1 minute read

Nú er einnig hægt að fá FÍB skírteinið í símann!

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB

Efnisyfirlit:

Gríðarlegur ávinningur vinnst með ljósastýringum

Ökumenn sem keyra um á höfuðborgarsvæðinu verða í sífellt meira mæli varir við aukinn umferðarþunga og miklar umferðarteppur. Þeir sem koma úr efri byggðum kannast við hvernig hægist á umferðinni á leið til vinnu á morgnana og eins þegar farið er heim síðdegis. Ástandið í þessum efnum hafa aðeins versnað með árunum, bílaeign hefur aukist og íbúum á höfuðborgarsvæðinu öllu hefur fjölgað mikið.

Þessir þættir hafa allir áhrif á umferðina og gera hana ótvírætt erfiðari og þyngri á allan hátt ef ekkert er að gert. Hvað er til ráða og hafa stjórnvöld sofið á verðinum í þessum efnum? Getur verið að uppbygging og almenn skipulagning í umferðarmálum hafi verið ábótavant og umferðarflæði súpi seyðið af því í dag eins og gögn virðast sýna fram á.

Á höfuðborgarsvæðinu jókst umferð í nýliðnum febrúar um 12% miðað við sama mánuð á síðasta ári. Þessi aukning varð til þess að gamla umferðarmetið frá árinu 2019 var slegið um 0,1%. Mest jókst umferð um Vesturlandsveg ofan Ártúnsbrekku eða rúmlega 13%. Þessar tölur tala sínu máli.

Tæplega 9 milljónum klukkustunda var sóað í umferðartafir innan höfuðborgarinnar á árinu 2019 eða um 40 klukkustundum á hvern íbúa höfuðborgarinnar samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins.

Hefur sú tala hækkað verulega á síðustu árum en ferðatími á annatíma hefur lengst um hátt í 50% á fáeinum árum. Fáar ef nokkrar nýfjárfestingar í vegasamgöngum hafa litið dagsins ljós í borginni þrátt fyrir verulega aukningu umferðar og aukna hlutdeild einkabílsins í ferðamátavali.

Krafan um vegabætur verður sífellt háværari en skv. könnun sem gerð var 2019 vilja 43% borgarbúa að stofnbrautakerfið á höfuðborgarsvæðinu verði bætt samanborið við 27% árið 2014. Með skilvirkri ljósastýringu er tryggt að umferðin gangi betur fyrir sig innan þeirra samgöngumannvirkja sem eru til staðar.

Bent er á að arðsemi ljósastýringa á höfuðborgarsvæðinu gæti verið töluverð en það er mat Samtaka iðnaðarins að 15% minnkun í umferðartöfum í höfuðborginni með ljósastýringu muni skila um 80 mö.kr. í ábata fyrir fyrirtæki og heimili á líftíma fjárfestingarinnar. Stofnkostnaður framkvæmdarinnar er 1,5 ma.kr. til samanburðar. Með ljósastýringu má þannig auka lífsgæði borgarbúa og framleiðni fyrirtækja innan borgarmarkanna og byggja stoðir undir hagvöxt framtíðarinnar.

Öllum er ljóst að bættar ljósastýringar geta aukið umferðarflæði og um leið bætt umferðaröryggi til muna. Aðilar sem koma að þessum málum verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma þessum málum í viðunandi ástand, öllum til heilla. Umræðan um bættar ljósastýringar hefur lengi verið í deiglunni. Nú er mál að linni og stjórnvöld verða nú að láta verkin tala.