðu víða og er í ferli við að hanna og framleiða rafbílalínu í Bandaríkjunum. Fyrirtækið er í samstarfi við fjölda bíla- og tæknibirgja.

Seres var stofnað undir heitinu SF Motors í Santa Clara í janúar 2016 og ætlaði að einbeita sér að framleiðslu rafbíla. Snemma næsta árs fékk móðurfélag þess, Sokon Industry Group, framleiðsluleyfi frá kínverskum stjórnvöldum fyrir rafbíla.

Fyrirtækið rekur rannsóknar- og þróunaraðstöðu á sjö stöðum í fjórum löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum, Kína, Þýskalandi og Japan. Seres er einnig í samstarfi við Mcity-nýsköpunarmiðstöð háskólans í Michigan en hún er tileinkuð því að leiða umbreytingu yfir í tengd og sjálfvirk farartæki. Öll rannsóknarog þróunaraðstaða Seres mun einbeita sér að snjallri rafrænni aflrásartækni, ökutækjaverkfræði, snjöllu aksturskerfi, næstu kynslóð rafhlöðutækni og léttri hönnun.

Árið 2017 lauk SF Motors kaupum á AM General Commercial Assembly Plant í Mishawaka í Indíana-ríki og hefur frá þeim tíma verið eina rafbílafyrirtækið til að hafa framleiðsluaðstöðu bæði í Bandaríkjunum og Kína. Þetta verður fyrsta verksmiðjan í Bandaríkjunum sem er alfarið í eigu SF Motors.

Kaupin fela í sér að félagið hefur nú 430 verksmiðjustarfsmenn sem áður hjálpuðu til við að smíða farartæki fyrir bæði Mercedes-Benz og Hummer.

Seres3

Verð: 5.350.000

Vél: Rafmótor 120 kW (163 hestöfl, 300 NM

Drif: Framdrif

L/B/H mm: 4385x1850x1650

Veghæð: 180 mm

Farangursrými, lengd í mm:

800-1600

Rúmmál farangursrými: 385 lítrar

Þynd óhlaðinn: 1765 kg

Leyfð heildarþyngd: 2065 kg

Sæti: 5

Dekkjastærð: 225/55 R18

Hjólhaf mm: 2655

Sportvídd framan/aftan í mm: 1580/1582

Akstursprógröm: Eco/Normal/Sport

Stærð drifrafhlöðu: 53,61 kWh

Drægni (uppgefið): 400 km

Koltvísýringslosun: 0 g/km

Orkunýtni: A+

Aksturseiginleikar Útlit - Stjórntæki

Rými - Sætisstaða Geymslurými