
1 minute read
Kynning
LAURA DANIELA
K Y N N I N G
Ég heiti Laura Daniela Hurtado og ég er stoltur Kólumbíumaður sem fæddist í Calí, höfuðborg salsadansins. Ellefu ára gömul flutti ég til Íslands með fjölskyldu minni, móður minni og bróður. Þökk sé verkefni Rauða kross Íslands sem gaf okkur tækifæri til að flytja til þessarar fallegu eyju. Það eru 14 ár síðan ég steig fyrst á land á Íslandi og síðan þá hef ég áttað mig á því hversu dýrmæt menning okkar í Suður-Ameríku er. Maturinn, tónlistin, listin, fólkið, veðrið og síðast en ekki síst tungumálið.
Nokkrum dögum eftir komu okkar í Fossvog, þar sem okkar nýja heimilið yrði, fór ég í Fossvogsskóla þar sem börnin og kennararnir tóku á móti mér með mikilli ást og væntumþykju. Það var mjög erfitt að geta hvorki skilið þau né tjáð mig en það kom ekki í veg fyrir að ég lærði tungumálið. Það var erfitt en án efa hef ég lært það með mikilli virðingu og þakklæti í garð íslensku þjóðarinnar. Réttarsholtskóli, Menntaskólinn í Kópavogi og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hafa verið mitt skólaferðalag þar sem ég hef lært mikið af dvöl minni í hverjum og einum skóla. Ég var mjög óákveðin í hvað ég vildi læra en vildi þó gera eitthvað þar sem ég gæti nýtt hugmyndir mínar og sköpunargáfu. Ég hóf því nám við Tækniskólann vorið 2020.
Í náminu lærði ég grunninn að grafískri miðlun, m.a. uppsetningu texta, myndvinnslu, týpógrafíu og hönnun. Allt er þetta kunnátta sem ég veit að mun nýtast mér vel í áframhaldandi námi og starfi síðar meir.
Nú er náminu mínu að ljúka og nýir tímar taka við og er ég tilbúin fyrir allt sem koma skal.
Ljósmynd: unsplash.com