Þjóðleikhúsblaðið 2025

Page 1


Leikhús þjóðarinnar í

75 ár!

...og veislan heldur áfram

Verið hjartanlega velkomin í leikhúsið okkar allra

Kæru leikhúsgestir,

Við hlökkum mikið til að hitta ykkur öll á leikárinu og bjóðum í 75 ára afmælisveislu í upphafi leikárs.

Við erum ákaflega stolt af þeim fjölbreytta hópi framúrskarandi leikhúslistafólks sem mun skapa margbreytilegar, metnaðarfullar og heillandi sýningar á næsta leikári. Fremsta leikhúsfólk landsins er í hópi leikara, höfunda og listrænna stjórnenda, um leið og við galopnum dyrnar fyrir ungu og efnilegu leikhúslistafólki sem hefur sjaldan skipað jafn mikilvægan sess. Við höldum áfram að efla tengslin við landsbyggðina og grasrót íslenskrar leiklistar.

Við leggjum áherslu á frumsköpun með því að þróa og sýna fjölda spennandi nýrra verka, eftir höfunda með gerólíkan bakgrunn. Við horfum til framtíðar með nýjum leikhússkóla, skólasýningum fyrir þúsundir barna, leikritahátíð og spennandi leikhúskortum fyrir ungt fólk. Úrval barnasýninga í ár er einstakt, allt frá stórsýningu um sterkustu stelpu í heimi til minni sýninga fyrir yngstu leikhúsgestina, jafnvel þá agnarsmæstu, og fjölskyldurnar geta komið og fyllt hjörtun af jólaandanum.

Við skoðum samfélag okkar úr ýmsum áttum, fjöllum um fjölmenningu, eldhústækjablæti nútímakarlmannsins, miðaldrakrísur, geðheilsu og svo auðvitað ástina. Við höldum á vit sögunnar í glænýjum íslenskum söngleik með einstaklega grípandi lögum, sprengjum formið með nýrri og ferskri endursköpun grískra gullaldarbókmennta, hlæjum okkur máttlaus með spæjurum og útilegufólki, látum söngvana óma allt frá Kjallaranum til Stóra sviðsins og höldum út í vorið á sundfötum í Kassanum.

Í sumar varð langþráður draumur óperuunnenda að veruleika þegar Alþingi samþykkti að stofna óperu en hún verður sjálfstæður hluti Þjóðleikhússins.

Við í leikhúsinu hlökkum til að takast á við þetta nýja spennandi verkefni.

Fögnum saman í allan vetur og hyllum framtíðina!

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri

SALKA - ÁSTIN OG DAUÐINN BLÓMIN Á ÞAKINU
HREIÐRIÐ
SÖNGLEIKURINN KABARETT
RÓT
ÞETTA ER GJÖF
JÓLAGJÖF SKRUGGU
Á RAUÐU LJÓSI
HARRÝ OG HEIMIR

ELTUM VEÐRIÐ

GÆÐABLÓÐ

LÍNA LANGSOKKUR

NÝTT ELDHÚS EFTIR MÁLI

SAKNAÐARILMUR

ÍBÚÐ 10B

ÓRESTEIA

ORMSTUNGA

Veisla í allan vetur með leikhúskorti!

30% afsláttur af þremur eða fleiri sýningum

Veldu þínar sýningar

Ýmis fríðindi fylgja leikhúskortinu, sjá leikhusid.is.

Áminning með SMS berst þér nokkrum dögum fyrir sýningarnar þínar.

Ekkert mál að breyta á vefnum með 24 klst. fyrirvara með því að opna staðfestingarpóst sem sendur er í kjölfar miðakaupa. Verð kortsins fer eftir miðaverði þeirra sýninga sem þú velur. 25 ára og yngri fá enn meiri afslátt eða 50%.

Settu saman þitt leikár á leikhusid.is

Söngur Sirkúslæti Apakettir

UM SÝNINGUNA

Sterkasta

stelpa í heimi lætur ekkert stöðva sig!

Lína er mætt á Stóra sviðið

Þekkir þú hana Sigurlínu Rúllugardínu Nýlendínu

Krúsímundu Efraímsdóttur Langsokk? Það er hún sem er með hest á veröndinni hjá sér, apa á öxlinni og bakar pönnukökur í matinn! Hún býr ein

á Sjónarhóli, á fulla tösku af sjóræningjapeningum og neitar að læra fargnöldrunartöfluna! Hún á ekki í vandræðum með að leika á Glám og Glúm, dansar skottís við frú Prússólín og tekur Adolf sterka í bóndabeygju! Já, allir elska hana Línu Langsokk! Uppátæki hennar eru engu lík!

Lína Langsokkur gleður börn um víða veröld og við bjóðum hana velkomna í Þjóðleikhúsið.

Sprellfjörug ný sýning fyrir prakkara á öllum aldri!

Lína Langsokkur eftir Astrid Lindgren

Leikstjórn

Agnes Wild

Leikgerð: Staffan Götestam

Tónlist: Georg Riedel, Jan Johansson, Anders Berglund

Söngtextar: Astrid Lindgren

Þýðing: Þórarinn Eldjárn

Tónlistarstjórn: Karl Olgeir Olgeirsson

Danshöfundur: Elma Rún Kristinsdóttir

Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson

Búningar: Eva Björg Harðardóttir

Brúðumeistari: Bernd Ogrodnik

Lýsing: Ásta Jónína Arnardóttir, Björn Bergsteinn Guðmundsson

Hljóðhönnun: Brett Smith, Þóroddur Ingvarsson

„Hei sala hó sala hoppsasa!“

Agnes Wild leikstýrði Blómunum á þakinu sem var valin barnasýning ársins á Grímunni 2025. Hún leikstýrir nú á Stóra sviði Þjóðleikhússins í fyrsta sinn.

Leikarar: Birta Sólveig Söring Þórisdóttir, Almar Blær Sigurjónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Jakob Van Oosterhout, Kjartan Darri Kristjánsson, Kristinn Óli Haraldsson, Nick Candy, Oddur Júlíusson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Selma Rán Lima, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og barnahópur.

UM SÝNINGUNA

„Þetta

Spenna

eru ekki bara einhverjar fasteignir. Þetta eru heimili okkar, heimili barnanna okkar. Þetta er okkar líf, allt sem skiptir okkur máli. Okkar griðastaður.“

Húsfélagsfundur verður að vígvelli

Einn eigenda glæsilegs fjölbýlishúss í Reykjavík hefur ákveðið að breyta lúxusíbúð sinni í gistiheimili fyrir tuttugu arabíska hælisleitendur. Aðrir íbúar í húsinu eru mjög hlynntir fjölbreytileika en sætta sig ekki við að reglur húsfélagsins séu fótumtroðnar. Nú reynir á yfirvegun og samstöðu. Og hvar liggja mörk góðmennskunnar?

Marta og Heiðar bjóða nágrönnum sínum heim til að ræða málin yfir góðum ostum og víni. Undir kurteislegu yfirborðinu tekur brátt að glitta í lögmál frumskógarins og notaleg kvöldstund snýst upp í harðvítug átök þar sem villidýrseðlið brýst fram. Við viljum vera góð - en hversu langt erum við tilbúin að ganga?

Íbúð 10B

eftir Ólaf Jóhann Ólafsson

Leikstjórn

Baltasar Kormákur

Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir

Búningar: Sunneva Ása Weisshappel

Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson

Hljóðhönnun: Aron Þór Arnarsson

Baltasar Kormákur og Ólafur Jóhann unnu saman að hinni stórbrotnu kvikmynd Snertingu og leiða nú saman hesta sína að nýju á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Verk þeirra hafa heillað lesendur og áhorfendur um allan heim og sópað að sér verðlaunum.

Frábærlega vel skrifað og spennuþrungið leikrit, sem heldur þér í heljargreipum.

Ögrandi og meinfyndið verk beint úr íslenskum samtíma

Leikarar: Björn Thors, Gísli Örn Garðarsson, Margrét Vilhjálmsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Unnsteinn Manuel Stefánsson, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Saga Garðarsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson.

UM SÝNINGUNA

Mæðgur

Saknaðarilmur

eftir Unni Ösp Stefánsdóttur byggt á bókum

Elísabetar Jökulsdóttur

Leikstjórn

Björn Thors

Leikmynd: Elín Hansdóttir

Búningar: Filippía I. Elísdóttir

Tónlist: Ólöf Arnalds, Skúli Sverrisson

Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson

Hljóðhönnun: Skúli Sverrisson, Aron Þór Arnarsson, Ólöf Arnalds

Sviðshreyfingar: Margrét Bjarnadóttir

4 Grímuverðlaun

Sýning ársins

Leikrit ársins

Leikkona ársins

Tónlist ársins

Morgunblaðið

Heimildin

Sýning ársins sýnd þriðja leikárið í röð

Verkið Saknaðarilmur er nú sýnt þriðja leikárið í röð vegna fjölda áskorana, enda hefur sýningin notið einstæðra vinsælda og snert áhorfendur djúpt. Saknaðarilmur var sigurvegari Grímunnar í fyrra, hlaut verðlaunin sýning ársins, leikrit ársins, leikkona ársins og tónlist ársins. Magnaður efniviður Elísabetar Jökulsdóttur öðlast nýtt líf á leiksviðinu í meðförum sama listræna teymis og skapaði tímamótasýninguna Vertu úlfur.

Einstaklega áhrifamikil sýning, gædd sjónrænum töfrum, um viðkvæm en brýn málefni sem snerta okkur öll.

Þegar fullorðin skáldkona missir móður sína er komið að stóra uppgjörinu. Nú fyrst er hún tilbúin að horfast í augu við erfiða æsku sína, föðurmissi,

geðveikina, ástina og sturlað lífshlaup sitt. Af hverju náðu þessar tvær konur aldrei sambandi, þó að þær hafi deilt öllu lífi sínu og reynt að horfast í augu í gegnum sorgir og sigra? Verkið er áhrifarík saga af lítilli, draumlyndri stúlku sem verður að manísku skáldi, ástföngnum fíkli og stórskemmtilegum sögumanni. Hún er brotin, beitt og brjáluð. Geta áföll gert okkur veik? Erfist þjáning á milli kynslóða?

„...einstakt og magnþrungið leikverk ...dáleiðandi.“ Lestrarklefinn
Verðlaunasýning sem lætur engan ósnortinn!

Leikari: Unnur Ösp Stefánsdóttir.

UM SÝNINGUNA

Blóðþorsti Stórvirki Fjölskylduharmur

„Ég sá Trójuborg falla. Nú sé ég slátraranum slátrað.“

Hefnd kallar á hefnd

Drottningin Klítemnestra hefur engu gleymt. Þegar Agamemnon konungur snýr sigurreifur heim úr tíu ára herferð eru móttökurnar blóði drifnar.

Óresteia er nýtt og einstaklega kraftmikið leikverk eftir Benedict Andrews byggt á sígildum þríleik Æskílosar. Verkið hefur talað með máttugum hætti til mannkynsins, kynslóð eftir kynslóð, og á við okkur óþægilega brýnt erindi í dag.

Benedict Andrews hefur leikstýrt margverðlaunuðum sýningum í mörgum af helstu leikhúsum heims. Sýningar hans í Þjóðleikhúsinu, Ex, Ellen B., Macbeth og Lér konungur, hafa sannarlega slegið í gegn hjá áhorfendum og

Óresteia

eftir Benedict Andrews byggt á þríleik Æskílosar

Leikstjórn

Benedict Andrews

Þýðing: Kristín Eiríksdóttir

Leikmynd: Elín Hansdóttir

Búningar: Filippía I. Elísdóttir

Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson

Tónlist: Bára Gísladóttir

Hljóðhönnun: Aron Þór Arnarsson

hlotið fjölda Grímuverðlauna. Í fyrstu sýningu hans í Kassanum birtast okkur vægðarlaus átök innan fjölskyldu og skelfilegar afleiðingar stríðs og blóðhefnda.

Þjóðleikhúsið teflir fram hópi fimm framúrskarandi leikara sem ögra sjálfum sér á nýjan hátt í krefjandi sviðsetningu. Líkamleg nánd leikaranna, hrá fegurð textans og áhrifamáttur myndmáls og tónlistar bjóða upp á einstaka listræna upplifun.

Margverðlaunaði leikstjórinn Benedict Andrews færir okkur magnþrungið meistaraverk.

Leikarar: Elín Hall, Hilmir Snær Guðnason, Ebba Katrín Finnsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson.

UM SÝNINGUNA

Vitleysa Brekkusöngur

Vinahjón

Eldrauð hláturviðvörun!

Þakið rifnar af húsinu!

Hjólhýsin rúlla aftur inn á Stóra sviðið

Eltum veðrið hefur notið gífurlegra vinsælda og gengið fyrir fullu húsi á Stóra sviðinu í heilt leikár. Bráðfyndinn og óútreiknanlegur leikhópur Þjóðleikhússins skemmtir fullum sal gesta kvöld eftir kvöld og þakið ætlar að rifna af húsinu!

Skrautlegur vinahópur heldur í sína árlegu útilegu, en nú er allt eitthvað svo öfugsnúið. Ekki líður á löngu þar til hin árlega samkoma vinahópsins tekur óvænta og stórvarasama stefnu. Bráðfyndið nýtt verk, samið af mörgum fremstu gamanleikurum þjóðarinnar úr leikhópi Þjóðleikhússins, unnið upp úr missönnum sögum af útilegum á Íslandi þar sem allt fer í steik.

Eltum veðrið eftir leikhópinn

Leikstjórn

Kjartan Darri Kristjánsson og leikhópurinn

Tónlist: Sváfnir Sigurðarson

Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir

Búningar: Þórhildur Sunna Jóhannsdóttir

Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason

Myndbandshönnun: Ásta Jónína Arnardóttir, Kjartan Darri Kristjánsson

Hljóðhönnun: Aron Þór Arnarsson

Hér er unnið með list leikarans og samband hans við áhorfendur af hugmyndaauðgi, fjöri og hæfilegu kæruleysi um leið og þjóðarsálin er skoðuð í spéspegli. Óborganlegar aðstæður sem við þekkjum öll – alltof vel.

Sannkölluð gleðisýning eftir drepfyndinn leikhóp Þjóðleikhússins.

„Smellin

tilsvör, yfirgengileg uppátæki og einstaklingsframtak hins þrælvel skipaða leikhóps, sem öll kunna sitt grín upp á tíu.“ Morgunblaðið

Leikarar: Eygló Hilmarsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Hildur Vala Baldursdóttir, Hilmar Guðjónsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Þröstur Leó Gunnarsson. Höfundar, auk leikhóps: Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Kjartan Darri Kristjánsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir.

Viðtal við Ólíver Þorsteinsson og Hafstein Níelsson, höfunda söngleiksins Ormstungu sem byggður er á Gunnlaugs sögu ormstungu.

Stóri draumurinn að rætast

Það er ekki á hverjum degi sem nýr íslenskur stórsöngleikur eftir unga höfunda er sýndur á Stóra sviði Þjóðleikhússins. En þannig vildi til að útsendarar Þjóðleikhússins sáu vorið 2024 nemendasýningu á söngleiknum Ormstungu eftir Hafstein Níelsson og Ólíver Þorsteinsson í Listaháskóla Íslands. Eftir það var ekki aftur snúið. Gunnlaugur ormstunga kvað sig inn í hjörtu viðstaddra og Þjóðleikhúsið keypti verkið. Höfundar eru í óða önn að þróa verkið áfram þegar þeir hitta dramatúrga Þjóðleikhússins á Kristalsal leikhússins.

Eins og að stökkva út í djúpu laugina „Við kynntumst þegar við vorum að vinna á leikskóla,“ segir Ólíver um atvikin sem leiddu þá Hafstein saman. „Þetta var eins og í rómantískri gamanmynd, ég sat á kaffistofunni og var að lesa í bók, leit upp og sá Hafstein ganga inn.“ Áhugi þeirra beggja á ofurhetjum og epískum skáldverkum leiddi þá saman, og þar má ef til vill greina frjóanga Ormstungu. Samstarf þeirra hófst hins vegar þegar þeir sömdu skemmtiefni fyrir árshátíð starfsfólks á leikskólanum Kópahvoli.

Hafsteinn hefur verið viðloðandi leiklist frá því að hann man fyrst eftir sér. Amma hans, Ása Helga Ragnarsdóttir leikkona, vakti hjá honum ungum áhuga á leiklist og sem barn samdi hann sögur og leikrit, og lék af mikilli innlifun drauga og prinsessur heima í stofu. Hann útskrifaðist af leiklistarbraut FG, hefur leikið í söngleikjum og sviðsetti sjálfan sig á TikTok undir heitinu Haddi Paddi. Hafsteinn gerði fjórar tilraunir til að komast í leikaranám við LHÍ, en segir að þegar hann hafi hafið nám á sviðshöfundabraut LHÍ hafi hann uppgötvað gleðina af því að semja efni fyrir aðra, og hann er nú kominn á fljúgandi ferð sem höfundur og leikstjóri. Ólíver kemur aftur á móti úr bókmenntaheiminum, hefur samið barnabækur og starfað við bókaútgáfu. Hann segir að það að skrifa Ormstungu hafi verið eins og að „stökkva beint út í djúpu laugina“ í leikritaskrifum. „Ég dýrka söngleiki, en hafði aldrei áður tekið þátt í vinnu í leikhúsi og þetta var spennandi tækifæri til að læra á formið.“

Innblástur frá Hamilton Á tímum kórónuveirunnar rakst Hafsteinn á upptöku af margverðlaunaða stórsöngleiknum Hamilton og heillaðist. Hamilton markaði á sinn hátt vatnaskil í bandarísku söngleikjalífi, bæði með nýstárlegri umfjöllun um bandaríska sögu og því að blanda saman tónlistarstílum eins og hip-hop, jazzi, R&B og melódískum Broadway-söngleikjalögum. Áhrifin á Ormstungu leyna sér ekki. „Helstu áhrifanna gætir í tónlistarstílnum,“ segir Hafsteinn, en hann semur tónlistina í Ormstungu. Söngtextana og söguna semja þeir Ólíver saman. „En það var líka dramatúrgían í tónlistinni sem vakti athygli mína, hvernig tónlistin er notuð til að segja söguna og hvernig leiðarminnum (leitmotif) er beitt. Mér fannst verulega gaman að sjá hvernig þetta nútímalega söngleikjaform var notað til að segja sögur úr fortíðinni.“

Hafsteinn sendi út ákall til fjölda vina sinna á Snapchat þar sem hann spurði hvort einhver væri til í að skrifa með honum nýjan söngleik í anda Hamilton, sem byggður yrði á Íslendingasögu. Ólíver var fyrsti maðurinn til að svara kallinu. „Ég vissi strax að ég væri kominn með rétta samverkamanninn,“ segir Hafsteinn. „Ef Ólíver fær áhuga á einhverju, þá gefur hann sig allan í það. Fyrr en varði var hann búinn að lesa Gunnlaugs sögu ormstungu þrisvar og kominn með beinagrind að söngleiknum.“

Örlagaríkur ástarþríhyrningur Í söngleiknum birtist okkur ungt og metnaðargjarnt skáld sem á sér þann draum að sigra heiminn með skáldskap sínum. „Gunnlaugur finnur hjá sér sterka hvöt til þess að láta í sér heyra og skapa sér nafn. Við tengjum mörg við það,“ segir Hafsteinn um titilpersónu verksins. „Okkur fannst breyska söguhetjan Gunnlaugur spennandi,“ bætir Ólíver við. „Það er svo mikil ólga innra með honum, hann er skapstór og hvatvís. Við vildum líka skoða hvað það er sem getur gert einhvern að hetju. Samband Gunnlaugs við Hrafn er mjög áhugavert og ástarþríhyrningurinn sem þeir mynda með Helgu er frábært dramatískt upplegg.“

Hrafn er ekki síður spennandi persóna en Gunnlaugur. „Við kynnum hann fyrr til sögunnar en gert er í Íslendingasögunni, en í hinu flókna vinsambandi þeirra Hrafns og Gunnlaugs endurspeglast mörg af þemum sögunnar,“ segir Ólíver. „Hvað gerist þegar vinir keppa að því sama, hvaða áhrif hefur afbrýðisemi á vináttuna? Í upphafi stappa þeir félagarnir stálinu hvor í annan en svo breytist allt þegar þeir verða keppinautar og standa andspænis hvor öðrum.“

Helga Þorsteinsdóttir eða Helga hin fagra er sú persóna sem höfundarnir veltu hvað mest fyrir sér við skrifin, enda er saga hennar ekki eins ítarlega skráð á skinnhandrit. „Hún er fyrst og fremst fræg fyrir fegurð sína og sem leiksoppur örlaganna en okkur fannst við finna fyrir því að í henni byggi harðjaxl. Okkur fannst það geta gefið sögunni meiri dýpt að stækka hlutverk hennar. Það er áhugavert að skoða stöðu konunnar á þessum tíma í gegnum Helgu,“ segir Ólíver.

„Fyrst þegar við hittum hópinn vorum við búnir að semja tólf lög en áttum fjórtán eftir,“ segir Hafsteinn. Hann lýsir dauðaþögninni í herberginu þegar þeir deildu þessum upplýsingum með listafólkinu. Fólk skynjaði að það væri að leggja út í áhættusamt og krefjandi ferli á stuttum tíma, en allir voru tilbúnir að leggja sig fram.

„Við tókum góða rispu við skrifin í Vertshúsi í Flatey áður en æfingar hófust,“ segir Ólíver. „Þarna í einangruninni um hávetur lærðum við að vinna vel saman.“ Samvinna þeirra tveggja hefur nú þegar getið af sér annan söngleik, Þorskasögu þar sem saga þorskastríðanna er sögð frá sjónarhorni þorskanna sjálfra, og þeir vinna nú að þriðja söngleik sínum. Sonur Ólívers, Emil Steinn sem nú er tveggja ára, hefur fylgst með samsköpun þeirra félaga allt frá því að hann kom í heiminn og hann syngur nú lögin úr Ormstungu við raust.

Leið eins og Öskubusku

Æfingaferlið í LHÍ var litað óvissu, en fimmtán leikarar, tónlistarstjóri, kórstjóri, danshöfundur, aðstoðarleikstjóri, hljóðmaður og ljósahönnuður lögðust á eitt við að koma verkinu á svið í leikstjórn Hafsteins sjálfs. „Ég sá sýninguna fyrst í heild sinni á aðalæfingu,“ segir Hafsteinn. „Á frumsýningu mætti svo fólk úr öllum áttum, fjölskylda og vinir, en líka þið úr Þjóðleikhúsinu og fleira fólk úr bransanum og eftir frumsýningu leið mér eins og Öskubusku, ég hef aldrei fengið önnur eins viðbrögð.“

„Gunnlaugur finnur hjá sér sterka hvöt til þess að láta í sér heyra og skapa sér nafn.
Við tengjum mörg við það.“

Ormstunga hefur áður ratað á svið í gerólíkri sýningu, þar sem Benedikt Erlingsson og Halldóra Geirharðsdóttir notuðu kómík og trúðatækni til að leika allar persónurnar í verkinu, í hrárri umgjörð. „Ég sá upptöku RÚV af þessari frábæru sýningu,“ segir Hafsteinn, „og sá líka hina geysivinsælu Mr. Skallagrímsson sem unnin var með svipaðri aðferð. Það var frelsandi að sjá hvað unnið var úr Íslendingasögum í þessum sýningum á kómískan og ferskan hátt.“

Dauðaþögn í herberginu Hafsteinn var á öðru ári í sviðshöfundanámi við LHÍ þegar hann réðst í að setja Ormstungu á svið sem verkefni í náminu. Sú hugmynd kann að hljóma óraunhæf, tíminn allt of knappur og fjármunir litlir sem engir. Það varð Hafsteini hins vegar hvatning að árið áður hafði Egill Andrason sett upp söngleik við svipaðar kringumstæður í LHÍ. „Það sem skipti svo sköpum,“ segir Hafsteinn, „var að leikhópurinn var tilbúinn að sigla þessu skipi með okkur af miklu örlæti án þess að vita hvernig eða hvort við næðum landi. Við fengum frábært ungt listafólk í lið með okkur, og það varð okkur mikil hvatning þegar Þuríður Blær Jóhannsdóttir leikkona hafði samband, sagðist hafa heyrt af söngleiknum og vildi fá að vera með!“

Eftir að Þjóðleikhúsið festi kaup á verkinu var það þróað áfram innan veggja hússins, og nú hafa Gísli Örn Garðarsson leikstjóri og Jóhannes Damian R. Patreksson (Jói P.) tónlistarstjóri tekið að sér listræna stjórn uppsetningarinnar. Höfundarnir eru himinlifandi að fá margreynda leikhúskempu eins og Gísla og frjóan tónlistarmann eins og Jóa til að vinna að sviðsetningunni. „Við erum búnir að vinna að þessu verki í fimm ár,“ segir Hafsteinn, „og erum að upplifa það að stóri draumurinn er að rætast.“ „Við erum rosalega spenntir að fylgjast með vinnsluferlinu og sjá útkomuna,“ bætir Ólíver við, „en svo koma þeir dagar að maður saknar þess að vera ekki að grúska í handritinu!“

Verðmæti í menningararfinum

Hafsteinn segir að það sé virkilega spennandi að vinna sem sviðslistamaður á Íslandi um þessar mundir og honum virðist mikil gerjun vera í gangi hvað varðar nýja íslenska söngleiki.

„Minn draumur er að sjá svokallaða samþætta söngleiki (integrated musical) fá byr undir báða vængi í íslensku leikhúsi,“ segir Hafsteinn

„þar sem tónlist, söngur og dans eru samofin frásögninni og koma

ásamt textanum til skila söguþræðinum og þróun persóna. Ég elska þetta land og allar sögurnar okkar, sem eru klárlega margar hverjar góður efniviður í söngleiki.“ Ólíver bætir því við að mikil verðmæti

búi í menningararfi okkar, „og það er alltaf hægt að finna nýjar

leiðir til að blása lífi í hann, ekki síst í leikhúsinu.“

Matthías Tryggvi Haraldsson og Melkorka Tekla Ólafsdóttir tóku viðtalið.

UM SÝNINGUNA

Tónlistarbomba Arfurinn Ástarþríhyrningur

Glænýr og kraftmikill söngleikur þar sem ekkert er gefið eftir

Frægð og frami eða ástin?

Ormstunga er glænýr og ferskur íslenskur söngleikur byggður á Gunnlaugs sögu ormstungu, sígildri sögu sem er í senn spennandi, fyndin og hjartnæm. Höfundarnir eru af yngstu kynslóð leikhúslistafólks og ná með glæsilegum hætti að vinna úr menningararfi okkar í nútímalegu og heillandi formi. Fjölmargir leikarar Þjóðleikhússins koma fram í þessari kraftmiklu sýningu sem margt af okkar færasta leikhúslistafólki tekur þátt í að skapa. Ormstunga er söngleikur fyrir unga sem aldna, með grípandi og fjölbreyttri tónlist.

Ormstunga

eftir Hafstein Níelsson og Ólíver Þorsteinsson

Leikstjórn

Gísli Örn Garðarsson

Tónlist: Hafsteinn Níelsson

Meðhöfundur tónlistar og tónlistarstjórn:

Jóhannes Damian R. Patreksson

Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir

Búningar: María Th. Ólafsdóttir

Lýsing: Garðar Borgþórsson

Hljóðmynd: Þóroddur Ingvarsson, Brett Smith

Gunnlaugur Illugason, Hrafn Önundarson og Helga hin fagra Þorsteinsdóttir mynda einn frægasta ástarþríhyrning fornbókmenntanna.

Of lengi hafa örlögin hrjáð þau en nú fyrir framan áhorfendur fá þau loksins að gera upp sín mál.

Gísli Örn er þekktur fyrir töfrandi sýningar og hér leiðir hann einstakan leikhóp.

Saga um drauma, ástir og ill örlög. Frískleg og kraftmikil endursköpun á íslenskum menningararfi.

Leikarar: Almar Blær Sigurjónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Birta Sólveig Söring Þórisdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Jakob van Oosterhout, Kjartan Darri Kristjánsson, Kristinn Óli Haraldsson, Nick Candy, Oddur Júlíusson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Rán Ragnarsdóttir, Selma Rán Lima, Sigurbjartur Sturla Atlason, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Örn Árnason.

UM SÝNINGUNA

Þetta er gjöf eftir Kolbrúnu Björt

Sigfúsdóttur

Leikstjórn

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir

Þýðing: Friðrika Benónýsdóttir, Kolbrún Björt Sigfúsdóttir Aðstoðarleikstjórn: Hilmar Guðjónsson

Leikmynd og búningar: Guðný Hrund Sigurðardóttir

Tónlist: ROR

Lýsing: Garðar Borgþórsson

Hljóðhönnun: Kristján Sigmundur Einarsson

Gættu að því hvers þú óskar þér

Sóley kemur heim af djamminu um sumarnótt og finnur ókunnugan mann liggjandi meðvitundarlausan við útidyrnar. Hún og faðir hennar ákveða að skjóta skjólshúsi yfir manninn en ekki getur þau órað fyrir afleiðingunum.

Annar maður skýtur upp kollinum, vill þakka feðginunum fyrir hjálpsemina og býður föður Sóleyjar að óska sér einhvers. Hann lofar því að óskin muni rætast, hver sem hún er. Faðirinn eygir loksins von um að geta komið sér upp úr skuldasúpunni. En ekki er allt gull sem glóir.

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir hefur haslað sér völl sem leikskáld og leikstjóri á Bretlandi og víðar allt frá útskrift úr meistaranámi í leikstjórn árið 2013. Leikritið Þetta er gjöf vísar í goðsöguna um Mídas, en hún birtist okkur hér í reykvískum veruleika. Verkið var sýnt hjá hinu rómaða leikhúsi Royal Shakespeare Company 2023 í leikritaröðinni „37 Plays“ og rataði á lista Women’s Prize for Playwriting. Verkið var einnig sýnt hjá Pitlochry Festival Theatre í Skotlandi í sumar.

Ef þú gætir fengið eina ósk uppfyllta, hvers myndirðu óska þér?

Nýtt íslenskt leikrit sem var sýnt hjá Royal Shakespeare Company

Leikari: Katla Þórudóttir Njálsdóttir.

UM SÝNINGUNA

Heimildaleikhús Hráleiki

Svartur húmor

Gæðablóð

eftir Davíð Þór Katrínarson, Jónmund Grétarsson, Unnstein Manuel Stefánsson, Þóru Karítas Árnadóttur og Grétu Kristínu Ómarsdóttur

Leikstjórn Þóra Karítas Árnadóttir

Tónlist: Kristofer Rodriguez Svönuson Leikmynd og búningar: Ingibjörg Jara Sigurðardóttir Lýsing: Ásta Jónína Arnardóttir Hljóðhönnun: Kristján Sigmundur Einarsson

„Mig langar að túristar sjái mig og spyrji: Where is Hallgrímskirkja?“

Ísland er land þitt

Rappari úr Vesturbænum, fyrrum knattspyrnumaður úr Garðabænum og tónlistarmaður úr miðbænum sameina krafta sína á Stóra sviðinu.

UNNSTEINN: Ef ég hefði ekki lent á Íslandi, þá væri ég líklega trukkabílstjóri í Portúgal.

JONNI: Ég væri örugglega male escort í Asíu.

DAVÍÐ: Ég væri dealer í gengi í Noregi.

Listamennirnir Davíð Þór, Jónmundur og Unnsteinn eiga það sameiginlegt að vera rammíslenskir en geta rakið uppruna sinn til tveggja heimsálfa. Í einlægum og hispurslausum könnunarleiðangri um sjálfið sviðsetja þeir sprenghlægileg og grafalvarleg atvik úr eigin lífi sem afhjúpa samfélagið á nýstárlegan hátt.

„Ef þú ætlar að lifa af sem litaður Íslendingur, þá þýðir ekkert að ætla að lifa bara venjulegu lífi.“

Leikarar: Davíð Þór Katrínarson, Jónmundur Grétarsson, Unnsteinn Manuel Stefánsson. Gréta Kristín Ómarsdóttir tók þátt í þróun verksins og fyrri hluta handritaskrifa.

UM SÝNINGUNA

Eldhústækjablæti

Nútímakarlmaðurinn

Húmor

Nýtt eldhús eftir máli eftir Friðgeir Einarsson

Leikstjórn Björn Thors

Leikmynd og búningar: Filippía I. Elísdóttir

Sviðshreyfingar: Margrét Bjarnadóttir

Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson

Gáskafullur könnunarleiðangur um íslenskan hversdagsleika

Draumaeldhúsið er dýru verði keypt

Daníel á sér draum um nýja eldhúsinnréttingu en þarf að yfirstíga margar hindranir til að hann rætist. Kona Daníels, Soffía, er honum ósammála um útfærslu framkvæmdarinnar, auk þess sem Daníel gleymir sér löngum stundum yfir kynórum um starfsfólk innréttingabúða. Og ekki bætir úr skák þegar búsáhöldin lifna við og leggja orð í belg. Það er reyndar ekkert að gömlu innréttingunni – hún er bara ljót. En það hangir mikið á spýtunni: hjónabandið, karlmennskan og tilveran öll.

Sýn Friðgeirs Einarssonar á hversdagsleikann er í senn næm, nöpur og fyndin. Hann hefur komið víða við í íslensku leikhúslífi síðustu ár, sem leikskáld, leikari og einn af meðlimum leikhópsins Kriðpleirs. Hann hefur sannað sig sem einn fremsti sviðslistamaður sinnar kynslóðar með sýningum á borð við Club Romantica.

Nýtt eldhús eftir máli er fyrsta leikritið sem Friðgeir skrifar fyrir leikhóp Þjóðleikhússins.

Það var flutt á leikritahátíð Þjóðleikhússins Gula dreglinum á liðnu vori. Björn Thors leikstýrði

Grímusýningu ársins í fyrra, Saknaðarilmi.

Stórskemmtilegt verk um hjónabandið, verkaskiptingu á heimilinu og karlmennsku á 21. öldinni

„Mig dreymdi í nótt að nýja eldhúsinnréttingin væri komin.“

Leikarar: Hilmar Guðjónsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Ingi Þór Þórhallsson, Salka Gústafsdóttir.

UM SÝNINGUNA

Spæjarar Sprell Félagar

Harrý og Heimir

- Morð skulu standa eftir Karl Ágúst Úlfsson, Sigurð Sigurjónsson, Örn Árnason

Ég er að spögulera…

Harrý og Heimir snúa aftur í glænýrri sýningu, stútfullir af grunsemdum!

Það var seint um kvöld. Afar seint um kvöld. Reyndar svo seint að það var orðið snemma morguns. Harrý Rögnvalds einkaspæjari

sat á skrifstofu sinni ásamt Heimi Schnitzel, hundtryggum aðstoðarmanni sínum. (Voff voff voff). Þetta var reyndar ekki í fyrsta sinn sem Harrý og Heimir sátu saman með brakandi heilasellur.

– „Getur verið að við fáumst næst við glæpamál í Þjóðleikhúskjallaranum?“ spurði Heimir.

– „Það gæti hugsast, það fer eftir ýmsu,“ svaraði Harrý.

– „Ertu ekki að meina að það gæti spögulerast?“

– „Þegiðu, Heimir.“

– „Alveg vissi ég að þú myndir segja þetta, Harrý,“ sagði Heimir.

Nú eru liðin 16 ár síðan Harrý og Heimir ruddust fyrst upp á leiksvið með sýninguna Með öðrum morðum sem naut gífurlegra vinsælda. Áður höfðu þeir smogið inn í hlustir landsmanna með eftirminnilegum hætti í fjölda æsispennandi og sprenghlægilegra sakamálaleikrita í útvarpi. Þeir reyndust einnig afar skjávænir. Nú verður Leikhúskjallarinn, með alla sína reykmettuðu skugga og skúmaskot, vettvangur æsilegra rannsókna þeirra.

Ekki missa af okkar ástsælu Harrý og Heimi í Leikhúskjallaranum!

Leikarar, höfundar, spuni og hugmyndavinna: Karl Ágúst Úlfsson, Sigurður Sigurjónsson, Örn Árnason. Handrit: Karl Ágúst Úlfsson. Harrý og Heimir í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

Kvíði Myndvarpi Kona

UM SÝNINGUNA

Gamansýning um stress!

Stressaðu þig upp með Stínu

99 troðfullar sýningar –og ballið er rétt að byrja...

Þessi geysivinsæla gamansýning um stress eftir

Kristínu Þóru Haraldsdóttur hefur verið leikin fyrir

fullu húsi í Kjallaranum 99 sinnum, en nú hefur

Stína sprengt Kjallarann rækilega utan af sér - og er mætt upp á Stóra sviðið! Fyrsta sýningin á Stóra sviðinu er 100. sýningin.

Stína talar til okkar á bráðfyndinn hátt, en af einlægni og hispursleysi, um stress, streitu, seiglu, aumingjaskap og dugnað.

Gamansýning um stressið sem fylgir því að vera manneskja. Verið hress, alltaf með stress, bless!

Höfundur og leikari: Kristín Þóra Haraldsdóttir. Tæknistjórn og aðstoð: Mímir Bjarki Pálmason. Stina slf. í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

Á rauðu ljósi

eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur

Sundskýlur Busl

Dansleikhús

Sund eftir Blauta búka Leikstjórn Birnir Jón Sigurðsson

Stökkvum saman út í djúpu laugina!

Holdvotur vorsmellur

Sund er bráðskemmtilegt nýtt íslenskt verk sem fjallar um sundmenningu okkar Íslendinga með fyndnum og frumlegum hætti. Sýningin sló í gegn í Þjóðleikhúsinu á liðnu vori – og í maí verða örfáar sýningar á þessari litríku leiksýningu. Á sviðinu er sundlaug, og leikarar og dansarar bregða sér í hlutverk sundgesta sem hlera samtöl annarra í pottinum, sóla sig, sprikla í kvöldsundi, skella sér í gufuna og kalda pottinn. Sundlaugar

eru musteri okkar Íslendinga og hér fær laugin sjálf að bregða sér á fjalir leikhússins!

Leikhópurinn Blautir búkar frumsýndi Sund í Tjarnarbíói við frábærar undirtektir á sínum tíma, og sýningin hlaut tvær tilnefningar til Grímuverðlaunanna. Sýningin var þróuð áfram og endurfrumsýnd í Þjóðleikhúsinu, þar sem þjóðargersemin Pálmi Gestsson bættist í hópinn.

Höfundar: Birnir Jón Sigurðsson og leikhópurinn. Tónskáld: Friðrik Margrétar-Guðmundsson. Sviðshreyfingar: Andrean Sigurgeirsson og leikhópurinn. Leikmynd og búningar: Kristinn Arnar Sigurðsson. Lýsing: Fjölnir Gíslason. Aðstoðarleikstjórn: Birta Ásmundsdóttir. Framleiðandi: Kara Hergils, MurMur Productions. Flytjendur: Andrean Sigurgeirsson, Arna Guðrún Fritzdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Friðrik Margrétar-Guðmundsson, Kjartan Darri Kristjánsson, Pálmi Gestsson, Þórey Birgisdóttir. Í samstarfi við leikhópinn Blautir búkar. Verkefnið var styrkt af Sviðslistasjóði.

OG LEIKHÚSIÐ

Þjóðleikhúsið opnar töfraheim leiklistarinnar fyrir börnum og

unglingum

Unga fólkið boðið velkomið

Við kveikjum áhuga á leikhúsinu og nærum ástríðu nýrra kynslóða með fjölbreyttum og vönduðum leiksýningum fyrir börn á öllum aldri. Við aukum aðgengi ungs fólks og ólíkra hópa að leikhúsi með fjölbreyttum verkefnum.

Börnum boðið á leiksýningar

Þjóðleikhúsið býður hópum skólabarna um allt land að sjá leiksýningar og kynnast töfraheimi leikhússins. Í kjölfar

sýninganna er sendur út fræðslupakki fyrir kennara til að nýta í vinnu með nemendum. Leiksýningar í skólum á næstu árum miða að því að öllum börnum sem útskrifast úr grunnskóla hafi þrisvar á skólagöngu sinni, á ólíkum námsstigum, verið boðið á leiksýningu á vegum Þjóðleikhússins. Í vetur mun unglingastig grunnskóla fá að sjá nýja leiksýningu sem sækir innblástur í stórsöngleikinn Ormstungu. Leikstjóri er Vala Fannell sem leikstýrði einnig verðlaunasýningunni Orra óstöðvandi.

Verðlaunasýningin Orri óstöðvandi

Skólasýningin Orri óstöðvandi var sýnd fyrir yfir 12.000 börn á miðstigi á síðasta leikári. Hún var tilnefnd til Grímunnar sem barnasýning ársins og var valin sýning ársins á Sögum –verðlaunahátíð barnanna. Orri óstöðvandi verður sýnd fyrir almenna leikhúsgesti á leikárinu 2026-27.

Boðssýning fyrir leikskóla

Börnum í elstu deildum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu er boðið að kynnast töfraheimi leikhússins og sjá Blómin á þakinu með kennurum sínum . Á leikárinu 2026-27 fer sýningin í hringferð um landið.

Kennaraklúbbur Þjóðleikhússins

Þjóðleikhúsið er í virku sambandi við kennara á öllum skólastigum. Meðlimir kennaraklúbbs leikhússins fá m.a. send fréttabréf um starfsemina, aðgang að fræðsluefni og boð á kennarakvöld. Skráning í klúbbinn og nánari upplýsingar: Vala Fannell, verkefnastjóri fræðslu og samfélagsmála, vala.fannell@leikhusid.is.

Skoðunarferðir fyrir skólahópa

Þjóðleikhúsið býður skólahópum að fræðast um bygginguna, störfin baksviðs og sögu leikhússins.

Einnig er tekið á móti nemendum í starfskynningu.

Lína Langsokkur í 80 ár

Þjóðleikhúsið, Norræna húsið og Sænska sendiráðið vinna saman að hátíðardagskrá í tilefni af því að 80 ár eru liðin frá því að Astrid Lindgren sendi frá sér fyrstu bókina um Línu Langsokk.

Leikhúsfólk framtíðarinnar

Leikhússkóli Þjóðleikhússins hefur nú í haust annað starfsár sitt, að loknu ákaflega vel heppnuðu fyrsta starfsári, sem lauk með glæsilegri útskriftarsýningu nemendahópsins.

Leikhússkólinn býður upp á einstakt tækifæri fyrir ungt fólk á aldrinum 18-22 ára til að kynna sér leikhúsið frá ólíkum hliðum og efla færni sína.

Leikhússkólinn býður upp á faglega eins árs leikhúsmenntun, þar sem nemendur kynna sér hin ólíku störf í leikhúsinu, meðal annars hönnun leikmyndar, búninga, lýsingar og hljóðmyndar, sýningarstjórn, leikritun og leiklist. Nemendur öðlast þannig víðtæka þekkingu á listforminu og fá tækifæri til að kynnast sjálfum sér sem listafólki, skerpa sýn sína og efla færni og áhuga. Undir lok vetrar mynda nemendur leikhóp og þróa leiksýningu sem sýnd er að vori á fjölum Þjóðleikhússins. Auglýst er eftir umsóknum í skólann á vormisseri.

Skólastjóri og aðalkennari er Vala Fannell. Auk Völu fræðir listafólk og starfsfólk úr Þjóðleikhúsinu nemendur um ólíka þætti leikhússtarfsins, m.a. Ilmur Stefánsdóttir (leikmyndahönnun), Filippía I. Elísdóttir (búningahönnun), Björn Bergsteinn Guðmundsson (ljósahönnun), Brett Smith (hljóðhönnun), Elísa Sif Hermannsdóttir (sýningarstjórnun), Matthías Tryggvi Haraldsson (leikritun) og Melkorka Tekla Ólafsdóttir (leiklistarsaga).

„Í náminu kynntumst við reynsluboltum úr sviðslistasenunni og gefandi starfsumhverfi leikhússins en mikilvægast af öllu var þó að kynnast hvert öðru og læra að vinna með ólíku en hæfileikaríku listafólki.“

Ástrós Hind Rúnarsdóttir

„Leikhússkóli Þjóðleikhússins býður upp á magnað tækifæri fyrir ungt fólk til að spreyta sig innan leikhússins. Hann veitti mér akkúrat tækifærið sem ég þurfti til að móta framtíð mína í sviðslistum.“

Þorsteinn Sturla Gunnarsson

MEIRA UM LEIKHÚSSKÓLANN

UM SÝNINGUNA

Kisa

Blómin á þakinu byggt á bók eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur og Brian Pilkington

Leikstjórn og leikgerð Agnes Wild

Leikmynd, búningar og brúður: Eva Björg Harðardóttir

Tónlist: Sigrún Harðardóttir

Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason

Hljóðhönnun: Aron Þór Arnarsson

Grímuverðlaun

Barnasýning ársins

Sögur, verðlaunahátíð barnanna Leikarar ársins

Barnasýning ársins heillar börn og hænur!

Blómin á þakinu heillaði leikhúsgesti á öllum aldri á síðasta leikári og hlaut Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins. Börnin í sýningunni voru valin leikarar ársins á Sögum-verðlaunahátíð barnanna.

Leiknar voru 50 troðfullar sýningar á þessu yndislega verki og nú heldur ævintýrið áfram.

Undurfalleg og heillandi leiksýning fyrir yngstu börnin, byggð á bók sem hefur notið mikilla vinsælda allt frá því að hún kom fyrst út árið 1985 og hefur unnið sér sess sem sígild perla innan íslenskra barnabókmennta.

Þegar Gunnjóna þarf á gamals aldri að flytja úr sveitinni sinni í borg stendur hún frammi fyrir ýmsum áskorunum sem fylgja því að aðlagast nýjum heimkynnum. Í fjölbýlishúsinu sem hún flytur í býr forvitið barn sem fylgist með óvenjulegum aðferðum gömlu konunnar við að búa sér nýtt heimili, enda er engu líkara en Gunnjóna ætli að flytja sveitina með sér til borgarinnar.

Dásamleg verðlaunasýning um lífið í sveit og borg

Aldursviðmið: 2ja-8 ára.

50 uppseldar sýningar
á síðasta leikári

Leikarar: Edda Arnljótsdóttir, Örn Árnason, Dagur Rafn Atlason, Inga Sóllilja Arnarsdóttir.

UM SÝNINGUNA

Jól í hjarta Prakkarar

Leikhústöfrar

Leikhúsálfarnir eru komnir í jólaskap!

Leikhúsálfarnir Bergrós og Bergsteinn hafa verið að skottast um Þjóðleikhúsbygginguna allt frá því að leikhúsið var opnað um miðja síðustu öld. Þau hafa fylgst með æfingum, horft á leiksýningar, leikið sér með búninga og leikmuni og heillast af töfrum leikhússins. Nú loksins eru þau tilbúin til að sýna sína eigin leiksýningu!

Jólaævintýri leikhúsálfanna er fyndið og fjörugt, en ekki síður spennandi. Það gerist á aðventunni í eldgamla daga. Villuráfandi barn hyggst leita skjóls á sveitabæ einum en heppnin er sannarlega ekki með barninu, því að á bænum ræður hún Skrugga ríkjum, og hún er skelfilega nísk, geðvond og illskeytt. Úti geisar stórhríð og jólakötturinn sveimar soltinn um. Eitthvað verður að gera til að bjarga barninu, færa því ljós og yl, gleði og kærleika, og hleypa hinum sanna jólaanda inn í híbýli Skruggu - og hjarta!

Jólagleði fyrir alla fjölskylduna!

Jólagjöf Skruggu - jólaævintýri leikhúsálfanna eftir Matthías Tryggva Haraldsson og Melkorku Teklu Ólafsdóttur

Leikstjórn Guðjón Davíð Karlsson

Skemmtileg og fjörug sýning fyrir alla fjölskylduna um kærleiksboðskap jólanna og barnið innra með okkur öllum.

Leikarar: Hallgrímur Ólafsson, Katla Þórudóttir Njálsdóttir, Örn Árnason og fleiri.

Leikmynd og búningar: María Th. Ólafsdóttir

Kríli Mýkt Bíbí

UM SÝNINGUNA

Tungumál leikhússins í sýningu án orða

Litlir ungar í leikhúsi

Inni á milli mjúkra þúfna og glitrandi stráa hefur lítill fugl búið sér hreiður. Þar liggur hann fullur eftirvæntingar og bíður þess að litlu undrin hans, eggin, klekist út. Hreiðrið er heillandi upplifunarleikhús fyrir börn frá þriggja mánaða til þriggja ára og fólkið þeirra. Litlum leikhúsgestum er boðið að setjast í hreiðrið, láta skynfærin njóta sín og taka þátt í leiknum með því að snerta, heyra, sjá og finna heim töfra, lita og hljóða.

Litla sviðinu verður umbylt fyrir sýninguna og útbúið sérstaklega fyrir litla áhorfendur sem geta skriðið öruggir um mjúkt og litríkt rýmið. Í

Hreiðrið eftir Miðnætti Leikstjórn

Agnes Wild

sýningunni eru fá orð notuð og notast er við tákn með tali. Þess vegna hentar sýningin vel börnum með ólík móðurmál og heyrnarskertum börnum. Kjörin fyrsta leikhúsupplifun!

Verkið er úr smiðju listafólksins í Miðnætti, leikhóps sem hefur skapað sér nafn fyrir frumlegar og vandaðar sýningar fyrir yngstu áhorfendurna, svo sem Tjaldið, Á eigin fótum og Geim-mér-ei. Einnig sköpuðu þær Agnes, Eva Björg og Sigrún hina dásamlegu sýningu Blómin á þakinu fyrir Þjóðleikhúsið.

Einstök leikhúsupplifun fyrir þau allra yngstu.

Aldursviðmið: 3ja mánaða til 3ja ára.

Leikmynd, búningar og brúður: Eva Björg Harðardóttir.Tónlist: Sigrún Harðardóttir. Miðnætti í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Verkefnið var styrkt af Sviðslistasjóði.

Brúðulist Fjölmenning Tónlist

UM SÝNINGUNA

Hjartnæm og skemmtileg

fjölþjóðleg brúðusýning með fjörugri lifandi tónlist

Rót eftir Handbendi Brúðuleikhús Leikstjórn

Greta Clough

„Abuela“ kemur í heimsókn

Rót er ný, litrík og skemmtileg brúðusýning fyrir áhorfendur á öllum aldri með fjörugri lifandi tónlist, þar sem lögð er áhersla á miðlun sögunnar í gegnum sjónræna þætti. Hér er varpað fram spurningum varðandi mótun sjálfsmyndar okkar, áhrif uppruna á líf okkar og þörfina fyrir að tilheyra.

Sýningin fjallar um ungan dreng sem tilheyrir ólíkum menningarheimum, en hann á íslenskan föður og suðurameríska móður. Sumar eitt kemur amma drengsins, abuela, í heimsókn til Íslands. Hún flytur með sér framandi andblæ, söngva, sögur og hefðir frá heimalandi sínu og drengurinn kynnist sjálfum sér á nýjan hátt.

Sýningin er sköpunarverk listafólks frá ýmsum heimshornum, Paragvæ, Slóvakíu, Bandaríkjunum, Tékklandi, Dóminíska lýðveldinu, Japan, Bretlandi og Íslandi.

Leikhópurinn Handbendi er margverðlaunaður brúðuleikhúshópur sem hefur heimilisfesti á Hvammstanga en ferðast víða um heim með sýningar sínar. Handbendi hlaut Eyrarrósina, viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, árið 2021.

Frumsýning hjá Leikfélagi Akureyrar í apríl og sýningar í Þjóðleikhúsinu í maí og júní, í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík.

Fjörug, hlýleg og nýstárleg sýning sem á erindi við áhorfendur á ólíkum aldri og af ólíkum uppruna.

Leikstjórn og brúðuhreyfingar: Greta Clough. Tónlist: Paul Mosely. Sviðshreyfingar: Chantelle Carey. Leikmynd, leikmunir og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir og Auður Ösp Guðmundsdóttir. Brúðuhönnun og smíði: Aya Nakamura og Katanari. Lýsing: Friðþjófur Þorsteinsson. Brúðuleikari og dramatúrg: Juraj Hubinák. Framleiðandi: Martin L. Sörensen. Handbendi í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar og Listahátíð í Reykjavík. Verkefnið var styrkt af Sviðslistasjóði. Flytjendur: Juraj Hubinák, Sigurður Arent Jónsson, Tessa Rivarola, Rebecca Hidalgo, Viktoría Sigurðardóttir.

Guli dregillinn

Fagnið með okkur þegar ný leikritahátíð
Þjóðleikhússins verður haldin í annað sinn!

Eftir geysivelheppnaða frumraun síðasta vetur kynnum við þrjú glæný og spennandi leikrit. Verkin verða leiklesin af stjörnuteymi leikara á glæsilegri vorhátíð sem nefnist Guli dregillinn og fagnar íslensku leikhúsi og skáldunum sem skrifa fyrir sviðið.

Áhorfendur kynnast nýjum íslenskum leikritum

eftir höfunda sem segja hrífandi sögur og eiga mikilvægt erindi við leiksviðið. Við ræðum við höfundana um lífið og listina og höldum partí í lok hátíðar.

Melkorka Gunborg Briansdóttir

Melkorka er leikskáld, bókmenntafræðingur og nýútskrifaður sviðshöfundur sem hefur vakið athygli fyrir skarpa sýn á mannskepnuna. Hún hefur sterk tök á forminu, þótt myndirnar sem birtast áhorfendum séu ekki alltaf fallegar. Listalífið hlýtur öflugan liðsauka þegar verk Melkorku komast í snertingu við Þjóðleikhúsið í fyrsta sinn.

Hallveig Kristín Eiríksdóttir og

Eygló Höskuldsdóttir Viborg

Hallveig og Eygló eru einn höfundur með tvö höfuð og skrifa saman leiktexta. Hallveig er gjarnan með leikstjóragleraugun enda menntaður leikstjóri og Eygló heyrir textann óma í hugskoti sínu eins og gjarnan gerist hjá tónskáldi. Nú breyta þær Gula dreglinum í tilraunastofu fyrir aðferðir sem þekkjast ekki endilega hjá einmana rithöfundum. Sprúðlandi óvæntur húmor!

Kristín Eiríksdóttir og Mazen Maarouf

Kristín og Mazen vinna nú saman að leikverki fyrir Þjóðleikhúsið. Kristín hefur sannað sig sem eitt af okkar fremstu leikskáldum og hróður Mazen berst víða, enda var bók hans Brandarar handa byssumönnum tilnefnd til alþjóðlegu Man-Booker verðlaunanna 2019. Það er heiður að sjá samstarf þessara stórskálda taka á sig mynd í fyrsta sinn innan veggja Þjóðleikhússins.

Ný leikrit verða til

Kraftmikið höfundastarf í Þjóðleikhúsinu Þjóðleikhúsið leggur áherslu á frumsköpun, ný íslensk verk og stuðning við höfunda á ólíkum aldri og með ólíkan bakgrunn. Við tökum handrit og hugmyndir að leikritum á ólíkum vinnslustigum til skoðunar og köllum reglulega eftir höfundum, leikritum og listrænu samverkafólki.

Verk í þróun

Vinnustofa höfunda

Við bjóðum völdum höfundum sem eru að þróa spennandi verk vinnuaðstöðu í Þjóðleikhúsinu í vetur. Höfundar fá aðstöðu í Þjóðleikhúsinu í einn eða tvo mánuði í senn og býðst að eiga samtal við dramatúrga og annað listafólk hússins. Á þessu leikári munu höfundar af Gula dreglinum dvelja í vinnustofu höfunda, en einnig þau Magnús Thorlacius, Álfrún Helga Örnólfsdóttir og Helgi Grímur Hermannsson.

Ávallt eru fjölmörg spennandi, krefjandi og áríðandi verkefni á ýmsum stigum í þróun í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Nú eru þau Kristín Eiríksdóttir, Mazen Maarouf, Tyrfingur Tyrfingsson, Hrafnhildur Hagalín, Ragnar Bragason, Hafsteinn Níelsson og Ólíver Þorsteinsson að skrifa leikverk

Handrit eða hugmyndir að leikritum má senda á leikritun@leikhusid.is.

IMPROV ÍSLAND

Sýning öll miðvikudagskvöld!

Spunasýningar Improv Ísland hafa glatt áhorfendur í Kjallaranum frá árinu 2016 og fjöldi gesta kemur aftur og aftur, enda eru engar tvær sýningar eins. Hver sýning er frumsýning og lokasýning á brakandi fersku gríni sem verður til á staðnum. Spunaleikarar skiptast á að sýna ólík spunaform í hverri viku, ásamt þjóðþekktum gestum.

GRÍNKJALLARINN

Standandi brandarar á fimmtudögum!

Uppistand er nú þegar orðið einn helsti vettvangur íslenskra brandarasmiða og þess vegna breytum við Kjallaranum í alvöru grínbúllu. Nýtt teymi grínstjóra samanstendur af eldheitum nýjum uppistöndurum sem halda uppi stuðinu ásamt gestum úr úrvalsliði íslenskra uppistandara. Þú heyrir alltaf nýtt grín í Grínkjallaranum!

Grínstjórar: Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, Guðmundur Einar, Bolli Már Bjarnason, Birna Rún Eiríksdóttir, Vigdís Hafliðadóttir.

JÓLIN Á SUÐUPUNKTI

Raddbandið reynir sitt besta til að redda jólunum!

Glæsileg og grátbrosleg tónleikasýning með leikhúsívafi þar sem ofurkonurnar í Raddbandinu fara á kostum. Sýningin er byggð á sönnum atburðum úr lífi þriggja nútímamæðra. Söngdívurnar ætla að vera búnar að græja allt fyrir jólin í tæka tíð og ná fullkomnum tökum á jólahátíðinni og móðurhlutverkinu. Jólastemning, jólastress, töfrandi samhljómur og allskonar grín!

Raddbandið: Auður Finnbogadóttir, Rakel Björk Björnsdóttir og Viktoría Sigurðardóttir.

VELKOMIN Í KLASSABÚLLUNA!

Það verður ekki meira krassandi

Undir Stóra sviðinu kraumar í suðupottinum og þegar lokið er tekið af spretta fram nautnaseggir, grínistar, spæjarar, pæjur, dansarar, spunameistarar, dragdrottningar og öll þau sem vilja hlæja hátt. Í Kjallaranum er hver sýning

ólík annarri og fjölbreytilegt listafólk tekur við keflinu á hverju kvöldi. Taktu drykkina með þér inn í sal og slepptu fram af þér beislinu í gleðinni!

Listrænn stjórnandi: Matthías Tryggvi Haraldsson. SJÁÐU

KJALLARA-KABARETT

Seint og sveitt fram á nótt!

Komið ykkur vel fyrir í sætunum og leyfið Kjallararottunum og næturlífsnautnaseggjunum að lýsa upp tilveruna, skemmta og ögra. Burlesque, kabarett, sirkus, drag og „alls konar fullorðins“ fyrir fólk sem hlær hátt! Allar eru sýningarnar ólíkar og fjölmargir glæsilegir listamenn víðsvegar að koma fram yfir veturinn. Vinsamlega athugið að sýningin er svo sannarlega bönnuð börnum og hentar ekki þeim sem óttast undur mannslíkamans.

Listrænir stjórnendur: Margrét Erla Maack og Gógó Starr.

LÍTILL TÖFFARI

Það er flókið að vera töff!

Lítill töffari er sprenghlægileg uppistandssýning um hversu erfitt er að vera töff, barnauppeldi í nútímanum og gamla daga, samskipti, samfélagsmiðla og Ísland. Guðmundur Einar er gamanleikari, leikstjóri og meðlimur Improv Ísland. Uppistandssýningin Lítill töffari gekk fyrir fullu húsi í Tjarnarbíói síðasta vetur og ferðaðist um landið. Sýningin er einstaklega skemmtileg, músíkölsk og lifandi og við bjóðum töffarann velkominn í Kjallarann!

Töffari: Guðmundur Einar.

HOUSE OF REVOLUTION

Menningarkokteill – fjögur fjölbreytt kvöld í vetur!

Þjóðleikhúsið býður listafólki með ólíkan bakgrunn úr ólíkum menningarkimum að láta

ljós sitt skína í Kjallaranum, og þriðja árið í röð tekur R.E.C Arts Reykjavík að sér að móta spennandi dagskrá fyrir leikárið.

Listahópurinn R.E.C Arts Reykjavík snýr aftur í Leikhúskjallarann og stendur þriðja leikárið í röð fyrir listviðburðinum House of Revolution, sannkallaðri fjölbreytileika-veislu, þar sem boðið er upp á margskonar listform í meðförum listafólks sem tilheyrir ólíkum menningarheimum og býr á Íslandi. Sýningarnar fara að mestu fram á ensku, önnur tungumál heyrast inn á milli en allar sýningar eru túlkaðar á íslensku táknmáli. Sýningum lýkur með rosalegu danspartíi og sjóðheitri stemningu! House of Revolution hefur notið mikilla vinsælda og var tilnefnt til Grímuverðlaunanna árið 2024. Hægt er að kaupa miða á breytilegu verði, eftir því sem hentar fjárhag hvers og eins.

Fjögur laugardagskvöld kl. 21.00

Four Saturday nights at 21:00

– 13.9. Vol.9: „In the Beginning...“ – 8.11., Vol. 10: „Family, Interrupted“

– 7.2. Vol. 11: „Tempted“

– 11.4. Vol. 12: „The Uprising“

Artist-activist collective R.E.C Arts Reykjavík returns to Þjóðleikhúskjallarinn for a third season with House of Revolution: A true feast of diversity showcasing a variety of performances from artists of all communities & cultures who live in Iceland. Shows are mostly in English, with other languages included, but all performances are interpreted in Icelandic Sign Language. Every show ends with a huge dance party that ignites a hot atmosphere! House of Revolution has enjoyed great popularity and was nominated for the Gríman Awards in 2024. Tickets can be purchased at variable prices for a variety of budgets.

For more information on REC Arts Reykjavík, including auditions for the shows, community workshops & events, follow them on Instagram/Facebook at @recartsrvk, or email recartsrvk@gmail.com

UM SÝNINGUNA

Lastabæli Söngleikur Kit Kat-klúbburinn

Söngleikurinn Kabarett eftir Joe Masteroff og Fredd Ebb Leikstjórn Bjartur Örn Bachmann

Hér getur þú öllu gleymt

Í Þjóðleikhúskjallaranum býðst þér að gleyma öllum áhyggjum á kabarettklúbbnum Kit Kat. Tónlistin er falleg, fólkið er fallegt og þér er boðið fallega að njóta gleðinnar með okkur!

Söngleikurinn Kabarett er ódauðleg klassík sem fjallar á ögrandi hátt um samfélag á heljarþröm.

Verkið býður okkur í tímaferðalag tæplega 100 ár aftur í tímann inn á stórfjörugan en afar kynlegan skemmtistað í Berlín. Í næturhúminu blómstra ástin, frelsið og listin en samtímis eykst ógn nasismans fyrir utan veggi klúbbsins dag frá degi. Sýningin fæst á djarfan og ærslafullan hátt við lævíst eðli illskunar og viðbrögð okkar við henni.

Leikhús ókunnuga fólksins er nýr hópur ungs listafólks með fjölbreyttan bakgrunn sem hefur ástríðu fyrir söngleikjaforminu og tekst hér á við hinn geysivinsæla söngleik Kabarett með nýstárlegum hætti.

Ekki láta þig vanta á skemmtilegasta klúbb í heimi!

Tónlist: John Kander. Þýðing: Karl Ágúst Úlfsson. Aðstoðarleikstjórn: Arndís María Ólafsdóttir. Dramatúrgía: Níels Thibaud Girerd. Sviðshreyfingar: Júlía Kolbrún Sigurðardóttir. Dans: Sally Cowdin. Tónlistarstjórn: Fannar Sigurðsson og Þorsteinn Jónsson. Búningar: Hulda Kristín Hauksdóttir. Leikgervi: Kristjana Rós Sigurðardóttir. Leikmynd og leikmunir: Bryndís Magnúsdóttir og Melanie Ubaldo. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Hljóðhönnun: Þórður Gunnar Þorvaldsson. Í samstarfi við Leikhús ókunnuga fólksins.

UM SÝNINGUNA

Nálægð Nóbelsskáld Þroskasaga

Landnámssetrið og Þjóðleikhúsið

Salka Valka á Söguloftinu

Í tilefni af tuttugu ára afmæli Landnámsseturs Íslands í Borgarnesi taka Þjóðleikhúsið og Landnámssetrið höndum saman og bjóða upp á nýjan einleik. Unnur Ösp Stefánsdóttir mun semja og flytja nýtt leikverk byggt á skáldsögu Halldórs Laxness Sölku Völku á Sögulofti setursins.

„Hvernig skyldu menn lifa á svona stað? Og hvernig skyldu menn deyja?“

Salka Valka er ein eftirminnilegasta persóna Halldórs Laxness. Í sýningunni mun Unnur Ösp þræða sig í gegnum sögu hennar, umvafin tónlist úr plötusafni Halldórs Laxness sem var skáldinu innblástur við skrif bókarinnar. Í návígi við áhorfendur kallar Unnur fram stórbrotnar persónur sögunnar, með magnaðan texta Laxness að vopni. Í gegnum hættuleg en heillandi sambönd persónanna ætlar Unnur að leita að Sölku í sér og Sölku í okkur öllum.

„…en tvær sálir geta verið svo fjarlægar hvor annarri jafnvel þó þær hafi einusinni búið í sama líkama.“

Unnur Ösp færir okkur Sölku Völku í einleik á Söguloftinu í Borgarnesi.

Stofnendur Landnámssetursins, þau Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, settu meðal annars upp geysivinsæla sýningu á Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness í Þjóðleikhúsinu árið 1999, og tengsl Þjóðleikhússins við setrið hafa verið sterk í gegnum tíðina.

Leikari: Unnur Ösp Stefánsdóttir.

Uppsetning Landnámsseturs Íslands í Borgarnesi í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

Sýningin er byggð á fyrri hluta Sölku Völku eftir Halldór Laxness, Þú vínviður hreini.

Salka - ástin og dauðinn

Höfundur skáldsögu: Halldór Laxness

Höfundur leikgerðar: Unnur Ösp Stefánsdóttir

Þjóðleikhúsið og landsbyggðin

Boðssýningar fyrir börn og unglinga Þjóðleikhúsið fer í leikferðir um landið og stendur fyrir sýningarhaldi, meðal annars með skólasýningum fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, sjá bls. 30.

Leikferðir og samstarf

Haldið verður í leikferð út á land á leikárinu með eina af sýningum Þjóðleikhússins, auk þess sem MAk, Þjóðleikhúsið, Handbendi frá Hvammstanga og Listahátíð í Reykjavík eiga samstarf um brúðusýninguna Rót.

Áhugasýning ársins

Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins er valin á hverju leikári og sýnd í Þjóðleikhúsinu á vordögum í samstarfi við Bandalag íslenskra leikfélaga.

Námskeið fyrir áhugaleikfélög og leikfélög framhaldsskóla Þjóðleikhúsið styður við starfsemi áhugaleikfélaga og framhaldsskólaleikfélaga landsins með námskeiðahaldi. Boðið verður upp á tvö námskeið, annars vegar í framleiðslu og verkefnastjórnun í september og hins vegar í ljósahönnun, hljóðhönnun og sýningarstjórnun í febrúar. Námskeiðin eru haldin yfir helgi og ná yfir bæði laugardag og sunnudag. Þátttakendum býðst að fara á leiksýningu í Þjóðleikhúsinu í tengslum við námskeiðin. Sjá nánar á leikhusid.is/fraedsla.

Frá þátttakendum á fyrri námskeiðum:

„Ótrúlega skemmtilegt og fróðlegt námskeið. Mun klárlega byrja að æfa mig í lýsingu og hljóðblöndun við fyrsta tækifæri.“

„Allt sem farið var í á námskeiðinu var áhugavert og gagnlegt.“

„Frábært námskeið í sýningarstjórnun og mjög skemmtilegir leiðbeinendur.“

Almar Blær Sigurjónsson og Selma Rán Lima á leikferð með Orra óstöðvandi sem heillaði börn víða um land á síðasta leikári. Sýningin var valin sýning ársins á Sögum-verðlaunahátíð barnanna á RÚV.

Opið kort fyrir 13-25 ára

Sjáðu allt eins oft og þú vilt

Opið áskriftarkort á fáránlega góðu verði, 1.550 kr. á mánuði!

NÁNAR

UM KORTIN

• Geysivinsælt áskriftarkort fyrir 13-25 ára.

• Áskrift í 10 mánuði.

• 1.550 kr. á mánuði.

• Þú bókar miða samdægurs.

• Þú getur komið aftur og aftur á allar uppsetningar Þjóðleikhússins. (Gildir ekki á sýningar í Þjóðleikhúskjallaranum eða samstarfssýningar).

• Gildir aðeins fyrir eiganda kortsins.

Þú getur séð allar uppsetningar Þjóðleikhússins og mátt koma aftur og aftur!

25 ára og yngri geta einnig keypt Leikhúskort með 50% afslætti af miðaverði, sjá bls. 5.

Dyrnar eru opnar

Fræðsla

Við opnum heim leikhússins og bjóðum upp á fræðslu af ólíku tagi.

• Umræður með þátttöku listamanna eftir 6. sýningu á uppfærslum leikhússins fyrir fullorðna.

• Textun á ensku og íslensku á 7. sýningu valinna verka, sjá nánar á leikhusid.is.

• Leikhússkóli Þjóðleikhússins fyrir ungt fólk.

• Skoðunarferðir um leikhúsið.

• Starfskynningar.

• Námskeið í framleiðslu, verkefnastjórnun, ljósahönnun, hljóðhönnun og sýningarstjórnun fyrir áhugaleikfélög.

• Námskeið um söngleikinn Ormstungu í samstarfi við Endurmenntun HÍ.

Skoðunarferðir

Þjóðleikhúsið býður upp á skoðunarferðir um leikhúsið fyrir hópa til að gefa þeim kost á því að fræðast um leikhúsið og starfsemi þess, þeim að kostnaðarlausu. Dagsetningar skoðunarferða má finna á heimasíðu leikhússins þar sem jafnframt er hægt að bóka þær. leikhusid.is/boka-skodunarferd

Aðgengi

Aðgengi hreyfihamlaðra að Þjóðleikhúsinu hefur verið stórbætt á liðnum árum, og stöðugt er unnið að úrbótum í aðgengismálum í leikhúsinu.

• Bílastæði fyrir hreyfihamlaða og lyfta/rampur: Stóra sviðið og Kjallarinn: Bílastæði fyrir framan aðalbyggingu við Hverfisgötu og lyfta austan megin. Kassinn: Bílastæði og rampur fyrir framan húsið við Lindargötu.

• Fyrir sjónskerta: Boðið er upp á sérstaka sýningu á Þetta er gjöf.

• Fyrir heyrnarskerta: Tónmöskvar fyrir Stóra sviðið fást afhentir í veitingasölu. Táknmálsaðgengi að ákveðnum sýningum.

• Fyrir áhorfendur með taugafrávik: Boðið verður upp á aðgengilega sýningu á Blómunum á þakinu, Línu Langsokk og Jólagjöf Skruggu, svokallaða „afslappaða sýningu“ (relaxed performance) þar sem er hugað sérstaklega að þeim sem eru skynsegin (neurodivergent) og geta verið viðkvæmir fyrir ýmiskonar skynáreiti.

• Viðvaranir vegna notkunar ljósa- og tæknibúnaðar í leiksýningum eða vegna umfjöllunarefna sem geta reynst gestum sérstaklega erfið má finna á vef leikhússins.

Nánar má lesa um aðgengi á leikhusid.is/midasala

Ljúffeng upplifun fyrir öll skynfæri!

Gerðu kvöldið enn eftirminnilegra með því að gleðja bragðlaukana fyrir sýningu eða í hléi.

Auðvelt er að panta veislubakka eða aðrar veitingar fyrirfram þegar þú kaupir leikhúsmiðann og veitingarnar bíða þín tilbúnar á fráteknu borði. Hópar geta borið fram sérstakar óskir um veitingar með því að senda okkur línu á midasala@leikhusid.is. Að auki býðst að sjálfsögðu fjölbreytt úrval drykkja og veitinga á leikhúsbarnum.

Sjáðu úrval veitinga í boði á leikhusid.is.

Pantaðu veitingar fyrirfram

Ef þú hefur þegar keypt miða og vilt bæta veitingum við þá gerir þú eftirfarandi:

Skref 1

Opnaðu bókunarstaðfestingu sem þér barst í tölvupósti eftir miðakaup og smelltu á „Skoða bókun.“

Skref 2

Smelltu á „Panta veitingar“ og bættu við pöntunina þína öllu sem hugurinn girnist.

Athugið að pantanir þurfa að berast í síðasta lagi 12 klst. fyrir sýningu.

VEITINGAR FYRIR HÓPA

Hópurinn þinn getur borið fram sérstakar óskir um veitingar.

Sendu okkur línu á midasala@leikhusid.is

velja tiltekna upphæð til að setja á gjafakortið.

Þú getur keypt gjafakortin okkar vinsælu á vefnum eða í síma 551 1200.

Frábær gjöf fyrir starfsmannahópinn

Gjafakort í Þjóðleikhúsið er tilvalin gjöf fyrir starfsmannahópinn. Hægt er að fá tilboð á gjafakortum fyrir hópinn þinn með því að senda póst á midasala@leikhusid.is

Jafnréttisgjörningur á kvennaári 2025

Fjölmörg samtök hafa tekið höndum saman og lýst því yfir að árið 2025 sé kvennaár, sjá nánar: kvennaar.is. Þjóðleikhúsið hefur á undanförnum árum lagt sérstaka áherslu á að veita listakonum ný tækifæri sem höfundum, listrænum stjórnendum og leikurum, og gefið sögum kvenna sérstakan gaum.

Áfram stelpur!

Þjóðleikhúsblaðið, leikárið 2025 - 2026

Útgefandi: Þjóðleikhúsið

Þjóðleikhússtjóri: Magnús Geir Þórðarson Ábyrgðarmaður: Jón Þorgeir Kristjánsson

Ritstjórn: Melkorka Tekla Ólafsdóttir, Magnús Geir Þórðarson, Jón Þorgeir Kristjánsson, Matthías Tryggvi Haraldsson

Hönnun og útlit: Kontor

Ljósmyndir: Ari Magg, Atli Thor, Hanna Liv Atladóttir, Anton Bjarni Alfreðsson, Jón Guðmunds, Jorri, Owen Fiene og fleiri

Prentun: Prentmet-Oddi

Þjóðleikhúsið, Hverfisgötu 19

Á 50 ára afmælisári hins sögulega kvennafrís árið 1975 koma leikkonur á öllum aldri saman og flytja kraftmikla dagskrá í tali og tónum í Kjallaranum. Leikkonur sem tóku þátt í söngdagskrá á Lækjartorgi á kvennafrídeginum þann 24. október árið 1975 og sendu frá sér hina geysivinsælu hljómplötu Áfram stelpur mynda kjarnann í hópnum, en þær voru jafnframt þátttakendur í kabarettsýningunni Ertu nú ánægð kerling, sem sýnd var í Þjóðleikhúskjallaranum vorið áður.

Umsjón: Steinunn B. Jóhannesdóttir og Brynhildur Björnsdóttir.

Aðventustund Þjóðleikhússins

Skemmtileg jóladagskrá fyrir aldraða sem hefur notið mikilla vinsælda. Leikarar fara um borgina og gleðja þá sem eiga

óhægt um vik að skella sér í leikhús. Í samstarfi við velferðarsvið Reykjavíkurborgar.

Miðasala: 551 1200, midasala@leikhusid.is, www.leikhusid.is Fylgdu okkur!

Stikkorð

Stikkorð

Stikkorð

Nafn verks

Þér er boðið í afmælisveislu á Menningarnótt!

Fögnum afmælinu saman með risastórri afmælisköku, skemmtidagskrá á Stóra sviðinu og fjöri innan sem utan dyra. Ástsælar leikpersónur líta við og gleðja unga sem aldna.

Miðasala | 551 1200 | midasala@leikhusid.is | leikhusid.is

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.