Þetta er gjöf - Leikskrá

Page 1


Um tónlistina

Úlfur Hansson og Gyða Valtýsdóttir, sem skipa ROR, semja tónlist fyrir sýninguna. Tónlistarflutningur á upptökum: Úlfur Hansson, hljóðgervill og Gyða Valtýsdóttir, selló.

Sérfræðiráðgjöf

Hilmir Jensson

Leikskrá

Ritstjórn: Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Hönnun og uppsetning: Jorri. Ljósmyndir: Jorri.

Prentun: Prentmet Oddi. Útgefandi: Þjóðleikhúsið.

Myndir í leikskrá eru teknar á æfingu og eru því ekki heimild um endanlegt útlit sýningarinnar.

Sýningarlengd er um ein klukkustund og fjörutíu mínútur. Ekkert hlé. 6. sýning: Umræður eftir sýningu.

Þjóðleikhúsið

77. leikár, 2025–2026.

Frumsýning á Litla sviðinu 26. september 2025. Þjóðleikhússtjóri: Magnús Geir Þórðarson.

Þetta er gjöf

eftir Kolbrúnu Björt Sigfúsdóttur

Þýðing: Friðrika Benónýsdóttir

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir

Þjóðleikhúsið 2025 - 2026

Leikari

Katla Þórudóttir Njálsdóttir

Listrænir stjórnendur

Leikstjórn

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir

Aðstoðarleikstjórn

Hilmar Guðjónsson

Leikmynd og búningar

Guðný Hrund Sigurðardóttir

Tónlist

ROR: Gyða Valtýsdóttir og Úlfur Hansson

Lýsing

Garðar Borgþórsson

Hljóðhönnun

Kristján Sigmundur Einarsson

Aðrir aðstandendur

Sýningarstjórn og umsjón

Guðmundur Erlingsson

Framleiðslustjórn

Máni Huginsson

Starfsnemi

Jónsi Hannesson

Yfirumsjón búninga

Ásdís Guðný Guðmundsdóttir

Yfirumsjón leikgerva

Hildur Ingadóttir

Teymisstjórn leikmyndaframleiðslu

Jasmina Wojtyla

Yfirsmiður

Arturs Zorģis

Smiðir

Ingvar Guðni Brynjólfsson

Michael John Bown

Yfirumsjón leikmuna og teymisstjóri

Bjarni Þór Sigurbjörnsson

Málari

Valur Hreggviðsson

Starfsfólk á sýningum

Umsjón á sýningum

Fíóna Rokk Steinunnardóttir

Tæknistjórn á sýningum

Signý Rós Ólafsdóttir

Leikgervadeild

Ása María Guðbrandsdóttir

Guðbjörg Guðjónsdóttir

Annað starfsfólk við sýninguna

Búningadeild

Berglind Einarsdóttir

Eva Lind Weywadt Oliversdóttir

Sólveig Spilliaert

Þórhildur Sunna Jóhannsdóttir

Leikmunadeild

Ásta S. Jónsdóttir

Mathilde Anne Morant

Sviðsdeild

Ásdís Þórhallsdóttir

Eglé Sipaviciute

Fíóna Rokk Steinunnardóttir

Leikgervadeild

Ingibjörg G. Huldarsdóttir

Þóra Guðbjörg Benediktsdóttir

Silfá Auðunsdóttir

Kolbrún Björt

Sigfúsdóttir

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir lauk BA-prófi af námsbrautinni fræði og framkvæmd (nú sviðshöfundabraut) við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands og lauk meistaranámi í Shakespeare-leikstjórn við Háskólann í Exeter árið 2013. Hún býr nú í Edinborg og hefur starfað sem leikskáld, leikstjóri og dramatúrg hjá ýmsum leikhúsum og leikhópum á Bretlandseyjum og víðar, meðal annars leikhóp sínum Brite Theater, Traverse-leikhúsinu í Edinborg og Tron-leikhúsinu í Glasgow. Hún þreytir nú frumraun sína í íslensku atvinnuleikhúsi sem leikskáld og leikstjóri.

Leikrit Kolbrúnar Þetta er gjöf (This is a Gift á ensku) rataði á topplista Women’s Prize for Playwriting árið 2023 og var leiklesið hjá Royal Shakespeare Company í leikritaröðinni „37 Plays“ sama ár. Það var frumflutt hjá Pitlochry Festival Theatre í Skotlandi í sumar og hlaut þar frábæra dóma. Meðal annarra leikverka Kolbrúnar eru Deliverance sem Brite Theater og Vanishing Point framleiddu og Kit Kat sem sýnt var í Traverse Theatre. Kolbrún Björt var valin leikskáld Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur árin 2024 til 2026.

Kolbrún er stofnandi og listrænn stjórnandi leikhópsins Brite Theater en meðal sviðsetninga hennar hjá leikhópnum eru Coward Conscienceþríleikurinn sem unninn var upp úr verkum Shakespeares: Timonopoly, Hamlet (an experience) og Richard III (a one-person show), auk nýrra verka, Sandcastles og (Can This Be) Home.

Kolbrún var fastráðin leikstjóri við Tron Theatre 2020-2022 og setti þar upp hang og Me and My Sister Tell Each Other Everything. Sem leikstjóri hefur hún lagt sérstaka áherslu á uppsetningu nýrra leikverka og meðal leikstjórnarverkefna hennar eru The Beatles Were a Boyband hjá F-Bomb, ChildMinder hjá Genesis Productions/Traverse Theatre og Variant hjá A Play, A Pie and A Pint.

Kolbrún var tilnefnd til skosku gagnrýnendaverðlaunanna CATS Awards sem leikstjóri ársins árið 2022 fyrir Me and My Sister Tell Each Other Everything hjá Tron Theatre og hlaut leikstjórnarverðlaun hjá NAPA Festival í Karachi í Pakistan fyrir Richard III (a one-person show).

Haslar sér völl hér heima eftir áratug á Bretlandseyjum

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir hefur verið afkastamikil sem leikstjóri og höfundur þótt verk hennar hafi farið fram hjá mörgum Íslendingum. Hún starfar aðallega í Skotlandi og víðar á Bretlandseyjum en sýningar hennar hafa verið sýndar á leikferðum um Evrópu, Bandaríkin, Asíu og víðar. Kolbrún vann í miðasölunni í skosku leikhúsi þegar hjólin fóru að snúast, en hún skoðaði boðslista fyrir frumsýningar til að finna rétta fólkið í bransanum til að kynna sig fyrir. Nú haslar hún sér loksins völl í heimalandinu sem höfundur og leikstjóri sýningarinnar Þetta er gjöf.

„Ég man hvað ég varð fyrir miklum áhrifum þegar ég sá Hárið á sínum tíma. Mér fannst svo frábært að leikararnir sæju áhorfendur,“ rifjar Kolbrún upp þegar talið berst að mótandi leikhúsupplifunum hennar fyrstu árin í áhorfendasætunum. „Eftir sýninguna ákvað ég að vera hippi og hélt því til streitu í eitt ár,“ segir hún. „Ég var svona tíu ára þegar ég sá þessa sýningu og eitt ár er langur tími í lífi barns.“

Kolbrún nefnir fleiri mótandi sýningar þar sem hún situr ásamt dramatúrg á skrifstofu leikhússtjóra og er spurð spjörunum úr skömmu fyrir frumsýningu á leikriti sínu Þetta er gjöf, en verkið var heimsfrumsýnt í Skotlandi í sumar og fær nú nýtt líf í íslenskri staðfæringu. Kolbrún rifjar upp að það voru ekki síður umskipti á mótunarárum hennar þegar mamma hennar fékk vinnu í Borgarleikhúsinu. „Ég man eftir því að sjá búningana, sminkið og fólk á hlaupum um gangana. Þarna fékk ég að sjá að það eru fleiri störf í leikhúsinu en að standa á sviðinu. Galdurinn gerist líka baksviðs.“

Hélt að það væri ekkert í boði Kolbrún var ekki vongóð um að geta menntað sig í baksviðs-töfrum leikhússins. Það breyttist hins vegar þegar hún frétti af nýju námi í Listaháskólanum. Sú námsbraut hét þá fræði og framkvæmd en heitir nú sviðshöfundabraut. „Ég hélt að ég hefði ekkert val nema um bókmenntafræði eða leikaranám og ég var viss um að ég kæmist ekki inn í leikaranám. Ég var hörð á því að ég ætlaði að verða leikstjóri.“ Í þessu nýja námi opnuðust ýmsar dyr og Kolbrún kynntist fólki sem er enn starfandi í íslensku sviðslistalífi.

Kolbrún og hennar bekkur útskrifuðust árið 2008, nokkrum mánuðum fyrir bankahrunið. „Það var undarlegur tími á Íslandi. Manni fannst möguleikarnir ekki margir.“ Eftir að hafa spreytt sig sem leikstjóri með menntaskólahópum og leikfélögum úti á landi þá vildi hún halda til útlanda. Hún fór til Taílands í sjö mánuði og setti svo stefnuna á Ítalíu.

Mælir með því að verja ári með Shakespeare „Ég hafði ætlað mér að fá mér sumarvinnu á Suður-Ítalíu en endaði í ömurlegu djobbi í Norður-Skotlandi. Það varð úr að ég leitaði aftur til Exeter í Bretlandi þar sem ég hafði áður dvalið í skiptinámi og hóf þar framhaldsnám,“ segir Kolbrún.

Meistaranám Kolbrúnar snerist alfarið um verk Williams Shakespeares og uppsetningar á þeim. „Ég mæli með því fyrir hvern sem er að kynna sér Shakespeare í eitt ár,“ segir Kolbrún og bætir við kíminni spurningu:

„Ef maður ætlar að sérhæfa sig, hvers vegna ekki að sérhæfa sig í skáldi sem er alltaf verið að setja upp, alls staðar?“

Skólaverkefnið lifir enn og ferðast um heiminn

Um námið í Exeter segir Kolbrún: „Þeirra hugmynd um meistaranám snýst um það að nemendur vinni sjálfstætt og fái til þess frítt vinnuafl, aðstöðu, tæknibúnað og fleira.“

Úr varð að Kolbrún setti á svið þrettán sýningar á níu mánuðum. Það má segja að eitt af þessum þrettán skólaverkefnum lifi enn því þarna varð til vísir að þeirri hugmynd að útfæra Ríkharð þriðja sem einleik sem Kolbrún átti eftir að þróa áfram árið 2015. Sú leiksýning sem varð til þá hefur ferðast víða og er enn í sýningu eftir fleiri en 250 sýningar.

Nýtti upplýsingar frá miðasölunni sér til framdráttar Eftir útskrift fékk Kolbrún vinnu í miðasölunni í Traverse-leikhúsinu í Edinborg, þar sem hún býr enn. „Þar er heimili nýrra leikritaskrifa í Skotlandi. Ég fékk að sjá allt sem er að gerast í skosku leikhúsi og, það sem meira er, ég fékk að skoða lista yfir alla sem fá boð á frumsýningu.“ Á þessum tíma var Kolbrún iðin við að sækja leiksýningar, lesa leikhandrit og finna rétta fólkið á boðslistunum og kynna sig fyrir því.

„Ég vann lengi hjá Traverse,“ segir Kolbrún. „Fyrst í miðasölunni, svo sem aðstoðarleikstjóri og handritalesari og svo fór ég að leikstýra sýningum hjá þeim.“ Fyrsta sýningin sem Kolbrún leikstýrði hjá Traverse hét Maryland. Meðal annarra sýninga Kolbrúnar má nefna Kit Kat sem fór einnig á svið í Traverse árið 2019 og var auk þess flutt sem útvarpsleikrit hjá breska ríkisútvarpinu BBC. Kolbrún hefur haft viðkomu í fleiri leikhúsum á Bretlandseyjum síðan þá, ýmist sem leikstjóri eða höfundur og með leikhóp sínum Brite Theater.

Kom út úr skápnum sem leikskáld

Kolbrún kom að eigin sögn loksins út úr skápnum sem leikskáld árið 2017 og fékk að vera með í fyrirbæri sem heitir Playwrights Studio Scotland. „Ég hafði verið skápaleikskáld í um áratug en þarna var ég í hópi sex leikskálda sem fengu aðstoð við að þróa verk sín og kynna þau fyrir sviðslistasenunni,“ rifjar hún upp.

Á árunum sjö sem eru liðin frá því að Kolbrún steig fram á ritvöllinn hafa nokkur verk eftir hana verið þróuð áfram innan leikhúsa en ekki endilega farið á svið í fullri lengd. Sem undantekningu nefnir hún verk um Brexit, sem var sýnt á ýmsum stigum málsins eftir því sem fréttir þróuðust, það hét (Can this be) Home og vann til verðlauna á Prague Fringe. Að Þetta er gjöf skuli vera sett á svið er hins vegar hápunktur höfundarferilsins hingað til, segir Kolbrún. Verkið rataði á lista Women’s Prize for Playwriting árið 2023 og var leiklesið hjá Royal Shakespeare Company í leikritaröðinni „37 Plays“ sama ár. Það var frumflutt hjá Pitlochry Festival Theatre í Skotlandi í sumar, áður en að frumflutningi þess á Íslandi í Þjóðleikhúsinu kom.

Góð hljómsveit á heiðurinn að titlinum Eitt kvöldið leggur Kolbrún höfuðið á koddann og gríska goðsagan um Mídas sækir á hana. Innblásturinn kom á Fringe-hátíðinni í Edinborg þar sem hún sá vel unnið með gríska arfinn. „Ég átti líka safn af dæmisögum og goðsögum á kassettu sem krakki, þar mátti hlusta á hvernig Mídas konungur fær þá ósk uppfyllta, að allt sem hann snerti verði að gulli,“ lýsir Kolbrún. „Ég hugsaði alltaf

að ef pabbi manns væri farinn að geta gert allt að gulli, rósaengi og lifandi hluti og hvaðeina, hvernig væri þá upplifun dótturinnar? Hvernig er að horfa á eitthvað svona yfirgengilegt gerast og bíða eftir afleiðingum þess á eigin skinni?“ Þessi tilhugsun hafði bersýnilega áhrif á skrifin.

„Svo voru Florence and The Machine alltaf í útvarpinu með lagið Rabbit Heart. Það fékk mig til að spá, er þetta gjöf eða er þessi eiginleiki kannski frekar bölvun?“ Þess vegna notaði Kolbrún línu úr því lagi sem titil verksins.

Leikritið fór í ferðalag milli tveggja borga

Um skrifin á einleiknum Þetta er gjöf segir Kolbrún að þau hafi gengið hratt fyrir sig þegar hún komst í rétt flæði. „Mér gafst vika þar sem ég var ein heima hjá mér í íbúð okkar í Edinborg, maður og barn annars staðar, og sagan var farin að leita út,“ segir hún. Þarna tók leikritið á sig mynd. „Mér finnst svolítið eins og Sóley hafi viljað segja sína sögu og notað mig til þess.“

Verkið er upphaflega skrifað inn í skoskt borgarlandslag en sést nú staðfært yfir í reykvískan raunveruleika. Ferðalagið milli tungumála og menningarheima er merkilegt í augum Kolbrúnar fyrir margra hluta sakir. „Staðfæringin hefur kallað á miklar vangaveltur og pælingar, hvernig Reykjavík er öðruvísi en Edinborg, hvað er eins, hvað er svipað og svo framvegis. Eitt af því sem við sjáum er að samsetning samfélagsins í verkinu breytist og magn peninga í umferð sömuleiðis, það er öðruvísi að eiga í kröggum í Reykjavík en í Edinborg.“

Stéttaskipting er falin í Reykjavík Kolbrún vill meina að efnahagslegur raunveruleiki Reykjavíkur hafi breyst mikið síðustu ár með fleiri ferðamönnum og meiri uppbyggingu. Það breyti stöðu þeirra sem hafi minna milli handanna. „Ég ólst upp í Reykjavík og við áttum ekki endilega mikla peninga en það er öðruvísi en að alast upp í Reykjavík núna og eiga ekki pening. Núna virðist vera mikil áhersla á veraldleg gæði. Fólk er upptekið af því hvað það fær borgað, hvað hlutir kosta, að eiga það sem aðrir eiga og mega það sem aðrir mega. Spurningin er hvernig okkar persónur upplifa sig í samfélagi sem er upptekið af því veraldlega.“

Kolbrún segir að á Bretlandseyjum sé stéttarvitund hins vegar mikil og það verði frekar hluti af sjálfsmynd fólks og heimssýn að tilheyra verkamannastétt. Þar er Edinborg engin undantekning. „Ég er í þessari stétt og við gerum hlutina svona, segir fólk á Bretlandi, en hér er þetta miklu faldara,“ segir Kolbrún. „Sem barni var manni sagt að það væri bara ein stétt á Íslandi en svo fór maður í kaffiboð til vinkonu sinnar og það var meira bakkelsi á borðinu þar en hjá öðrum.“

Dæmisagan verður margslungnari

Fyrir utan stéttapólitískar vangaveltur sækir Kolbrún líka „djúsí“ kringumstæður í Mídasargoðsögnina, ásamt vænum skerf af drama og myndrænu táknmáli. „Ekki ósvipað Shakespeare þá er þetta líka saga sem við eigum öll saman og fólk þekkir jafnvel fyrir fram. Mídas er forréttindapési sem vill meira og meira og þetta er sígild dæmisaga um græðgi.“ Dæmisagan verður hins vegar margslungnari ef Mídas er ekki kóngur. „Hjá okkur er hann bara einstæður faðir sem er að reyna að eiga nóg en klúðrar því.“ Í því felst jafnvel meiri harmur en í upprunalegu sögunni. „Er hann þá endilega gráðugur eða er

ekki bara eðlilegt og fallegt að reyna að sjá fyrir sér og börnunum sínum?“ spyr

Kolbrún og bætir við að venjulegt fólk eigi ekki mikið sammerkt með fornum konungum. Þess vegna reyni hún að færa söguna nær áhorfendum í leikritinu.

Hversdagsleikinn áríðandi í rugluðum heimi Innan um lífsumbreytandi töfra í Þetta er gjöf finnum við líka að hversdagsleikinn er ekki langt undan. Innan um örlagarík kraftaverk snýst lífsbaráttan eftir sem áður um að borga leiguna og borða brauð. „Eitt sem er fallegt við töfraraunsæi er að það er líka raunsæi,“ segir Kolbrún. „Töfrarnir eru enn þá meiri einmitt vegna þess að það þarf enn þá að elda matinn og reima skóna, þó að allt breytist í gull.“

Mitt í þessum hugleiðingum segir Kolbrún líka að það sé offramboð af rugli og brjálæði í heiminum í dag og nefnir Trump og hörmungarnar á Gasa sem dæmi. „En við þurfum bara að halda áfram í hversdagsleikanum þrátt fyrir allt. Við þurfum samt að skræla kartöflur. Þótt heimurinn sé að farast þurfum við samt að setja í þvottavél,“ segir hún.

Ný hlutverk verða til eftir missi Í leikritinu kynnumst við feðginum sem ganga saman í gegnum súrt og sætt og deila sinni upplifun af missi. „Samband þeirra er fallegt, að minnsta kosti til að byrja með,“ segir Kolbrún. „Hún sér um hann og hann reynir að sjá um hana á móti. Það er ekki yfirdrifið eða væmið en þau vita að þau elska hvort annað,“ segir hún.

Kastljósið beinist ekki oft að börnum sem sjá um foreldra sína, segir Kolbrún, en sú er staðan hjá þessum feðginum. „Það verða til ný hlutverk eftir missi á heimilinu og umönnunin getur orðið kvöð þótt hún sé kærleiksrík. Persónurnar upplifa kannski að það sé ekki í boði að bregðast fólkinu sínu.“

Sparsöm á texta

Strax við fyrstu yfirferð á handriti Kolbrúnar finnur lesandinn að hún er spör á orðin en að heilmikil merking og spenna býr undir textanum. „Ég hrífst af þannig texta,“ segir Kolbrún. „Foreldrar mínir fara sparlega með texta í sínum bókum og ég reyni að spara orðin í mínum leikritum. Það er gefandi að segja sem mest með sem fæstum orðum.“ Móðir Kolbrúnar er Friðrika Benónýsdóttir sem er bókmenntafræðingur, rithöfundur og þýðandi, og þýðir leikritið Þetta er gjöf ásamt Kolbrúnu, en faðir hennar er Sigfús Bjartmarsson ljóðskáld og járnamaður. „Það er óþarfi að vera með eitthvert bruðl.“ Þannig segir Kolbrún að stóra verkefnið við smíði þessa texta hafi verið að halda honum ljóðrænum án þess að hann yrði of háfleygur, að byggja verkið frekar á stærri myndum og færri orðum.

Leikstýrir eigin verki

Þegar Þetta er gjöf var sviðsett í Skotlandi leikstýrði Kolbrún ekki verkinu sjálf, en nú situr hún í leikstjórastólnum. „Sjálf hef ég leikstýrt fjölda sýninga, en mér fannst að mörgu leyti gott að leikstýra ekki sjálf frumflutningnum í Skotlandi, heldur fá að fylgjast með verkinu öðlast líf í meðförum annars leikstjóra. Það hefur hins vegar verið mjög gefandi að leikstýra verkinu sjálf núna, finna á því nýja fleti og ekki síst að starfa með því frábæra listafólki sem tekur þátt í því að skapa leiksýninguna hér.“

Matthías Tryggvi Haraldsson tók viðtalið.

Mídas

Ýmsar sögur eru til af Mídasi konungi í grískum goðsögum og víðar, en hann var einkum þekktur fyrir heimsku sína og græðgi. Sögur af honum voru meðal annars sviðsettar í gamansömum satýrleikjum eða bukkaleikjum forn-gríska leikhússins. Þær koma einnig fyrir í klassískum ritum á borð við Ummyndanir rómverska skáldsins Óvíðs. Þekktasta sagan af Mídasi segir frá því hvernig hann öðlaðist þann eiginleika að geta breytt öllu sem hann snerti í gull.

Dag einn uppgötvaði Díonýsos, guð víns, ölvunar, frjósemi og innblásturs, að satýrinn Sílenos, sem var fósturfaðir hans og félagi, var horfinn. Gamli satýrinn hafði reikað burt í drykkjuvímu. Díonýsos hafði miklar áhyggjur af Sílenosi en gladdist mjög þegar hann komst að því að Mídas konungur hafði tekið satýrinn upp á sína arma, gert vel við hann í mat og drykk og þeir skemmt hvor öðrum dögum saman með sögum og söngvum. Í þakkarskyni ákvað

Díonýsos að Mídas mætti bera fram eina ósk og að hann skyldi fá þá ósk sína uppfyllta. Mídas óskaði sér þess að allt sem hann snerti yrði að gulli.

Ósk Mídasar rættist og hann skemmti sér stoltur við að breyta hinu og þessu í kringum sig í gull, meðal annars rósunum í rósagarði sínum. En þegar hann uppgötvaði sér til skelfingar að matur og drykkur urðu einnig að gulli í höndum hans áttaði hann sig á því að hinn nýfengni töframáttur var í raun bölvun. Í einni gerð sögunnar varð dóttir Mídasar ákaflega döpur við að komast að því að rósirnar í rósagarðinum voru stirðnaðar og höfðu glatað angan sinni, en þegar Mídas rétti hönd sína að dóttur sinni til að hugga hana varð stúlkan einnig að gulli. Mídas, sem var sjálfur við það að svelta til bana, bað til Díonýsosar að bölvuninni yrði aflétt. Díonýsos bænheyrði hann og sagði honum að baða sig í ánni Paktólos. Þegar Mídas snerti ána rann töframáttur hans í hana, og sandurinn á árbakkanum varð að gulli. Í annarri gerð sögunnar dó Mídas úr hungri áður en bölvuninni var aflétt.

Friðrika Benónýsdóttir

vann lengi sem blaðamaður og bókmenntagagnrýnandi hjá ýmsum fjölmiðlum. Hún skrifaði rómaða ævisögu Ástu Sigurðardóttur, og hefur sent frá sér tvær skáldsögur og ljóðabók. Síðustu árin hefur hún einbeitt sér að þýðingum og komið hafa út á íslensku rúmlega þrjátíu skáldsögur sem hún hefur þýtt úr ensku, sænsku og dönsku. Fyrir þýðingar sínar hefur hún þrisvar verið tilnefnd til þýðingaverðlaunanna Ísnálarinnar.

Gyða Valtýsdóttir

hefur komið víða við á tónlistarferli sínum, en hún vakti fyrst athygli sem einn af meðlimum hljómsveitarinnar múm. Hún lauk tveimur meistaragráðum frá Tónlistarskólanum í Basel í Sviss, í klassískum sellóleik og frjálsum spuna. Hún hefur unnið með fjölmörgu listafólki, samið tónlist fyrir leiksýningar, dansverk og kvikmyndir og leikið inn á fjölda hljómplatna. Gyða hefur sent frá sér fjórar breiðskífur. Þrjár þeirra hafa unnið Íslensku tónlistarverðlaunin sem plata ársins í opnum flokki og sú fjórða vann í flokknum upptökustjórn ársins. Fyrir plöturnar Evolution og Ox var Gyða tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna og hún hlaut þau árið árið 2019 fyrir „tónlistarflutning þar sem sköpunarkrafturinn brýst fram með afgerandi rödd, frumlegum hljóðfæraleik og miklum persónutöfrum“. Gyða og Úlfur Hansson skipa tvíeykið ROR sem sendi frá sér plötuna Auga.

Úlfur Hansson er tónskáld, hljóðlistamaður og hljóðfærahönnuður. Hann lauk BA-prófi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og meistaragráðu frá Mills College í Bandaríkjunum. Tónsmíðar hans spanna vítt svið, og ná m.a. yfir tilraunakennda raftónlist, þungarokk og klassíska nútímatónlist. Hann hefur sent frá sér fjórar sólóplötur og tvær af plötum hans hafa verið tilnefndar til Kramer-verðlaunanna. Hann hefur samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, Nordic Affect og Myrka Músíkdaga. Hann hefur jafnframt unnið að tónsmíðum fyrir kvikmyndir, heimildamyndir og sjónvarpsþætti. Hann hefur unnið með fjölda tónlistarmanna sem hljóðfæraleikari, útsetjari og upptökustjóri. Hann hefur m.a. stýrt upptökum á plötum eftir Gyðu Valtýsdóttur, og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir upptökustjórn á plötu hennar Ox. Úlfur og Gyða skipa tvíeykið ROR sem sendi frá sér plötuna Auga. Úlfur hefur unnið að hönnun hljóð- og rýmisskúlptúra ásamt Elínu Hansdóttur. Hann hefur einnig lagt stund á hönnun og smíði rafhljóðfæra. Hann hlaut Guthman Musical Instrument verðlaunin og nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir segulhörpu sína, sem notuð var á Cornucopia-tónleikaferð Bjarkar.

Guðný Hrund Sigurðardóttir

er sjálfstætt starfandi leikmynda- og búningahönnuður sem vinnur á mörkum sviðslista og myndlistar. Hún útskrifaðist frá myndlistardeild LHÍ árið 2006 og árið 2011 útskrifaðist hún með BA-gráðu frá leikmyndadeild Royal Welsh College of Music and Drama. Hún gerði leikmynd og búninga í Þjóðleikhúsinu fyrir samstarfsverkefnin Óperuna hundrað þúsund, Prinsinn og Íslandsklukkuna. Hún hefur unnið að mörgum sýningum með sjálfstætt starfandi listafólki og leikhópum, svo sem með Marmarabörnum, Sögu Sigurðardóttur, Önnu Kolfinnu Kuran og Rósu Ómarsdóttur. Guðný er einn af listrænum stjórnendum sviðslistahópsins Bíbí og blaka en hópurinn hlaut Grímuna í flokknum barnasýning ársins fyrir Veru og vatnið. Meðal verkefna sem hún hefur tekið þátt í í Borgarleikhúsinu eru Laddi, Kjarval og Góða ferð inn í gömul sár. Guðný hefur verið tilnefnd sex sinnum til Grímunnar og hún hlaut verðlaunin fyrir Moltu og Eyður.

Hilmar Guðjónsson

útskrifaðist frá leiklistardeild LHÍ 2010. Hann leikur í Nýtt eldhús eftir máli og Eltum veðrið í Þjóðleikhúsinu í vetur. Hann lék hér í Heim, Múttu Courage, Nokkur augnablik um nótt, Hvað sem þið viljið, Ást og upplýsingum, Rómeó og Júlíu og Upphafi. Hann leikstýrði Rauðu kápunni og Verkinu í Hádegisleikhúsinu. Hann lék í fjölda sýninga í Borgarleikhúsinu, m.a. Helgi Þór rofnar, Ríkharði III, Sendingu, Mávinum, Sölku Völku, Rauðu, Músum og mönnum, Njálu, Fanný og Alexander og Ofviðrinu. Hann lék í kvikmyndunum Volaða landi, Villibráð, Bjarnfreðarson og Á annan veg og sjónvarpsþáttaröðunum Vigdísi, Verbúðinni, Fólkinu í blokkinni, Drekasvæðinu, Stellu Blómkvist og Venjulegu fólki. Hann var valinn í hóp Shooting Stars árið 2011. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir Rautt og var tilnefndur til Edduverðlaunanna fyrir Á annan veg og Volaða land.

Garðar Borgþórsson

er deildarstjóri í ljósadeild Þjóðleikhússins. Hann hefur hannað lýsingu, séð um hljóðhönnun og samið tónlist fyrir fjölda sýninga, meðal annars í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Hafnarfjarðarleikhúsinu. Garðar hefur einnig unnið ýmsa tæknivinnu og séð um tæknikeyrslu fyrir tugi sýninga.

Kristján Sigmundur Einarsson

lauk hljóðtækninámi frá SAE institute í London árið 2011. Hann hefur starfað sem hljóðmaður við Þjóðleikhúsið frá árinu 2013 og hannað hljóðmyndir fyrir fjölda sýninga, meðal annars Orð gegn orði, Ást Fedru, Draumaþjófinn, Sem á himni og Sjö ævintýri um skömm. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir hljóðmynd ársins fyrir Ást Fedru og ásamt Eggerti Pálssyni fyrir Ofsa og hefur auk þess verið tilnefndur til Grímuverðlauna fyrir Segulsvið og Engilinn. Kristján hefur starfað við fjölda hljóðverkefna utan leikhússins og hefur leikið með ýmsum hljómsveitum.

Starfsfólk Þjóðleikhússins

Ásdís Þórhallsdóttir, leiksviðsstjóri

Guðmundur Erlingsson, umsjón minni sviða

Eglé Sipaviciute, umsjón Litla sviðsins

Siobhán Antoinette Henry, yfirumsjón á Stóra sviðinu

Alexander John George Hatfield

Jón Stefán Sigurðsson, í leyfi

Tómas Sturluson

Sigurður Hólm Lárusson

Bókhald og laun

Guðrún Ingólfsdóttir, bókhaldari

Steinunn Þorsteinsdóttir, launafulltrúi

Marian Chmelar, matreiðslumaður

Karolina Zielaskowska, aðstoðarmaður

Umsjón fasteigna

Sveinbjörn Helgason, húsvörður

Jurate Zofija Gliaudeliene, ræsting

Margarita Albina, ræsting bakdyravörður bakdyravörður

Ofangreindir starfsmenn eru fastráðnir við Þjóðleikhúsið eða starfa þar samkvæmt árssamningi á yfirstandandi leikári, en auk þeirra vinna fjölmargir aðrir starfsmenn í leikhúsinu.

Þjóðleikhúsráð

Halldór Guðmundsson, formaður

Þóra Einarsdóttir, varaformaður

Erling Jóhannesson

Katrín Gunnarsdóttir

Kristinn Sigmundsson

Valgerður G. Halldórsdóttir

Vigdís Jakobsdóttir

Þjóðleikhúsið

Miðasölusími: 551 1200

Netfang miðasölu: midasala@leikhusid.is www.leikhusid.is

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.
Þetta er gjöf - Leikskrá by Þjóðleikhúsið - Issuu