
2 minute read
Í örfáum orðum
Eftir að hafa verið fyrst nemandi hér fyrir löngu er ánægjulegt að mæta hingað aftur og læra nýja iðn. Fyrir aldarfjórðungi lauk ég sveinsprófi í ljósmyndun og lífið hefur tekið margar og stundum óvæntar stefnur síðan.
Ég hef verið búsett erlendis um árabil og það hefur verið sérstakt að koma nú til Íslands, í miðjum heimsfaraldri, og setjast aftur á skólabekk. Það var sérlega ánægjulegt að mæta til leiks‚ í gamla Stýrimannaskólann, byggingu sem ég hef alltaf verið hrifin af. Þetta er tignarlegt og fallegt hús með afar fjölbreyttu og fallegu útsýni. Ég starfaði lengi hjá Stöð 2 í Skaftahlíð og var með barn í Ísaksskóla og að vissu leyti finnst mér ég vera hér á heimaslóðum því héðan úr Hlíðunum á ég margar góðar minningar og þekki svæðið vel.
Þegar ég hóf störf í fjölmiðlum þurfti ég að leggja ljósmyndunina til hliðar þangað til ég fór að vinna við útgáfu og myndvinnslu fyrir nokkrum árum. En þegar ég var nemi í ljósmyndun voru enn einhver ár í að stafræna formið liti dagsins ljós. Allt var tekið á filmur og framkallað í myrkrakompunni þar sem beðið var með eftirvæntingu eftir að töfrarnir spruttu fram. Eftir því sem hönnunarverkefnin urðu fleiri hjá mér og flóknari, fann ég síðan að þekking mín á helstu Adobe forritum var ekki upp á marga fiska. Það var því happafengur fyrir mig að lífsins ferðalag leiddi mig á endanum í kennslustundir í grafískri miðlun. Í Tækniskólanum er fagfólk að störfum sem býr yfir mikilli og góðri þekkingu í faginu. Við mannfólkið þurfum nefnilega að uppfæra þekkingu okkar rétt eins og við uppfærum tækjabúnaðinn og forritin sem við notum. Lífið tekur breytingum og við vitum sjaldnast hvert það leiðir okkur.

Sjálf er ég þannig úr garði gerð að ég sit sjaldan auðum höndum. Yfirleitt hef ég nokkur járn í eldinum og oftar en ekki finn ég mig í listsköpun. Hér á síðunni er hluti af safni abstrakt ljósmynda sem ég tók á skrifstofunni minni þegar útgöngubann stóð yfir. Það var mín leið til að iðka núvitund. Að beina myndavél símans að skuggum og sólarljósi dagsbirtunnar. Eins hef ég vott af söfnunaráráttu en til allrar lukku er þar ekki um veraldlega hluti að ræða, heldur lén og Instagram reikninga. Ég hef fyllt kvótann af Instagram reikningum og þann nýjasta þurfti ég að gera í nafni annars þar sem kvótinn minn var sprengdur: #kamalaquotes hefur því miður legið í dvala þar sem ég hef verið svo upptekin í náminu. Eftir útskrift verður því fyrsta verkefnið á to-do listanum að blása í lífi í instagramið um Kamala Harris, varaforseta Bandaríkjanna.