LATIN HEIMURINN Hvernig kviknaði ástríða þín fyrir suður-amerískri tónlist?
Tómas Dan Jónsson er 35 ára gítarleikari frá Íslandi og Belgíu. Hann hefur búið víðs vegar um heiminn og hafa ferðalög hans mótað hann sem hljóðfæraleikara. Síðustu fimmtán ár eða svo hefur svo latin heimurinn á hug hans og hjarta og hefur hann leitast við að kynna Íslendingum tónlist þeirra. Meðal verk efna sem hann hefur tekið þátt í má nefna Mi Gente, sem var latin tríó skipað, Juan Borges (Kúba) og Margréti Rán. Einnig hefur hann tekið þátt í ýmsum tónleikum þar sem Dagur hinna dauðu er heiðraður ásamt annað hvort Margréti Rán eða Svanlaug Jóhannsdóttur. Hver hvatti þig til að búa til tónlist? Foreldrar mínir segja að ég hafi alltaf haft dálæti á tónlist en mig minnir endilega að það hafi verið „Red Hot Chili Peppers“ sem urðu til þess að ég fór að æfa gítar. Síðan þá hef ég ekki horft til baka og það er varla stund sem ég man eftir án gítars.
Þegar ég er 18 ára þá fer ég út sem skiptinemi til Ekvador og þar sem tónlist var lífið mitt þá fór ég út í bókasafn Hafnarfjarðar og leitaði að suður amerískri tónlist en fann svo sem lítið annað en Salsa. Tómas R. Einarsson hafði líka nýverið gefið út Havana diskinn sinn og var hann mjög heillandi. En það var í rauninni ekki fyrr en ég lærði að tala spænsku sem latin tónlistarheimurinn opnaðist fyrir mér. Við það opnaðist Carlos Vives fyrir mér, sem var nýbúinn að gefa út diskinn, El rock de mi pueblo (Bæjarrokkið), og hafði sá diskur mikil áhrif á mig. Einnig var Juanes að gefa út Mi Sangre (blóðið mitt) sem innihélt meðal annars „La camisa negra“ á þessum tíma og kunni ég flest öll lögin á þeim disk utan af. Auðvitað voru fleiri söngvarar og tónlistartegundir eins og salsa, cumbia, merengue og auðvitað má ekki gleyma að reggueton var að ryðja sér til rúms og komu lög eins og Gasolina (Daddy Yankee) út þegar ég var úti sem skiptinemi. Í raun má segja að ég hafi haft heppnina með mér þar sem ég fékk að upplifa suður-ameríska tónlist frá mörgum mismunandi sjónarhornum og ég bý að því í dag. Hver er mesti munurinn á íslenskri og suður-amerískri tónlist að þínu mati? Í fyrsta lagi þá verð ég að segja að íslensk tónlist er mjög bókstafleg og við tökum hlutina stundum of alvarlega. Í tónlist frá latín ameríku þá snýst þetta miklu meira um tilfinningar. Kynorkan í tónlist frá latín ameríku er líka miklu meira til staðar. Ég á erfitt með að útskýra það betur en það er oftast auðveldast að sjá muninn á Íslendingum sem dansa Salsa og síðan einhvern frá latín ameríku að dansa það sama. Íslendingurinn mun sýna þér alla snúningana sem hann/hún kann á 1 mínútu á meðan að innfæddur mun dansa með kynorkunni og ef lagið býður upp á snúning þá fær hann mögulega að læðast með.