Page 1

HREINSUN Sofi Oksanen


Sofi Oksanen

Hreinsun Leikstjórn: Stefán Jónsson Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir Búningar: Þórunn María Jónsdóttir Lýsing: Halldór Örn Óskarsson Tónlist: Paul Corley Þýðing: Sigurður Karlsson Sýningarstjóri: Þórunn Geirsdóttir Aðstoðarmaður leikstjóra: Hilmir Jensson Hljóðstjórn: Kristinn Gauti Einarsson Leikmunir, yfirumsjón: Trygve J. Eliassen Förðun, yfirumsjón: Ingibjörg G. Huldarsdóttir, Valdís Karen Smáradóttir Hárgreiðsla, yfirumsjón: Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir, Þóra Benediktsdóttir Búningar, yfirumsjón: Berglind Einarsdóttir Stóra sviðið, yfirumsjón: Einar Hermann Einarsson Leikmyndarsmíði og málun: Verkstæðið ehf.

Þjóðleikhúsið 2011–2012, 63. leikár, 12. viðfangsefni Frumsýning á Stóra sviðinu 27. október 2011


„Barátta mannsins við valdið er barátta minnisins við gleymskuna“ milan kundera


Margrét Helga Jóhannsdóttir Aliide Truu, eldri

Vigdís Hrefna Pálsdóttir Aliide Truu, yngri

Arnbjörg Hlíf Valsdóttir Zara

Stefán Hallur Stefánsson Hans Pekk, maður Ingelar

Þorsteinn Bachmann Martin Truu, maður Aliide, flokkserindreki

Ólafur Egill Egilsson Pasha, rússneskur mafíósi / hermaður

Pálmi Gestsson Lavrenti, fyrrverandi KGB-foringi, núverandi mafíósi / hermaður Rödd Ingelar Pekk, systur Aliide: Lára Sveinsdóttir Rödd viðskiptavinar: Þorsteinn Bachmann Linda Truu í skuggamynd: Þórunn Arna Kristjánsdóttir Verkið gerist í Eistlandi 1949–1953 og síðsumars árið 1992.


SOFI OKSANEN Verkið fjallar öðrum þræði um átök austurs og vesturs, og stöðu kvenna í þessum löndum á 20. öld. Oksanen var tilnefnd til hinna virtu Runeberg bókmenntaverðlauna fyrir verkið, en það kemur út nú í haust hjá Máli og menningu í þýðingu Sigurðar Karlssonar. Næsta skáldsaga Oksanen var Baby Jane (2005). Bókin segir frá ástarþríhyrningi þriggja ungra kvenna, en hún fjallar meðal annars um kvíðaraskanir og geðræn vandamál, og spurningar um notkun geðlyfja.

Sofi Oksanen fæddist árið 1977 í Jyväskylä í Finnlandi, en faðir hennar er finnskur og móðir hennar er frá Eistlandi. Hún nam bókmenntir við háskólana í Jyväskylä og Helsinki og leikhúsfræði við Leiklistarháskólann í Helsinki. Hún hefur sent frá sér þrjár skáldsögur, en þeirra þekktust er Hreinsun, sem hún byggði á samnefndu leikriti sínu. Oksanen tekur virkan þátt í samfélagsumræðu í Finnlandi, meðal annars með greinaskrifum í blöð og þátttöku í umræðuþáttum í sjónvarpi. Fyrsta skáldsaga Oksanen, Kýr Stalíns (Stalinin lehmät, 2003), vakti mikla athygli og umtal. Sagan gerist í Finnlandi og Eistlandi og segir frá þremur konum af ólíkum kynslóðum, ömmu, móður og dóttur, en örlög þeirra eru mótuð af stríði, stjórnmálum og ástinni.

Leikrit Oksanen Hreinsun (Puhdistus) var frumflutt í Finnska þjóðleikhúsinu árið 2007 og hlaut frábærar viðtökur. Verkið hefur verið sýnt víða um Finnland og í Eistlandi, og verður frumsýnt á þessu leikári í Svíþjóð, Bandaríkjunum, Litháen, Færeyjum, Frakklandi, Portúgal, Ungverjalandi, Bretlandi, Þýskalandi og á Spáni. Persónur verksins héldu áfram að leita á höfundinn eftir að hún samdi leikritið, og úr varð að hún skrifaði skáldsögu byggða á því, en bókin kom út árið 2008. Skáldsagan sló samstundis í gegn, hlaut afbragðsviðtökur gagnrýnenda og varð metsölubók í Finnlandi og seldist í yfir 170.000 eintökum. Sofi Oksanen hefur hlotið fjölda eftirsóttra verðlauna fyrir Hreinsun og má þar nefna Finlandiaverðlaunin, sem eru helstu bókmenntaverðlaun Finna, og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2010. Hreinsun hlaut FNAC bókmenntaverðlaunin í Frakklandi árið 2010,


en verðlaunin höfðu ekki áður verið veitt erlendum höfundi. Bókin hlaut jafnframt Prix Femina verðlaunin fyrir erlent bókmenntaverk í Frakklandi árið 2010 og Evrópsku bókmenntaverðlaunin árið 2010. Skáldsagan Hreinsun hefur verið þýdd á 38 tungumál. Í undirbúningi er kvikmynd byggð á verkinu í leikstjórn Antti Jokinen og í vor verður ný ópera eftir Jüri Reinvere byggð á verkinu frumsýnd í Finnsku þjóðaróperunni. Hreinsun kom út á Íslandi hjá Máli og menningu í þýðingu Sigurðar Karlssonar árið 2010. Ásamt Imbi Paju ritstýrði Sofi Oksanen greinasafninu Fear Was Behind Everything (2009), þar sem fjallað er um örlög Eistlands á 20. öld og í upphafi þeirrar 21., hernám nasista, tímann sem landið var undir stjórn Sovétríkjanna og kúgun í alræðisríkjum. Sofi Oksanen hefur frá árinu 2008 starfað með tónlistarkonunni Maija Kaunismaa, en þá frömdu þær femínískan tónlistargjörning í Koko-leikhúsinu í Finnlandi, sem naut mikilla vinsælda. Á þessu ári sendu þær frá sér plötuna Liian lyhyt hame – Kertomuksia keittiöstä eða Of stutt pils – sögur úr eldhúsinu, með söngtextum eftir Oksanen og tónlist eftir Kaunismaa. Þær munu koma fram í byrjun næsta árs hjá Finnska þjóðleikhúsinu í Helsinki með ljóðaog tónlistardagskrá þar sem líf konunnar er skoðað og er sjónarhornið eldhúsið. Ný skáldsaga eftir Sofi Oksanen er væntanleg á næsta ári.


Gúlagið um miðja 20. öldina, Bosnía 1992 ...


Meðal verka sem leikhópurinn kynnti sér við undirbúning sýningarinnar er bókin Memories Denied eftir Imbi Paju og samnefnd heimildamynd. Bók þessi hafði mikil áhrif á Sofi Oksanen við ritun Hreinsunar en í henni fjallar Imbi Paju um hernám Eistlands og ógnarstjórn Sovétríkjanna, og lýsir því hvernig móðir hennar var tekin til fanga af hernámsliði Sovétmanna og send í gúlag-fangabúðir. Bókin dregur upp áhrifamikla mynd af því hvernig valdhafar í alræðisríkjum leitast við að tryggja vald sitt með því að reyna að uppræta minningar, koma í veg fyrir mannlega nánd og slíta náin fjölskyldubönd. Af öðrum verkum sem leikhópurinn kynnti sér sérstaklega má nefna S.: A novel about the Balkans eftir Slavenku Drakulic´. Sú bók er söguleg skáldsaga sem gerist í Bosníu árið 1992 og fjallar um hvernig skipulagðar nauðganir og pyntingar á konum voru notaðar í stríðsátökunum á Balkanskaga. Verkið segir sögu bosnískrar konu sem er nauðgað ítrekað af serbneskum hermönnum í fangabúðum, verður ófrísk og elur barn.

Hér á eftir fylgja fáein brot úr Memories Denied eftir Imbi Paju. „Breski siðfræðingurinn Jonathan Glover segir í Humanity: A Moral History of the Twentieth Century að með því að halda lífi í fortíðinni getum við komið í veg fyrir að skelfilegir atburðir endurtaki sig. (...) Í ræðu sem Hitler hélt yfir SS-hermönnum sem voru á leið til Póllands, skipaði hann þeim að drepa miskunnarlaust menn, konur og börn. Hann gaf í skyn að þær gjörðir myndu um síðir gleymast: „Hver man lengur eftir þjóðarmorðinu á Armenum?“ Þetta er sláandi líkt ummælum Stalíns þegar hann undirritaði aftökuskipun: „Hver á eftir að muna eftir öllum þessum skríl eftir tíu eða tuttugu ár? Enginn!

Hver man nöfn rússnesku aðalsmannanna sem Ívan grimmi losaði sig við? Enginn!“ „Í sovéska kerfinu gat „glæpamaður“ verið venjuleg húsmóðir, strákur eða stelpa eins og móðir mín og tvíburasystir hennar, hver sá sem var fulltrúi gamla samfélagsins, einkum samfélags fólksins sem bjó í sveitum landsins og lifði lífi sínu á íhaldssaman og náttúrulegan hátt í samræmi við hefðir sem voru framandi hinu sovéska skipulagi og ekki í þess anda.“ „Í hvert sinn sem alræðisstjórn magnar svo upp hið myrka í manneskjunni að það nær yfirhöndinni þá mun hún gera hvað sem er til að afmá öll ummerki um að lífið hafi verið betra áður fyrr. Þess vegna er sögunni sem sögð er í þessari bók ætlað að vera skjal sem kortleggur minnið, það minni sem er virkjað af frelsislöngun, þess háttar trú á hugsjónir sem getur af sér byltingar og listaverk, bækur og kvikmyndir – einlægum tilfinningum sem eru uppspretta lífsorku, og setja mark sitt á undirvitund mannsins. Jafnvel þegar svo virðist sem allt hafi endanlega horfið inn í þögn, þá eru þessar tilfinningar þarna enn, eru til staðar eins og í draumi og opinberast svo á endanum, þegar tækifæri gefst, afkomendum þeirra sem komust af, til að raða óreiðu fortíðarinnar í samhengi, með aðstoð minnisins.“ „Þessi saga fékk mig til að velta því fyrir mér hvað gerist þegar samfélagslegt ofbeldi tekur á sig mynd heimilisofbeldis, lamar tilfinningar eins og hluttekningu, tillitssemi við annað fólk, siðferði, traust, umburðarlyndi og hugrekki. Um leið og þess háttar ofbeldi verður hluti af veröld manneskju, þá er henni ýtt út á barm hyldýpis líkt og hún væri stödd á milli tveggja heimsálfa þar sem önnur er umlukin myrkri, hin böðuð ljósi. Hún verður að velja á milli eða falla í hyldýpið.“


Líka á Íslandi Brot úr skýrslu eftir Fríðu Rós Valdimarsdóttur: „Líka á Íslandi – Rannsókn á eðli og umfangi mansals“, sem unnin var fyrir Rauða kross Íslands á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum árið 2009 og er að finna á jafnretti.is „Fórnarlamb er einstaklingur sem hefur fá eða engin úrræði til að komast út úr aðstæðum hjálparlaust. Erfitt getur verið fyrir þá sem ekki hafa reynt það, að skilja af hverju einstaklingur tekur ekki málin í sínar hendur og kemur sér af sjálfsdáðum burt úr kúgandi aðstæðum. Hafa þarf í huga að aðferðir geranda mansals tryggja á marga vegu þagmælsku og hlýðni. Vald gerandans er oftar en ekki svo sterkt að hann getur skilgreint gildi allrar þjónustu sem þolandi veitir og aðstæðurnar í heild. Gerandinn skilgreinir húsaleigu, leigu á vinnufatnaði, verð á kynmökum ef um vændi er að ræða, greiðslu fyrir afnot af vinnusvæði og svo framvegis. Farmiðinn er í flestum, ef ekki öllum, tilfellum greiddur af geranda og er endurgjald fyrir hann einnig ákvarðað af geranda. Fórnarlömb lenda einnig oft í að skulda erlendum milliliðum. Einnig eru fórnarlömb sektuð af geranda ef þau hegða sér ekki í samræmi við reglur hans sem oft eru vísvitandi óljósar. Í skjóli þessa valds getur gerandinn haft algjört fjárhagslegt taumhald á fórnarlambi; hann getur komið í veg fyrir að þolandi afli sér fjár að einhverju marki og steypt honum í skuldir og tilbúnar skuldir. Viðmælandi lýsti á eftirfarandi hátt hvaða viðmót manneskja fær sem vill komast út úr mansalsaðstæðum:

„Þá var bara sagt við þær: „Þú skuldar mér svona og svona mikið og þú verður að halda áfram“. Það er nánast ófrávíkjanleg regla að það er auðvelt að byrja að stunda [vændi] en fjandanum erfiðara að komast út úr því. Þú vilt hætta og segir: „Ég segi upp hérna með þriggja mánaða fyrirvara“. En þú færð: „Nei, þú getur það ekki“. Ef ekki er búið að hafa full not af þér og einstaklingur er með þig undir hælnum og getur stjórnað þér á hvaða hátt sem er, þá mun hann ekki sleppa þér til að fara að leita uppi einhverja aðra konu, annað fórnarlamb sem hann þarf svo að brjóta niður.“ Gerendur mansals beita fyrir sig hótunum til að halda þolanda við efnið. Ofbeldi er notað í þeim tilgangi að kúga og er þá átt við líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi. Einnig eru dæmi þess að gerandi hóti að meiða nánustu skyldmenni þolanda; s.s. barn, foreldri eða systkini. Þá er þekkt að þeim sem hafa verið í vændi, klámi eða strippi sé hótað að birtar verði myndir af þeim við iðju sína, fari þær ekki að vilja geranda. Öll fórnarlömb mansals í kynlífsiðnaði sem leitað hafa sér aðstoðar hjá viðmælendunum lifa tvöföldu lífi. Með því er átt við að þær segja sínum nánustu að þær starfi við annað vegna þeirrar skammar sem hvílir á vændi og strippi. Mannorði og samfélagsstöðu fórnarlamba stendur því raunveruleg ógn af afhjúpun.“ Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands.


Bann við kaupum á vændi skili litlu Frétt á vef RÚV, 5. október 2011: Fyrrverandi vændiskaupandi segir að ef vilji væri fyrir hendi væri hægt að uppræta vændi á Íslandi. Hann segir að bann við kaupum á vændi skili litlum árangri. Maðurinn stundaði vændiskaup um nokkurra ára skeið og sagði sögu sína í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í dag. Hann segir lítið mál að verða sér út um vændiskonu hér á landi, þær sé helst að finna á einkamál.is. Hann segir flestar konurnar útlenskar og að aðbúnaður þeirra sé ömurlegur. „Þetta voru herbergi sem voru greinilega leigð í þessum eina tilgangi. Oft á tíðum voru þar engin húsgögn. Í einu tilviki var ekkert nema dýna,“ segir hann. Maðurinn segist ekki hafa spáð mikið í því þegar hann stundaði viðskiptin hvaða aðstöðu konurnar voru í eða af hverju þær voru að þessu. „Hins vegar eftir á að hyggja þá var þetta mjög augljóst, það var bara hreint þrælahald í gangi.“ Ný vændislöggjöf var samþykkt á Alþingi árið 2009 sem bannar vændiskaup en ekki sölu. Viðmælandi fréttastofu RÚV segist samþykkur þeirri hugsun sem liggi löggjöfinni að baki en bannið breyti þó litlu. „Ég held að vændi minnki ekkert. Hvað mig varðar, þá var ég ekkert síður hræddur við að vera gripinn. Skömmin sem fylgir því að vera gripinn við vændiskaup er sú sama hvort sem þú ert í rétti eða órétti,“ segir hann. Maðurinn segir að á þessu tímabili í lífi sínu hafi hann verið í mikilli neyslu. Hann sjái nú samhengi hlutanna í nýju ljósi. „Að maður skuli yfirhöfuð lifa í samfélagi sem leyfir þetta. Og samfélagið gerir það. Við horfum á blöðin í dag, við horfum á smáauglýsingar í Fréttablaðinu. Sami fjölmiðill rekur einkamál.is sem er helsti vettvangur vændissala – og þá er ég að tala um hórmangarana – til að koma sinni vöru eða þessum stúlkum á framfæri. Ef það væri raunverulegur vilji til að stöðva vændi á Íslandi þá væri það gert.“ Birt með leyfi Fréttastofu RÚV.


Margrét Helga Jóhannsdóttir útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1967. Hún hefur komið víða við í leiklistinni, leikið í dramatískum verkum, gamanleikjum, barnaleikritum, einleikjum og söngleikjum. Margrét lék í upphafi ferils síns nokkur hlutverk hjá Þjóðleikhúsinu, meðal annars ekkjuna í Zorba árið 1971. Samhliða því starfaði hún með Leiksmiðjunni og lék þar meðal annars Steinunni í Galdra-Lofti. Árið 1984 lék hún í Ertu nú ánægð kerling? sem sýnt var 80 sinnum í Leikhúskjallaranum. Árið 1972 flutti Margrét sig yfir til Leikfélags Reykjavíkur og í sýningum þess hefur hún farið með fjölda eftirminnilegra hlutverka. Meðal verka sem hún hefur leikið í hjá Leikfélaginu eru Atómstöðin (þar sem hún fór með hlutverk Uglu), Saumastofan, Blessað barnalán, Ofvitinn, Land míns föður, Salka Valka, Svartfugl, Straumrof, Gísl, Dagur vonar, einleikurinn Sigrún Ástrós, Elín Helena, Djöflarnir, Ljón í síðbuxum, Chicago, Öndvegiskonur, Fegurðardrottningin frá Línakri, Abigail heldur partí, einleikurinn Óskar og bleikklædda konan og Fjölskyldan. Margrét hefur áður leikið í uppfærslum Stefáns Jónssonar á leikritunum Héra Hérasyni, Sekt er kennd og Terrorisma hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Hún hefur leikið í ótal útvarpsleikritum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, nú síðast í Eldfjalli og Heimsenda. Margrét hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín, en hún hlaut meðal annars Grímuverðlaunin fyrir leik sinn í leikritinu Fjölskyldunni og Edduverðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Englum alheimsins. Hún var útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2004. Í Hreinsun snýr Margrét aftur á Stóra svið Þjóðleikhússins eftir fjörutíu ára hlé, og býður leikhúsið hana velkomna til starfa að nýju.


Arnbjörg Hlíf Valsdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2002. Hér í Þjóðleikhúsinu hefur hún meðal annars leikið í Öllum sonum mínum, Leitinni að jólunum, Frelsi, Dýrunum í Hálsaskógi og Svartri mjólk. Hún lék Ófelíu í Hamlet hjá LA, Sól í söngleiknum Sól og Mána, titilhlutverkið í Ronju Ræningjadóttur og í Gretti í Borgarleikhúsinu. Meðal kvikmynda eru Sumarlandið og 1. apríl. Hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir leik sinn í Frelsi, Svartri mjólk og Öllum sonum mínum, og sem söngvari ársins fyrir Gretti. Hún leikur í Leitinni að jólunum og Vesalingunum hér í vetur. Halldór Örn Óskarsson nam ljósahönnun við The Bristol Old Vic Theatre School í Bretlandi. Hann hefur lýst á fimmta tug sýninga, meðal annars fyrir Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Leikfélag Íslands og LA. Hann er nú fastráðinn við Þjóðleikhúsið, en meðal nýlegra verkefna hans hér eru Svartur hundur prestsins, Lér konungur, Hedda Gabler, Bjart með köflum, Íslandsklukkan, Brennuvargarnir, Hænuungarnir, Utan gátta og Þrettándakvöld. Hann hlaut Grímuna fyrir Ófögru veröld og Utan gátta, og var tilnefndur fyrir Jesus Christ Superstar, Héra Hérason, Íslandsklukkuna og Lé konung. Ilmur Stefánsdóttir útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1995 og lauk mastersnámi frá Goldsmiths College í London 2000. Hún hefur haldið fjölda einka- og samsýninga og lagt stund á gjörningalist hérlendis og erlendis. Hún hefur gert leikmynd, leikmuni og búninga fyrir Leikfélag Reykjavíkur, Þjóðleikhúsið, Nemendaleikhús LHÍ, Vesturport og CommonNonsense. Hér í Þjóðleikhúsinu gerði hún leikmynd fyrir Leg, Baðstofuna, Brennuvargana, Af ástum manns og hrærivélar og Finnska hestinn. Hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir leikmynd í Forðist okkur, Legi og Elsku barni. Ólafur Egill Egilsson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2002 og hefur starfað við fjölda sýninga hjá LR, LA, Þjóðleikhúsinu og Vesturporti. Hann gerði leikgerð af Fólkinu í kjallaranum hjá LR, var meðhöfundur að leikgerð Gerplu og handriti kvikmyndanna Brúðguminn, Brim og Sumarlandið. Hann hlaut Grímuna fyrir leik sinn í Óliver og Svartri mjólk og var tilnefndur fyrir Brim og Fagnað. Hann hlaut Grímuna sem leikskáld ársins ásamt Auði Jónsdóttur fyrir leikgerðina af Fólkinu í kjallaranum. Í vetur leikur hann hér í Heimsljósi, Íslandsklukkunni, Leitinni að jólunum og Bjart með köflum. Pálmi Gestsson lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands 1982. Hann hefur leikið fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LR, í kvikmyndum og sjónvarpi, meðal annars með Spaugstofunni. Meðal nýjustu verkefna hans hér eru Lér konungur, Bjart með köflum, Hænuungarnir, Engisprettur, Hart í bak, Dýrin í Hálsaskógi, Halti Billi og Ríkarður þriðji. Hann lék í Svörtum fugli í Hafnarfjarðarleikhúsinu og Brottnáminu úr kvennabúrinu í Íslensku óperunni. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir leik sinn í Hænuungunum. Hann leikur hér í vetur í Heimsljósi og Bjart með köflum.


Paul Corley er bandarískt tónskáld sem undanfarin ár hefur starfað á Íslandi, í Ástralíu og Indónesíu. Frá árinu 2007 hefur hann starfað með útgáfufyrirtækinu Bedroom Community á Íslandi. Hann hefur starfað við tónlistarforritun, útsetningar og upptökustjórn og komið að vinnslu fjölda ólíkra verkefna, svo sem hljómplatna og sjónvarpsþátta. Tónlist eftir Paul má heyra í kvikmyndinni Sleeping Beauty sem var tilnefnd til Gullpálmans 2011. Framundan er útgáfa á tónlist eftir Paul á vegum Bedroom Community. Hreinsun er fyrsta verkefni hans fyrir leiksvið. Sigurður Karlsson lauk leikaranámi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur 1965. Hann starfaði sem leikari í 40 ár, lengst af hjá Leikfélagi Reykjavíkur, en einnig víðar á Íslandi og í Finnlandi. Hlutverk hans á leiksviði eru um 120 talsins, auk fjölda hlutverka í útvarpi, nokkurra í sjónvarpi og kvikmyndum en hann hefur einnig leikstýrt nokkrum verkum. Undanfarin ár hefur hann einkum fengist við þýðingar bókmennta og annarra ritverka úr finnsku. Hann þýddi meðal annars leikritið Finnska hestinn eftir Sirkku Peltola og skáldsögurnar Hreinsun og Kýr Stalíns eftir Sofi Oksanen. Stefán Hallur Stefánsson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2006. Hann hefur starfað með Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Vesturporti, Vér Morðingjum, Sokkabandinu, ART í Bandaríkjunum og CDN Orleans í Frakklandi. Nýjustu verkefni hans hér eru Lér konungur, Hedda Gabler, Íslandsklukkan og Gerpla. Hann leikstýrir Eftir lokin hjá SuðSuðVestur. Hann hefur leikið í kvikmyndum og sjónvarpi, meðal annars í Pressu, Jóhannesi, Desember, Roklandi og Djúpinu. Hann er stundakennari við leiklistardeild LHÍ. Í vetur leikur hann hér í Heimsljósi og er aðstoðarleikstjóri í Vesalingunum. Stefán Jónsson útskrifaðist úr Guildhall School of Music and Drama 1989. Hann hefur leikið fjölda hlutverka á leiksviði, í kvikmyndum og sjónvarpi. Meðal leikstjórnarverkefna hans eru Hænuungarnir, Túskildingsóperan, Fagnaður, Óhapp, Baðstofan, Leg og Herjólfur er hættur að elska í Þjóðleikhúsinu, Enron, Sporvagninn Girnd, Héri Hérason, Terrorismi og Belgíska Kongó hjá LR og Forðist okkur og Eftirlitsmaðurinn hjá Nemendaleikhúsi LHÍ. Hann gegnir stöðu prófessors við leiklistardeild LHÍ. Hann hlaut Grímuna fyrir leikstjórn á Kvetch og var tilnefndur fyrir leikstjórn á Legi, Sporvagninum Girnd, Héra Hérasyni og Forðist okkur og fyrir leik sinn í Veislunni og Erling.

NKVD var innanríkisþjóðarráðuneyti Sovétríkjanna sem bar ábyrgð á starfsemi lögreglunnar. Í rauninni var því beitt sem tæki til ódæðisverka. Árið 1943 var skilið á milli öryggisstofnana ríkisins og þær nefndar NKGB og SMERS (Smert spionam – dauði fyrir njósnara). Árið 1946 varð NKGB að MGB, NKVD að MVD. Þær voru sameinaðar á ný árið 1953 og endanlega aðskildar 1954 þegar MGB varð að KGB. Í munni fólks hélst þó nafnið NKVD lengi vel og þess vegna er sú nafngift notuð í leikritinu, einnig á þeim tímum þegar hið opinbera nafn var annað. (Úr handriti leikritsins)


Vigdís Hrefna Pálsdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2002 og lauk mastersprófi frá Royal Scottish Academy of Music and Drama í Glasgow. Hún hefur farið með fjölmörg hlutverk í Þjóðleikhúsinu, hjá LA og leikhópum. Meðal nýlegra verkefna hennar hér eru Lér konungur, Allir synir mínir, Hænuungarnir, Oliver, Ástin er diskó lífið er pönk, Macbeth, Sumarljós og Sædýrasafnið. Hún lék einnig meðal annars í Litlu hryllingsbúðinni hjá LA og í Höllu og Kára og Grettissögu í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Hún leikur hér í vetur í Heimsljósi og Vesalingunum. Þorsteinn Bachmann útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1991. Hann hefur leikið á þriðja tug hlutverka á sviði, meðal annars hjá LA, LR og Alþýðuleikhúsinu, og hátt í tuttugu hlutverk í sjónvarpi og kvikmyndum. Hann hefur einnig leikstýrt, kennt leiklist og var leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar um skeið. Hann lék meðal annars í Vefaranum mikla frá Kasmír hjá LA, Pressu 1 og 2 á Stöð 2 og í kvikmyndunum Veðramótum og Eldfjalli. Hann fékk Edduverðlaunin fyrir leik sinn í Óróa. Hreinsun og Heimsljós eru fyrstu verkefni hans við Þjóðleikhúsið og býður leikhúsið hann velkominn til starfa. Þórunn María Jónsdóttir nam fag sitt í Frakklandi og Belgíu, þar sem hún bjó, nam og starfaði í 12 ár. Hún hefur hannað búninga fyrir leikverk, óperur, danssýningar og kvikmyndir. Meðal nýjustu verkefna hennar eru Brennuvargarnir, Ástin er diskó lífið er pönk, Sumarljós og Skilaboðaskjóðan í Þjóðleikhúsinu, Tosca í Íslensku óperunni, Kryddlegin hjörtu og Sól og Máni í Borgarleikhúsinu og Halla og Kári í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Hún er höfundur búninga í kvikmyndunum Dansinum og Mávahlátri, og hlaut Edduverðlaunin fyrir Dansinn. Hún hefur tvisvar verið tilnefnd til Grímunnar.

Hljóðfæraleikur: Antony Payn (aðstoð við hljóðvinnslu), Ben Frost (gítarar), Borgar Magnason (kontrabassi), Cye Wood (lágfiðla), Luke Howard (píanóleikur), Paul Corley (píanóleikur og hljóðvinnsla). Ritstjórn leikskrár: Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Umsjón: Sigurlaug Þorsteinsdóttir. Útlit: PIPAR\TBWA. Ljósmyndir: Eddi. Prentun: Ísafoldarprentsmiðja. Útgefandi: Þjóðleikhúsið. Myndir í leikskrá eru teknar á æfingu og eru því ekki heimild um endanlegt útlit sýningarinnar.

Sýningin tekur tvo klukkutíma og þrjú korter. Eitt hlé. Miðasölusími: 551 1200. Netfang miðasölu: midasala@leikhusid.is Netfang Þjóðleikhússins: leikhusid@leikhusid.is Heimasíða Þjóðleikhússins: www.leikhusid.is Sýningarréttur: Nordiska Aps. Verkið heitir á frummálinu Puhdistus.


HALLDÓR LAX ESS

Heillandi verk um

af einni ástsælustu sögu óbelsskáldsins

Gísladóttir • Jóhannes Haukur Jóhannesson • Lára Sveinsdóttir Gestsson • Stefán Hallur Stefánsson • Svandís Dóra Einarsdóttir • Leikstjóri: Kjartan Ragnarsson

TRYGGÐU ÞÉR SÆTI Í VETUR!

eð tu m Fylgs Facebook rá okku


Hreinsun - leikskra  
Hreinsun - leikskra  

Hrensun - leiskra a flettiformi

Advertisement