4 minute read

Andleg einkaþjálfun skiptir sköpum

Mörg okkar sem höfum gengið í gegnum krabbameinsmeðferðir þurfum að læra að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum sem geta verið heilmikil þrautaganga

Hér áður fyrr mátti fólk þakka fyrir að hafa lifað krabbamein af en þá var lítið gert úr afleiðingum meðferðar og þeim síðbúnu aukaverkunum sem skertu lífsgæði þessara einstaklinga. Eftir því sem fleiri læknast af krabbameini og lifa með afleiðingar þess, því háværari verða þær raddir sem vilja að meiri áhersla sé lögð á endurhæfingu krabbameinsgreindra og þá erum við ekki aðeins að tala um líkamlega endurhæfingu heldur einnig andlega. Sem betur fer hafa stjórnvöld nú gert sér betur grein fyrir mikilvægi andlegrar heilsu og áhrifum hennar á líkamlega heilsu og settu loksins, á þessu ári, sálfræðimeðferðir undir Sjúkratryggingar Íslands.

Advertisement

Mörg okkar sem höfum gengið í gegnum krabbameinsmeðferðir þurfum að læra að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum sem geta verið heilmikil þrautaganga. Líkaminn er ekki sá sami og hann var og orkan og einbeiting ekki eins mikil. Þessar breytingar geta valdið miklum kvíða og depurð og ekki þá síður ótta um að veikjast aftur og þurfa að ganga aftur í gegnum það erfiða tímabil sem krabbameinsmeðferðir geta verið. Þegar farið er í andlega vinnu vill margt annað dúkka upp. Gömul áföll og skert sjálfsmynd. Það er svo mikilvægt að til að byggja upp sjálfsmyndina eftir krabbamein að farið sé í saumana á öllu því sem veldur manni hugarangri og vekur upp vanlíðan því ástæðan getur verið svo djúpstæð. Maður þarf að læra að setja sjálfan sig og heilsu í forgang og finna það sem hentar manni best til að koma jafnvægi á andlega heilsu og auka þannig vellíðan. Það sem virkar fyrir krabbamein, þarf ekki endilega að virka lengur, og maður þarf aðeins að prufa sig áfram með það sem hentar manni núna.

Margt stendur til boða þeim sem vilja styrkja sína andlegu heilsu. Viðtöl við sálfræðing eru mjög gagnleg til að komast að rót vandans og ákveða viðeigandi meðferðarúrræði en Kraftur í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands, býður upp á endurgjaldslausa sálfræðiþjónustu. Aðrar gagnlegar meðferðir eru t.d. EMDR-meðferð við áfallastreitu, HAM-meðferð við þunglyndi og kvíða, dáleiðsla, heilun/orkustöðvajöfnun, jóga og hugleiðsla. Slíkar meðferðir samhliða reglulegri líkamlegri hreyfingu og smá dekri geta gert kraftaverk og stuðlað að andlegri vellíðan.

Að setja sér markmið

Það hefur sannað sig að það tekur 40 daga að skapa nýjan vana. Settu þér markmið og prófaðu einhverja andlega þjálfun í 40 daga og sjáðu hvort hún henti þér. Athugaðu að ein þjálfun gæti hentað þér betur en önnur svo ekki gefast upp þó einhver henti þér ekki.

Kraftur býður upp á ýmsa þjónustu og stuðning sem getur hjálpað þér að komast í andlegt form og jafnvel í leiðinni í líkamlegt form. Eins er Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins með ýmis námskeið sem og Ljósið. Hér má sjá nokkur þjónustuúrræði sem snúa að andlegri og líkamlegri heilsu og eru í boði hjá félögunum.

Markþjálfun

Stundum vitum við ekki hvað við viljum fá út úr lífinu eða hvert við viljum stefna. Þetta á sérstaklega við eftir krabbameinsmeðferð þegar maður þarf að aðlagast breyttum aðstæðum og endurmeta forgangsröðun í lífinu. Við verðum einhvern veginn hreinlega týnd og þurfum jafnvel aðstoð við að finna okkur. Með markþjálfun gefst þér kostur á að auka yfirsýn og bæta árangur bæði í einkalífinu og í starfi. Markþjálfunin fer fram með maður á mann samtölum þar sem þú hittir markþjálfa og miða samtölin að því að laða fram það besta hjá þér. Með markþjálfuninni geturðu öðlast skýrari sýn á hvað þig raunverulega langar að gera í lífinu og einnig bætir hún sjálfstraustið til muna. Þú nærð að þekkja þig betur og þínar væntingar.

Kristín Þórsdóttir er markþjálfi Krafts og er markþjálfun Krafts félagsmönnum að kostnaðarlausu. Sendu póst á markthjalfun@kraftur.org eða hringdu í síma 866-9600 fyrir nánari upplýsingar.

Jóga nidra djúpslökun og hugleiðsla

Með jóga nidra djúpslökun og hugleiðslu nærðu að slaka á, losa um spennu og streitu. Djúpslökunin getur bætt svefn og skapað jafnvægi í líkama og sál og hjálpað til við kvíða og eykur vellíðan. Eftir krabbameinsmeðferðir er taugakerfið oft í ójafnvægi og getur jóga nidra hjálpað til við að koma jafnvægi á það. Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð 8 eru opnir tímar í djúpslökun alla þriðjudaga kl. 15.00 í 45 mínútur. Ekkert gjald er tekið fyrir tímana og er skráning óþörf. Leiðbeinendur eru Auður E. Jóhannsdóttir og Lóa Björk Ólafsdóttir. Hringdu í síma 800-4040 eða sendu póst á radgjof@krabb.is fyrir nánari upplýsingar.

Að klífa brattann

Kraftur er með gönguhópinn „Að klífa brattann.“ Þar er markmiðið að ganga sér til heilsueflingar í náttúru Íslands en gönguferðirnar eru á flestra færi. Þarna er bæði um líkamlega endurhæfingu að ræða sem og andlega þar sem fólk getur notið þess að vera í hópi jafningja í náttúrunni og um leið notið þess að vera í núinu. Markmiðið er að vera með göngu einu sinni í mánuði.

Ragnheiður Guðmundsdóttir sér um gönguhópinn en hún hefur sjálf greinst með krabbamein. Þú getur fundið allt um gönguhópinn á www.kraftur.org eða á Facebook-síðu hópsins.

Styrking andlegrar getu

Hjá Ljósinu, endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra, getur þú fengið einstaklingsmiðaða endurhæfingaráætlun. Inn í endurhæfingaráætlun fléttast ýmis námskeið sem styrkja andlega getu. Má þar nefna: Fræðsla fyrir nýgreindar konur, fræðsla fyrir nýgreinda karlmenn, að greinast í annað sinn, fólk með langvinnt krabbamein, þrautsegja og innri styrkur og skammtímasköpun og námskeið fyrir aðstandendur.

Allar nánari upplýsingar er að finna á www.ljosid.is.

Núvitund

Núvitund snýst um það að ná að vera með hugsunum sínum, leyfa þeim og koma og fara eins og þær vilja án þess að reyna grípa þær eða ýta þeim burtu. Rannsóknir sýna að núvitundariðkun getur hjálpað við ýmis heilsufarsvandamál eins og streitu, þunglyndi og kvíða. Reglulega eru haldin núvitundarnámskeið bæði hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins og í Ljósinu.

Nánari upplýsingar er að finna á www.krabb.is og www.ljosid.is