Skíðamaður á Birnudalstindi 2020
Texti: Tómas Guðbjartsson. Myndir: Ólafur Már Björnsson.
Frábær fjallaskíðatindur Birnudalstindur er með skemmtilegri tindum íslenskum, hvort sem ferðast er á tveimur jafnfljótum eða á fjallaskíðum. Hann telst ekki til hæstu tinda á Íslandi, tæpir 1400 metrar, en einstak útlit og magnað tindaumhverfi bæta upp hæðina. Fáir tindar á Íslandi bjóða upp á annað eins útsýni og Birnudalstindur og brekkurnar ofan af honum eru einhverjar bestu fjallaskíðabrekkur landsins. Ekki er verra að nokkrar miskrefjandi leiðir eru í boði upp og niður af tindinum. Hér segir Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir og fjallageit frá helstu göngu- og fjallaskíðaleiðum á þennan magnaða tind sem hann hefur margsinnis toppað gangandi og á fjallaskíðum. Birnudalstindur er einn fjölmargra tinda í sunnanverðum Vatnajökli, nánar tiltekið í Kálfafellsfjöllum upp af Suðursveit. Tindurinn er 1396 m hár og úr suðri minnir hann á sökkvandi skip, líkt og skuturinn á Titanic stingist í hvítan sæ Vatnajökuls. En það er ekki aðeins tindurinn og klettabeltið neðan hans sem vekja athygli því í næsta nágrenni hans er ógrynni tilkomumikilla tinda, m.a. bræður hans Kaldárnúpur (1406 m) og Þverártindsegg (1544 m). Landslagið minnir óneitanlega á Alpana, enda sundurskornir dalir Kálfafellsfjalla einhverjir þeir hrikalegustu sem fyrirfinnast á Íslandi. Skriðjöklar steypast niður snarbrattar hlíðar og í dalbotnum tekur við net jökulfljóta sem minna á kransæðar í mannshjarta. Þekktastur er Kálfafellsdalur og inn af honum
6 Embla
Þverártindsegg, sem er einhver skemmtilegasta jöklaganga hérlendis og skartar skriðjökli á miðri leið sem heitir því skemmtilega en viðeigandi nafni Skrekkur. Austan við Kálfafellsdal er opnari en ekki síður fallegur dalur, Staðardalur. Inn af honum til vesturs tekur við Birnudalur, sem ekki lætur mikið yfir sér í fyrstu. En þegar komið er inn fyrir mynni Birnudals opnast fjallaleikhús með einhverri mögnuðustu fjallasýningu sem í boði er á Íslandi. Best er að leggja til atlögu við Birnudalstind að vori til eða snemmsumars þegar snjór hylur brekkur sem annars geta verið lausar og erfiðar uppgöngu. Það tekur tæplega 5 klst. að aka úr höfuðborginni í Suðursveit en þar bjóðast margir spennandi gististaðir. Bæirnir Hali og Gerði liggja niður að sjó og bjóða upp á einstakt útsýni til vesturs að Öræfajökli. „Skyndilega blasir Birnudalstindur við í öllu sínu veldi og langar snjóbrekkur suður af honum.“ Ekið er að Kálfafellsstaðarkirkju sem staðsett er milli Kálfafells- og Staðardals. Frá henni er rúmlega 4 km ganga á jafnsléttu inn að mynni Birnudals og er fylgt jeppavegi. Hægt er að semja við landeigendur og keyra þennan jeppaslóða sem styttir gönguna um samtals 8 km. Haldið er upp stöllóttar hlíðar sunnan megin Birnudalsár og eru tilkomumiklir fossar á hægri hönd. Smám saman minnkar brattinn og þá er lag að koma sér yfir Birnudalsánna sem oftast má stikla á